Sigurlaug Erla Pétursdóttir fæddist 8. maí 1934 á Árbakka á Hvammstanga.
Hún lést á hjúkrunardeild sjúkrahússins á Hvammstanga 6. janúar 2025.
Erla, eins og hún var kölluð, var dóttir hjónanna Auðbjargar Gunnlaugsdóttur húsmóður og kaupkonu, f. á Geitafelli 3. okt. 1911, d. 1980, og Péturs Gunnarssonar sjómanns og bónda, f. í Viðey 21. júlí 1889, d. 1946, systkini Erlu: María, f. 1932, Auðbjörg, f. 1933, Gunnlaugur, f. 1935, Guðrún, f. 1939, og Soffía, f. 1941, af þeim er aðeins Guðrún á lífi.
Ögn Jónína Gunnlaugsdóttir, f. 31. ágúst 1894, d. 1987, móðursystir Erlu, og maður hennar Guðmundur Arason, f. 1. ágúst 1893, d. 1961, tóku hana í fóstur aðeins tveggja ára gamla, áður hafði hún verið um tíma í Grænahvammi. Hjá þeim heiðurshjónum á Illugastöðum á Vatnsnesi bjó hún við gott atlæti og kallaði hún þau alltaf pabba og mömmu.
Hún var mjög ung þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn með barnsföður sínum Hallmanni, f. 1930, d. 1995, dóttir þeirra er Petrea Lára f. 5. jan. 1951, maki Egill Þórólfsson, f. 18. maí 1948, þau eiga tvo syni, Sigurð Hallmann og Þórólf Jón, ásamt sex barnabörnum og tveimur barnabarnabörnum.
Erla giftist þann 8. maí 1954 Sigurði Bjarnasyni, f. 29. ágúst 1909, d. 23. mars 1965, húsasmið frá Klúku í Bjarnarfirði. Börn þeirra eru: 2) Guðmundur Stefán f. 26. des. 1953, maki Jóna Valgerður Valgeirsdóttir, f. 20. ágúst 1959. Hann á fjögur börn; Önnu Láru, Maríu Ögn, Fanneyju Dögg og Andra Pál, ásamt sex barnabörnum. 3) Jóhannes Helgi, f. 5. des. 1954, maki Kristín Guðbjörg Elfarsdóttir, f. 11. sept. 1955. Hann á tvö börn; Írisi Rut og Sigurð Natan, ásamt fjórum barnabörnum. 4) Jónína Auður, f. 31. ágúst 1956. Hún á þrjú börn; Arnór, Anton Albert og Kristrúnu Ósk, ásamt átta barnabörnum. 5) Ingi Rúnar, f. 19. jan. 1959, maki Þóra Björg Guðjónsdóttir f. 10. apríl 1961. Hann á tvo syni; Jóhann Hermann og Ragnar Sæbjörn, ásamt sjö barnabörnum, einnig tvö fósturbörn og fimm fósturbarnabörn. 6) Elísabet Laufey, f. 24. nóv. 1960, hún á eina dóttur, Sigríði Erlu, ásamt tveimur dótturdætrum. 7) Pétur Gunnar, f. 29. des. 1962, maki Steingerður Hermannsdóttir, f. 2. sept. 1962. Hann eignaðist þrjú börn, Björn Ingvar, d. 1998, Ingibjörgu Ásu og Sigurlaugu Erlu, ásamt einu barnabarni. 8) Sigríður Ása, f. 4. ágúst 1964, hún á fjögur börn; Einar Ragnar, Hermínu Erlu, Hrólf Leo og Jóhannes Gilbert Leo, ásamt fjórum barnabörnum.
Erla hóf sambúð árið 1969 með Jóhanni Hermanni bónda í Litluhlíð, f. 8. nóv. 1936, d. 12. apríl 2003, þeirra börn: 9) Jakob Ástmar, f. 5. mars 1969, maki Þórunn Jónsdóttir, f. 3. maí 1972, þau eiga einn son, Hermann Grétar, og einn sonarson. 10) Jóhanna Erla f. 1. júlí 1975, maki Reynir Ingi Guðmundsson, f. 25. apríl 1976, þau eiga tvö börn, Ástríði Höllu og Jóhann Smára. Fyrir utan þessi tíu börn sem hún eignaðist þá ólust upp hjá þeim Jóhanni Hermanni í Litluhlíð í Víðidal þau Einar Ragnar og Hermína Erla, barnabörn Erlu. Þannig að segja má að börnin hafi verið tólf, fyrir utan öll sumarbörnin þeirra.
