Í Zagreb
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Ísland hóf heimsmeistaramót karla í handknattleik í gærkvöld með öruggum sigri gegn Grænhöfðaeyjum, 34:21, í Zagreb Arena í höfuðborg Króatíu.
Þar sem Slóvenía vann yfirburðasigur á Kúbu í fyrri leik umferðarinnar, 41:19, er ljóst að íslenska liðið á frekar auðvelt verkefni fyrir höndum gegn Kúbu annað kvöld og Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari ætti að geta hvílt lykilmenn talsvert. Síðan hefst baráttan fyrir alvöru með leiknum við Slóvena á mánudagskvöldið.
Íslenska liðið stakk af í fyrri hálfleik þegar það komst í 8:2 og síðan í 16:7 en 18:8 var staðan í hálfleik. Fyrirliðinn Elliði Snær Viðarsson fékk rauða spjaldið fyrir að slá Edmilson Araujo í andlitið undir lok hálfleiksins og kom því ekki meira við sögu.
Ísland komst mest 14 mörkum yfir snemma í seinni hálfleik. Liðsmenn Grænhöfðaeyja neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í 25:16 með því að skora fimm mörk í röð.
Íslenska liðið tók þá við sér, skoraði næstu þrjú mörk og komst 12 mörkum yfir þegar skammt var eftir, 28:16. Skiptust liðin á að skora eftir það og sannfærandi íslenskur sigur varð raunin, þrátt fyrir mun slakari seinni hálfleik.