Guðjón Haraldsson fæddist á Hólmavík 29. mars 1938. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum Mosfellsbæ 29. desember 2024.

Guðjón var fjórði í röð tólf systkina, foreldrar hans voru þau Haraldur Hafsteinn Guðjónsson og Marta Gunnlaug Guðmundsdóttir.

Guðjón bjó til átta ára aldurs á Hólmavík en fluttist þá til Reykjavíkur. Árið 1951 keypti fjölskyldan býlið Markholt í Mosfellsbæ og settist þar að.

Eftirlifandi eiginkona Guðjóns er Nína Schjetne, f. 1942, en þau gengu í hjónaband 31. janúar 1960. Börn þeirra hjóna eru fimm:

1. Helga Guðjónsdóttir, f. 1959, fyrri maki Geir Helgi Geirsson, f. 1953, d. 2007. Maki Ómar Ingvarsson, f. 1953. Börn Helgu eru: Guðjón Reyr, f. 1978, Eybjörg, f. 1982, Nína Björk, f. 1983 og Geir Jóhann, f. 1993. 2. Marta Gunnlaug Guðjónsdóttir, f. 1960, maki Kristján Helgi Guðbrandsson, f. 1960. 3. Haraldur Hafsteinn Guðjónsson, f. 1962, sambýliskona Sesselja Gunnarsdóttir, f. 1963. Dóttir Haraldar Kolfinna Rut, f. 1996. 4. Herdís, f. 1964, fyrri maki Jón Stefánsson, f. 1965, d. 1999. Sambýlismaður Sveinn Árnason, f. 1955. Börn Herdísar eru: Jón Sveinbjörn, f. 1985, Stefán Atli, f. 1988 og Marteinn Helgi, f. 1996. 5. Leifur Guðjónsson, f. 1972, maki Helga Kristjánsdóttir. Börn Leifs eru: Nína Huld, f. 2000 og Ísak Orri, f. 2002. Langafabörnin eru nú orðin átta.

Guðjón var mörg sumur í sveit á Broddadalsá á Ströndum og þótti honum vistin þar góð. Guðjón vann ýmis störf þar til hann keypti sína fyrstu gröfu árið 1968 og stofnaði Vélaleigu Guðjóns Haraldssonar (VGH Mosfellsbæ). Hann lifði fyrir verktakabransann sem var hans líf og yndi. Synir hans tóku svo við fyrirtækinu.

Útför Guðjóns fer fram fram Grafarvogskirkju í dag, 17. janúar 2025, kl. 13.

Elsku pabbi.

Þú stóri mikli karakter og fyrirmynd ert búinn að fá svefninn langa. Þetta eru skrítnir tímar þótt allir viti að svona endar þetta líf. Margs er að minnast og upp koma margar myndir í hugann: Þegar við fluttum frá Markholti 17 yfir í Markholt 14 og ég fékk að sitja á pallinum á vörubílnum. Þegar þú komst með fyrstu John Deere-gröfuna keyrandi eftir götunni með grænu prjónahúfuna á kollinum en ekki fyrir eyrunum. Þegar þú fluttir inn grænan Ford Torino, ég hafði aldrei séð svona flottan bíl. Mörg voru ferðalögin sem við fórum í saman á Volkswagen með toppgrind á þakinu. Í minningunni stóð farangurinn marga metra upp í loftið. Minnisstæðar eru líka dagsferðirnar með björgunarsveitinni Kyndli þar sem þú varst einn af stofnendum. Ferðalagið þegar við stórfjölskyldan fórum og gistum öll í flutningabílnum hans Ragga frænda við Hraunsfjarðarvatn. Allar ferðirnar í Kaldbaksvík eiga líka sérstakan stað í hjarta okkar allra. Ég gæti haldið endalaust áfram enda margar og góðar minningar sem ég mun halda í og minnast áfram. Takk fyrir allt elsku pabbi og takk fyrir allt sem þú kenndir mér um lífið. Við munum hugsa um mömmu.

Þín dóttir,

Helga.

Hvernig er hægt að kveðja þig elsku pabbi minn, minn besti vinur? Þetta er svo erfitt. Takk fyrir allt, mitt yndislega uppeldi, þú varst svo mikið ljúfmenni, vildir öllum gott. Þú áttir engan óvin, það báru allir virðingu fyrir þér og þú fyrir öllum. Þú sagðir alltaf já við alla, svo voru málin bara leyst, aldrei vandamál, bara lausnir. Við systkinin unnum ekki bara í foreldralottóinu heldur barnabörn og barnabarnabörn þín, þau unnu líka í afa- og langafalottóinu, þvílíkan fróðleik og sögur sem þú sagðir þeim öllum.

