Áræði „Það krefst hugmyndaflugs, þekkingar og áræðis að tengja saman fortíð og samtíð á þann hátt sem HHG gerir í nýrri bók sinni,“ skrifar rýnir um nýjustu bókina úr smiðju Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.
Áræði „Það krefst hugmyndaflugs, þekkingar og áræðis að tengja saman fortíð og samtíð á þann hátt sem HHG gerir í nýrri bók sinni,“ skrifar rýnir um nýjustu bókina úr smiðju Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fræðirit Conservative Liberalism – North & South ★★★★· Eftir Hannes H. Gissurarson. ECR Party, Brussel 2024. Kilja, 240 bls. nafna- og heimildaskrár.

Bækur

Björn

Bjarnason

Á COVID-19-árunum (2020 og 2021) sendi Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, frá sér tvær bækur á ensku um 24 frjálslynda íhaldsmenn, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers.

Þeir eru: Snorri Sturluson, St. Thomas Aquinas, John Locke, David Hume, Adam Smith, Edmund Burke, Anders Chydenius, Benjamin Constant, Frédéric Bastiat, Alexis de Tocqueville, Herbert Spencer, Lord Acton, Carl Menger, William Graham Sumner, Ludwig von Mises, Friedrich A. von Hayek, Wilhelm Röpke, sir Karl R. Popper, Michael Oakeshott, Bertrand de Jouvenel, Ayn Rand, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick.

Í röðinni eru nöfn þeirra skáletruð sem fá sérstaka kafla í bókinni Conservative Liberalism North & South – Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson (HHG) sendi frá sér undir lok síðasta árs, nú sem prófessor emeritus.

Snorri er fremstur í nýju bókinni eins og þegar HHG skipaði honum í fyrsta sæti meðal frjálslyndra hugsuða árið 2020 og tók til við að færa rök fyrir þessari skoðun sinni á Snorra í ræðu og riti, hér heima og erlendis.

Miðaldastofa Háskóla Íslands efndi meðal annars til fundar um túlkun HHG á Snorra sem frjálslyndum íhaldsmanni 2. desember 2021. Þar báru saman bækur sínar um þetta efni HHG og Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði, sem sagðist sammála HHG um margt eins og sagði hér í blaðinu 4. desember 2021. Sverrir velti hins vegar fyrir sér „að hve miklu leyti væri hægt að heimfæra skilgreiningar úr nútímastjórnmálum á menn og málefni fyrri alda“.

Það krefst hugmyndaflugs, þekkingar og áræðis að tengja saman fortíð og samtíð á þann hátt sem HHG gerir í nýrri bók sinni. Hann hefur vafalaust fundið þörf fyrir yfirlitsrit um fortíð og nútíð frjálshyggju við flutning fyrirlestra víða um lönd á undanförnum árum. Þar hefur hann verið óþreytandi við að skipa Snorra Sturlusyni sess meðal hugsuða sem hafa mótað stjórnarfar frjálsyndra lýðræðisríkja í samtímanum. HHG telur að frið eigi að reisa á því sem hann kallar norrænu leiðina í alþjóðamálum: friðsamlegum aðskilnaði þjóða, sjálfstjórn þjóðarbrota, landamærabreytingum samkvæmt atkvæðagreiðslum, málskoti til alþjóðadómstóla um deilumál ríkja og sjálfsprottnu samstarfi þeirra með lágmarksafsali fullveldis.

HHG segir að frjálshyggja eigi sér annars vegar djúpar rætur í venjurétti og þinghaldi norrænna þjóða, eins og Snorri Sturluson lýsir í Heimskringlu, og hins vegar í náttúrurétti í samræmi við skoðun heilags Tómasar af Akvínas, það er að til séu siðferðilegar, algildar meginreglur sem móti lögin.

Upp úr þessum hugmyndum hafi réttarríkið sprottið. Lögin ráði frekar en mennirnir. Almenningur geti skipt um valdhafa á nokkurra ára fresti, ef hann vill.