Jarðarförin fer fram í Hvammstangakirkju í dag, 17. janúar 2025, klukkan 13.
Jarðvist á enda,
lífsgöngu lokið,
ljósið þitt slokknað,
fölnuð brá.
Virðing og þökk,
vegferðin öll
vel í huga geymd.
Hljóðnuð er röddin,
hæglátur blærinn,
helguð þín brottför
Drottins náð.
Syrgjendur kveðja,
söknuðinn finna,
sárasta harminn,
tregans tár.
Faðmi þig ljósið,
friðarins engill
fylgi þér nú
á æðra stig.
(Aðalsteinn Ásberg)
Þessi fallegu orð Aðalsteins Ásbergs koma upp í hugann nú þegar ég hugsa til þín, mamma mín.
Mamma var einstök kona, það var sama hvaða verkefni biðu hennar, hún fann alltaf út hvernig best væri að leysa þau. Aðeins rúmlega þrítug varð hún ekkja og átta barna móðir en því miður voru sum börnin sett í fóstur og þann harm bar hún svo sannarlega í hljóði.
Eftir hana liggur ógrynni af handavinnu, hún prjónaði og saumaði allt á okkur börnin og oftar en ekki vorum við öll í eins peysum. Ég spurði mömmu eitt sinn hvenær hún hefði haft tíma til að prjóna allar þessar flíkur. Svarið var einfalt; sagðist bara prjóna á kvöldin þegar við værum sofnuð en ekki fór hún í háttinn á sama tíma því mörg verkefni biðu hennar. Ein besta minningin er hve fallega söngrödd hún hafði, við systkinin fengum að njóta þess á kvöldin þegar hún var að svæfa okkur.
Þrátt fyrir basl og mikla vinnu alla ævi bar hún sig alltaf vel, ekkert stoppaði þessa duglegu vinnusömu konu. Afkomendur þessarar mögnuðu ættmóður eru 74 og einn látinn.
Elsku mamma, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þín dóttir,
Jónína Auður.
Þar kom að kveðjustundinni mamma mín, vissi svo sem að hverju stefndi. Margar eru minningarnar eftir okkar sjötíu og fjögurra ára samverustundir. Ég veit að ég var þér oft erfið, stakk af til afa og ömmu ef ég var svo heppin að rekast á einhvern sem átti leið fram hjá Illugastöðum. Aldrei mátti ég fara út að leika heima á Hvammstanga fyrr en ég var búin að finna pela og/eða snuð litlu systkina minna, einn af ókostum þínum var nefnilega ófundvísi, jafnvel þótt pelinn væri að mér fannst á glámbekk.
Margs er að minnast frá Árbakkaárunum. Man til dæmis að pabbi mátti ekki sjóða skötuna uppi í eldhúsi, það kom ekki að sök, hann mátti sjóða hana niðri í smíðaherberginu og það gerði hann, þar borðuðum við tvö þetta góðgæti, gólfið var gisið svo það var mun meiri ilmur af skötunni uppi í stofu en niðri í kjallara. Það var líka ljúft að bíða eftir að pabbi væri lagstur út af með einhverja af Íslendingasögunum, þá var best að spyrja: „Pabbi minn, má ég fara út?“ Undantekningarlaust var svarið já, þá heyrði ég oft hróp frá þér, mamma mín: „Leyfðir þú stelpunni að fara út?“ Ha, nei, var það.
Ein af þeim slæmu er þegar læknisfrúin okkar kom með Siggu eftir að hún hafði passað hana um helgi 1964, hún smellti saman fingrum, en Sigga fylgdi ekki hljóðinu, þarna var það staðfest að hún væri heyrnarlaus, eins og Hrólfur fósturbróðir þinn. Þetta var svo sannarlega áfall fyrir okkur öll.
Margt breyttist eftir andlát pabba. Stundum var stofan undirlögð af strigakuski af því að þú varst að sauma ullarpoka fyrir eitthvert fyrirtæki, óþrifaleg vinna. En það þurfti að afla fjár, margir voru munnarnir sem þurfti að metta. Einum páskum man ég eftir þar sem fimm af þínum börnum voru á Ísafirði, þér fannst þetta nú fullmikið af því góða, aldrei bjuggum við þó nema fjögur þar í einu. Þér fannst við svolítið langt í burtu, en svona var það, voru þó fjögur hjá þér á Hvammstanga síðustu árin.