Ferðirnar í Kaldbaksvík standa upp úr, þar varst þú á heimavelli og elskaðir að vera í faðmi fjölskyldunnar og segja krökkunum sögur, takk. Það er svo skrítið að hafa ekki fengið símtal frá þér undanfarnar vikur, taka stöðuna á vinnu og á fjölskyldunni. Í september varð ég afi, fékk afastelpu sem var skírð Ída Sóley. Þú varst svo þakklátur Nínu Huld og Summa að gefa þér nafnið Sóley í fjölskylduna, nafn sem þú varst oft búinn að tala um. Ída Sóley fékk með þér rúma þrjá mánuði, hún mun sko fá að heyra sögur af þér og ég skal segja „elskan hans afa síns“ eins og þú sagðir alltaf. Þú tókst svo fallega á veikindum þínum öll árin, fékkst sjálfsofnæmi fyrst og svo parkinson. Þú brotnaðir aldrei, tókst þetta á æðruleysinu, sagðir alltaf „allt í himnanna lagi“ við alla sem að þér komu, aldrei vesen. Svo varstu orðinn svo meyr, löngu hættur að rífa kjaft hehe. Það var ekkert mál lengur fyrir okkur Halla bróður að fá þig til að samþykkja tækjakaup. Við töluðum alltaf við þig á undan mömmu, þá vorum við komnir með góðan meirihluta. Síðasta myndin sem var tekin af okkur var tekin 23. des. í skötuveislunni þinn á verkstæðinu. Þá fóru 125 diskar og allir sáttir inn í jólin. Svo fékkstu lungnabólgu sem að sigraði þig að lokum. Þú verður alltaf mín fyrirmynd, minning þín lifir mikla ljúfmenni, ég er stoltur að vera sonur Gauja á gröfunni, takk pabbi.

Þinn sonur,

Leifur.

Í dag kveðjum við elsku afa. Afi var einstakur maður og mikill og stór karakter sem ekki er hægt að segja að hafi farið lítið fyrir. Setningin „já, ertu barnabarn Gauja á gröfunni?“ var nokkuð sem við fengum oft að heyra og síðan fylgdi oftast með „hann er nú meiri meistarinn“. Þrátt fyrir að vera hávær og stór karakter þá var afi einn allra góðhjartaðasti og ljúfasti maður sem hægt var að kynnast. Honum var umhugað um okkur systkinin og minnumst við afa sem einstaklega ljúfs og góðs manns sem var alltaf að kenna okkur eitthvað. Við vorum öll svo heppin að fá að ferðast um Ísland þvert og endilangt með afa og ömmu og þá gátum við verið viss um að afi kenndi okkur nöfnin á öllum helstum fjöllum og kennileitum. Ófáir ísbíltúrar eða bíltúrar út á land voru farnir á sunnudögum þar sem hlustað var á gömul og góð íslensk lög. Í umræddum bíltúrum vorum við barnabörnin stundum látin telja hversu mörgum bílum afi væri búinn að safna í lest, okkur til mikillar skemmtunar, en eflaust öðrum bílstjórum til mikils ama þar sem hann keyrði langt undir hámarkshraða. Að fá að sitja í vörubílnum með afa í vinnunni þótti okkur mjög vænt um. Fjölskylduferðanna í Kaldbaksvík munum við alltaf minnast með miklum kærleik enda leið afa hvergi betur en þar. Þar var skylda samkvæmt afa að prófa að keyra bíl, þótt maður væri bara 10 ára, og jafnvel skjóta úr byssu. Ófá ævintýrin áttu sér stað í Kaldbaksvíkinni en skemmtilegast og vænst þótti okkur um að hlusta á sögurnar hans afa frá því í gamla daga, það sagði enginn jafn skemmtilegar sögur og hann. Þegar langafabörnin fóru að koma í heiminn fengu þau síðan öll að heyra að þau væru elskan hans afa síns. Ótal minningar um skemmtilegan og góðan afa sitja eftir hjá okkur systkinunum sem við munum varðveita um ókomna tíð. Hvíl í friði elsku afi, við lofum að passa upp á ömmu.

Þín barnabörn,

Guðjón, Eybjörg (Eybí), Nína og Geir.

Í dag er komið að kveðjustund, nú kveð ég minn besta vin. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér elsku afi.

Sorgin er mikil, sár og erfið, að þurfa að sætta sig við að nú eru það bara minningar sem lifa í hjarta mínu en ekki tíminn með þér, það verð ég að læra að sætta mig við.

Betri mann var ekki hægt að finna en þig. Þú varst einstaklega góður maður og studdir mig áfram og hjálpaðir mér með hvað sem er. „Elskan hans afa síns“ er setning sem ég mun varðveita. Minningar um besta mann í heimi lifa í hjarta mínu að eilífu. Elsku besti afi Guðjón, nú veit ég að það er allt í himnanna lagi eins og þú hefðir sagt sjálfur.

Þín

Nína Huld.

hinsta kveðja

Í dag kveð ég elskulegan tengdaföður minn. Guðjón var einstakur og ljúfur maður, sem vildi allt fyrir alla gera. Góðar minningar sitja eftir í hjarta mínu. Elsku Guðjón, ég veit að það verða miklir fagnaðarfundir hjá ykkur Ragga bróður þínum sem tekur syngjandi á móti þér í sumarlandinu. Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Helga.