Júlíus Pálsson fæddist í Reykjavík 17. janúar 1958. Hann lést í Kaupmannahöfn 11. janúar 2025.
Foreldrar Júlíusar voru Kristín Júlíusdóttir kennari og Páll Kr. Pálsson organisti. Albróðir hans er Páll Kristinn Pálsson, rithöfundur og blaðamaður, en hálfsystkinin fjögur talsins, Hrafn, Margrét, Guðrún Helga og Rikke May.
Júlíus ólst upp í Hafnarfirði og bjó þar allt til 1981 er hann fór út til náms við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, þar sem hann bjó og starfaði alla tíð síðan. Meðan á háskólanáminu stóð stofnaði Júlíus við annan mann ferðaskrifstofuna Hekla Rejser og rak hana til dánardags. Hann eignaðist tvær dætur, Kristínu Ýri og Hildi, með sambýliskonu sinni Birnu Arinbjarnardóttur, d. 16 nóv. 2021, sem átti fyrir soninn Agnar Rósinkrans Hallsson, d. 19. des. 2015, sem ólst upp hjá þeim. Dóttir Agnars er Nadia Lykke Izanlou og dóttir hennar Lily. Eiginmaður Kristínar Ýrar er James Samuel Appleyard, börn þeirra eru Elma og Max Júlíus. Eiginmaður Hildar er Mads Stensgaard Nielsen, börn þeirra eru Theodor og August. Eftirlifandi sambýliskona Júlíusar er Ása O'Hara, börn hennar eru Daniel, Natalie og Marc O'Hara.
Útför Júlíusar fer fram frá St. Jóhannesarkirkju á Nørrebro í dag, 17. janúar 2025, klukkan 13.30.
Það er með ólýsanlegri sorg sem við skrifum þessa minningargrein um elsku frænda okkar, nú er stórt skarð höggvið í okkar fjölskyldu. Okkar góði, skemmtilegi og hljómfagri frændi er nú kominn í sumarlandið. Júlli var ekki bara frændi okkar heldur vinur, ráðgjafi og fyrirmynd. Það er erfitt að lýsa í orðum hversu mikill missir þetta er fyrir okkur öll, en við munum alltaf geyma hann í hjarta okkar og í minningunni. Hann bjó yfir mikilli ást, á okkur, fjölskyldunni og lífinu, og var alltaf til staðar þegar við þurftum á honum að halda. Hann gladdist með okkur og deildi með okkur sorginni á erfiðum tímum þegar svo bar undir. Mikið sem við eigum eftir að sakna hans. Takk fyrir þig, allar góðu stundirnar og alla væntumþykjuna.
Hvíl í friði, elsku frændi. Þú verður alltaf í hjörtum okkar. Þangað til við sjáumst næst.
Þín bræðrabörn,
Tryggvi, Ólafur og
Margrét Kristín Pálsbörn.
Þvílíkur maður, þvílíkur einstaklingur, þvílíkt góðmenni, þvílíkt gáfumenni. Ég á ekki nógu mörg falleg orð um elsku yndislega Júlla, sambýlismann systur minnar Ásu í Danmörku, sem borinn er til grafar þar í dag eftir hetjulega baráttu við hið illvíga krabbamein. Hann var einn af þeim sem öllum þykir svo ofurvænt um og sérlega mér enda einstakur maður sem hann var.
Það var ávallt sérlega gaman að spjalla við hann um alla mögulega hluti þar sem hann var vel inni í öllu, hvort sem það voru bara hin hversdagslegu mál eða meira veraldleg. Einnig fylgdist hann vel með öllu því sem var að gerast á Íslandi þótt búinn væri að búa í Danmörku í tugi ára. Alltaf var hann jákvæður og óspar á að hæla öðrum en minna fyrir að taka hóli í sinn garð eða vera í athyglinni.
Elsku Júlli, sem elskaði ekkert meira en yndislegu dætur sínar og barnabörn sem voru einmitt nýflutt nær honum rétt fyrir andlát hans og hann svo spenntur fyrir því að geta fengið að njóta samvista við þau enn meir en ella, já stundum skilur maður bara ekki þetta líf eða tilgang þess.
Elsku Júlli minn, ég sit hér og tárin streyma, þetta er svo átakanlegt og sorglegt að þurfa að kveðja þig elsku Júlli minn sem varst með svo mikinn lífsvilja og eftir alla þína hetjulegu baráttu til að vinna bug á meininu. Takk fyrir alla þína hjálp og góðvild í minn garð, ég mun ávallt sakna þín og þinnar gæsku og góðvildar.
Elsku Ása systir, Hildur, Kristín og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar og guð gefi ykkur styrk til að takast á við þennan mikla missi.
Sigurbjörg Alfreðsdóttir.
Elsku Júlli mágur minn. Svo erfitt að skilja að þú sért farinn frá okkur. Samferðin hefur verið hátt í hálfa öld, en samt er eins og við höfum bara hist í gær. Man svo vel þegar við kynntumst fyrst í Kaupmannahöfn, þú og Birna heitin tókuð svo vel á móti mér 19 ára gamalli kærustu Palla bróður þíns og þannig hefur samband okkar verið öll árin síðan. Svo svo margar ánægjulegar samverustundir sem við höfum átt með þér og þínum fallegu dætrum og Birnu og Agnari, og ekki síður í seinni tíð með þinni yndislegu Ásu. Þú verður alltaf stór í hjarta mér. Takk fyrir allt og allt.
Þín
Elsa María Ólafsdóttir.
Þá hefur hann Júlíus Pálsson spilað sinn seinasta kappleik. Hann spilaði djarft í sókninni og gerði sitt allra besta í vörninni. Hann peppaði liðið sitt en bar á sama tíma virðingu fyrir andstæðingi sínum, sem hann þó ætlaði að sigra með seiglu, bjartsýni og harðfylgi. Lengi leit út fyrir að Júlli myndi fara með sigur af hólmi. En því miður varð hann og liðið hans undir í lok leiksins. Og við erum öll miður okkar, liðið og fylgismenn, og full af sorg – þetta átti ekki að fara svona.
Við tvö eigum honum Júlla svo mikið að þakka, sérstaklega þegar við vorum í tilhugalífinu. Hann tók okkur opnum örmum með kærleika og gleði og þá fengum við að kynnast ofurkrafti hans, sem var gullhjartað. Hann Júlli var einstakt ljúfmenni, greiðvikinn, gefandi, jákvæður og skemmtilegur en um leið algjör töffari. Eftir sitja minningar um dásamlegan mann sem þótti svo undurvænt um fjölskyldu sína og samferðamenn og gæddi allar samverustundir hlýju og léttleika. Við munum sakna þess að hitta Júlla ekki á Hvide Lam og taka svo rúntinn á alla elstu og mest sjarmerandi knæpurnar og djassklúbbana í Kaupmannahöfn.
Elsku Kristín Ýr, Hildur, Ása, Palli, fjölskyldan öll og vinir, við samhryggjumst ykkur innilega og sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minningin um fallegan dreng lifa í hjörtum okkar allra.
Freyja og Helgi.