Þegar ég var lítil þá fórstu í ferðalag með kvenfélaginu, m.a. til Siglufjarðar, keyptir handa mér bollastell, hvítt með flottum myndun, hluta af þessu á ég enn í dag, en dúkkurúmið sem pabbi smíðaði handa mér glataðist.
Þú varst heppin þegar byrjað var að byggja Tjarnarbæinn því smiðurinn þar var Sigurður Bjarnason frá Klúku í Bjarnarfirði, þið fellduð hugi saman og dásamlegri fóstra gat ekkert barn fengið. Eftir fráfall pabba varstu ein í nokkur ár, kynntist síðar Hermanni í Litluhlíð, þið eignuðust saman tvö börn. Í Víðidalnum bjóstu í rúm þrjátíu ár, fórst oft í sláturhúsið eins og áður.
Þú ferðaðist þó nokkuð í gegnum árin, oftast þó fram á Heiði til að veiða, það fannst þér gaman. Þú varst svo heppin að Hermann hafði eins og þú ákaflega gaman af því að dansa, ófá böllin sem þið fóruð á.
Eftir að við Egill fluttum frá Ísafirði og á Vatnsnesið þá styttist leiðin á milli okkar, strákunum til mikillar gleði, enda báðir miklir ömmustrákar. Nú er komið að leiðarlokum mamma mín, vil ég þakka þér allar góðu stundirnar og alla þína gæsku við mína fjölskyldu í gegn um árin.
Hittumst síðar.
Pésan þín,
Petrea Hallmannsdóttir.
Elsku amma mín, það er alltaf erfitt að horfa á eftir þeim sem manni þykir vænt um og voru manni hvað mest. En það voruð þið afi fyrir mér. Þú varst sú sem ég gat alltaf leitað til, þið og sveitin tókuð á móti mér með opnum örmum hvenær sem ég þurfti og vildi. Einnig seinna meira á Hvammstanga þar sem stóðu mér alltaf opnar dyr líkt og í sveitinni forðum. Það var alltaf svo gott að koma til þín og alltaf voru kleinurnar þínar á borðum sem þú bakaðir sjálf alveg fram undir það síðasta. Alltaf var hægt heyra í þér varðandi ráð í prjónaskapnum, bakstrinum eða bara að eiga gott spjall. Það verður erfitt að geta ekki heyrt í þér aftur, sest niður með þér við eldhúsborðið eða fylgst með þér í eldhúsinu þar sem ég man svo vel eftir þér að sinna þínu. En ég hef minningarnar um okkar tíma saman og allt það sem ég fékk að upplifa og kynnast. Þær minningar munu ylja mér áfram og halda minningunni um þig á lofti og gera söknuðinn bærilegri.
Ég man eftir …
… að þú talaðir um hve oft ég hringdi í afa því ég vildi koma í sveitina í öllum fríum, hvort sem það var bara helgarfrí, sumarfrí, páska eða annað
… öllum sumrum í sveitinni sem hafa skilið eftir ógleymanlegar minningar
… heyskapnum í Hvarfi
… að tína bláber og krækiber sem var alltaf gaman því ég kom oftast með mest til baka, enda þóttu mér berin ekki góð og borðaði því sjaldan það sem ég tíndi
… að ég týndist oft en samt höfðuð þið engar áhyggjur og vissuð að ég var á góðum stað með dýrunum einhvers staðar úti í haga
… öllum jólunum þegar ég var yngri og það voru alltaf til epli og appelsínur
… dótkassanum á Nestúni sem var fyrir langömmubörnin þín
… hvað þú varst fyrst ósátt við hvað það var lítið borðpláss til að baka á í Nestúninu
… þér við baksturinn uppi í sveit, öllum jólakökunum, marmarakökunum og heilu fjöllunum af kleinum
… sunnudagssteikinni, hvort sem það var hryggur, læri, kótelettur í raspi eða annað góðgæti
… hvað þú elskaðir Illugastaði og kríurnar, ég skildi þó aldrei þessa ást þína á kríunum
… að fá að hjálpa til við ýmis verk, að læra að strokka og skilja mjólkina
… hvað þú varst alltaf tilbúin að gera allt fyrir alla.
Elsku amma. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér og sýndir, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og með mér og stelpunum, takk fyrir minningarnar, takk fyrir allt.
Þín Nabba.
Sigríður Erla Jónsdóttir.