Elín Kristín Helgadóttir fæddist á Patreksfirði 7. apríl 1959. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Helgi Elíasson, f. 18. apríl 1917, d. 4. október 1978, og Ingibjörg Ingimundardóttir, f. 8. febrúar 1918, d. 10. desember 1999, þau voru bændur á Hvallátrum. Systkini Elínar: Þórunn, f. 1938, d. 1999; Jóna Guðmunda, f. 1942; Barði, f. 1945, d. 1999; Ingólfur, f. 1948; Halldóra, f. 1950; Elías Ingjaldur f. 1952, d. 2021; Gestur, f. 1954; Valur, f. 1956; Sigrún Ólafía, f. 1960; Stefnir, f. 1961.

Elín giftist Sveini Svavari Gústafssyni 16. október 1982. Foreldrar Sveins voru Guðrún Sveinsdóttir, f. 4. ágúst 1920, d. 28. mars 2004, og Gústaf Sigurgeirsson, f. 5. nóvember 1919, d. 25. desember 1993. Börn Elínar og Sveins eru: 1) Þorvaldur, f. 29. júlí 1979, kona hans er Alrún Ýr Steinarsdóttir, f. 1983, og börn þeirra eru: Elías Ingi, f. 2005, Helgi Snær, f. 2007, Arnar Freyr, f. 2009, Lilja Rakel, f. 2013, og Sunna Ýr, f. 2021. 2) Guðrún, f. 23. júní 1982, maður hennar er Pétur Marel Gestsson, f. 1979, barn þeirra er Andri Þór, f. 2014, og fóstursonur Sigurður Veigar, f. 2017. 3) Inga Helga, f. 23. júlí 1985, maður hennar er Magni Reynir Sigurðsson, f. 1985, og börn þeirra: Sigurður Svavar, f. 2009, Hekla Ýr, f. 2015, og Björgvin Elí, f. 2020.

Útför Elínar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 17. janúar 2025, klukkan 13.

Elsku mamma, þá er komið að kveðjustund.

Það er skrítið að vera að kveðja þig því að þrátt fyrir öll þau veikindi sem þú glímdir við í gegnum árin, þá varst þú einhvern veginn alltaf svo ósigrandi. Sama hvað gekk á þá komstu alltaf aftur heim, yfirleitt glottandi út í annað. Þegar horft er til baka yfir liðin ár blasir við sá styrkur sem þú hefur alltaf búið yfir, engin uppgjöf og alltaf full ferð áfram og stundum var kannski aðeins of mikil ferð á þér.

Þú bjóst yfir ótalmörgum kostum. Þú varst sterk, þrjósk, hugrökk, dugleg, hreinskilin og fyndin, en umfram allt varstu hjartahlý og þú elskaðir fólkið þitt af öllu hjarta og vildir allt fyrir okkur gera. Þú varst fyrst til að bjóðast til að fara með á hin ýmsu íþróttamót þegar við vorum börn og fannst ekkert mál að gista með hópi af krökkum í skólum hingað og þangað um landið. Þér féll aldrei verk úr hendi og varst sérlega bóngóð sem leiddi oft til þess að þú tókst að þér ýmiskonar verkefni. Þú sýndir okkur að ekkert er ómögulegt ef viljinn er fyrir hendi. Þú varst ófeimin við að hreykja þér af okkur og því sem við tókum okkur fyrir hendur og seinna af barnabörnunum þínum.

Þessa síðustu daga sem við áttum með þér, og ljóst var í hvað stefndi, talaði læknirinn um hversu sterkt hjarta þú hefðir sem hreinlega neitaði að gefast upp. Þetta voru svo sem engar fréttir fyrir okkur, við vissum hvað í þér bjó, en þú bjóst líka yfir meiri viljastyrk en nokkur önnur manneskja og hafðir sýnt okkur það oft í gegnum árin. Það kom hins vegar að þessari stund og nú kveðjum við þig um leið og við þökkum fyrir að hafa átt þig í öll þessi ár. Við elskum þig mamma.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þorvaldur, Guðrún og Inga Helga.

Við kynntumst árið 1979 þegar við Stefnir litli bróðir þinn fórum að draga okkur saman. Þá varst þú með nýfæddan frumburðinn þinn í kjallaranum í Skipasundinu, þú tvítug og ég átján. Við tvær brölluðum ýmislegt saman, það verður ekkert tíundað hér. Þarna um tvítugt fannst manni veröldin blasa við og manni vera allir vegir færir. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Þú ákvaðst að flytja í Borgarnes með frumburðinn þinn lítinn, sem var mikið gæfuspor því þar fannstu Svein þinn, sem alla tíð síðan hefur staðið við hlið þér, kletturinn þinn. Þið Sveinn eignuðust tvær yndislegar dætur. Við fjölskyldurnar tvær fórum saman í sumarbústaðaferðir, útilegur, tókum saman kjötskrokk til vetrarforða og í mörg ár héldum við sameiginlega upp á áramótin, gistum þá til skiptis í Borgarnesi og Kópavogi með börnin okkar. Elduðum stórsteikur eða grilluðum og skemmtum okkur vel saman. Þetta voru góðar stundir. Ósjaldan fór dóttir okkar í pössun til Ellu og Svenna í Borgarnes. Gaman líka hvað börnin okkar eru og hafa alltaf verið góðir vinir.

En lífið greip inn í þegar við höfðum allt önnur plön. Veikindi þín fóru að láta á sér kræla. Áföllin komu nokkrum sinnum og ung varst þú orðin lömuð á hægri hendi. Það stoppaði þig ekki í daglegum verkum, þið Sveinn hélduð áfram að vera samtaka, heimilið var alltaf tandurhreint og strokið, þú meira að segja prjónaðir. Í gegnum árin höfum svo oft haldið að við værum að missa þig. En alltaf reis Ella upp, aftur og aftur. Ég þekki engan sem er jafn mikill nagli og þú. Þrátt fyrir allan þennan mótbyr sem heilsan og líkami þinn buðu þér upp á, alltaf hélst þú reisn þinni og áfram skyldi haldið. Þú dróst sannarlega stutta stráið hvað hreysti og heilbrigði varðar, en ekki geðslag og þrjósku. Og þrjóskan hélt þér ábyggilega gangandi. Þar til líkaminn endanlega gafst upp núna í ársbyrjun.

Elsku Ella mágkona mín. Við hittumst aftur þegar minn tími er kominn. Megirðu fara í friði, frjáls og laus við öll líkamleg mein. Takk fyrir allt.

Unnur.