Fyrirhugað er að aðalmeðferð í Neskaupstaðarmálinu svokallaða, þar sem karlmaður á fimmtugsaldri er ákærður fyrir að myrða hjón á áttræðisaldri með hamri, fari fram 10. og 11. febrúar og mögulega 12. febrúar ef þörf er á. Þetta kom fram í fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Austurlands í gær.
Greint var frá því þegar málið var þingfest í síðustu viku að til skoðunar væri að hafa fjölskipaðan dóm, þ.e. að dómari myndi hafa meðdómara með sér í málinu. Var dómarinn þá ekki búinn að skipa meðdómara. Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari málsins staðfestir nú að búið sé að ákveða meðdómara. Auk Hákons Þorsteinssonar, héraðsdómara við Héraðsdóm Austurlands, verða það þau Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, og Tómas Zoëga geðlæknir.
Jafnframt staðfesti Arnþrúður að greinargerð verjanda hefði verið skilað og að engin ákvörðun hefði verið tekin um hvort málið yrði að hluta til lokað, en slíkt kom til umræðu við þingfestingu, þó að hvorki saksóknari né verjandi hefðu farið fram á það.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi og vistun síðan í ágúst þegar hann var handtekinn. Er hann grunaður um að hafa valdið dauða hjónanna sem fundust látin á heimili sínu í Neskaupstað í ágúst. Hann neitar sök. Var krafa um vistun á viðeigandi stofnun síðan staðfest af dómara til 14. mars.
Í ákærunni segir m.a. að maðurinn hafi veist að hjónum innandyra með hamri og slegið þau bæði oft með hamrinum, einkum í höfuð.