Stjórnarfar í þessum anda er talið sjálfsagt í frjálslyndum lýðræðisríkjum sem virða alþjóðalög. Stjórnarhættir þeirra eiga hins vegar undir högg að sækja. Herská einræðisríki færa sig upp á skaftið og fá hljómgrunn á ólíklegustu stöðum.

Bók HHG er kjörinn efniviður fyrir þá sem vilja haldgóðar röksemdir í málsvörn fyrir opna lýðræðislega, frjálslynda stjórnarhætti. Það sem segir um skoðanir stjórnmálaheimspekinganna og þróun kenninga þeirra er háfræðilegt og oft þungt aflestrar. Þegar kemur að Dananum Nikolaj F.S. Grundtvig (1783-1872) og Ítalanum Luigi Einaudi (1879-1963) verður textinn liprari og ljóslifandi.

Í fyrra frumsýndi danska ríkissjónvarpið þáttaröð sem reist er á ævi Grundtvigs. Áhrif hans á danskt þjóðlíf eru ótvíræð enn þann dag í dag. Skoðanir sínar reisti Grundtvig meðal annars á þekkingu sinni og áhuga á Snorra Sturlusyni og norrænni goðafræði. Enn er vitnað til orða hans: Frelsi fyrir Loka eins og fyrir Þór. Þau eru túlkuð á þann veg að þeir sem njóti lítillar virðingar eins og Loki eigi ekki síður rétt á að láta rödd sína heyrast en hetjan Þór. HHG segir að megintilgangur Grundtvigs með því að kynna norræna menningararfinn hafi verið að minna Dani á þennan þátt sjálfsmyndar sinnar (71).

Fyrir Grundtvig vakti að virkja alla til þátttöku í þjóðlífinu þegar einveldi konungs var aflétt, ráðgjafaþing komu saman og skoðanafrelsi fékkst. Þátttakan skyldi reist á menntun og sjálfsöryggi í krafti hennar. Þess vegna beitti hann sér fyrir að danska yrði kirkjumálið, bændur og borgarar hittust í lýðháskólunum og dönskum hefðum og þjóðarstolti yrði sýnd virðing. Á árum hans áttu Danir í höggi við Þjóðverja vegna yfirráða í Slésvík. Ekki var hlustað á Grundtvig sem vildi leysa deiluna með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeirri aðferð var ekki beitt fyrr en árið 1920, að loknum mannskæðum styrjöldum. Nú efast enginn um að Grænlendingar eigi að ráða framtíð sinni í atkvæðagreiðslu.

Það er snjallræði hjá HHG að bera saman alþjóðafrjálshyggju Luigis Einaudi og þjóðernisfrjálshyggju Grundtvigs til að leiða lesandann inn í samtímann í Evrópu. Annars vegar er skáldið, norræni guðfræðingurinn og alþýðuprédikarinn um glaðværa kristindóminn og hins vegar hagfræðiprófessorinn, skattafræðingurinn og alvörugefni stjórnmálamaðurinn sem lagði grunn að sameiningu Ítalíu og stuðlaði að hagsæld þar eftir aðra heimsstyrjöldina. Hún sannfærði hann um að vinna bæri að sambandsríki Evrópu. Draumi sem ekki rætist, ekki síst vegna þjóðarstoltsins í norðri.

Álitamálið um að hve miklu leyti sé hægt að heimfæra skilgreiningar úr nútímastjórnmálum á menn og málefni fyrri alda er áleitið. HHG tekst það vel í þessari bók sinni. Fyrir frjálslynda höfunda og fræðimenn er auðveldara að gera það en þá sem aðhyllast úreltar marxískar kenningar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson á brýnt erindi við samtímann þegar hann finnur frjálslyndri íhaldssemi stoð meðal fremstu hugsuða fortíðar, þeirra sem sækja styrk sinn í menningarlegan trúararf og viðurkenningu á því að hver sé sinnar gæfu smiður.