„Það er öflugt að byrja mótið á sigri,“ sagði hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson við Morgunblaðið eftir sigurinn örugga gegn Grænhöfðaeyjum í gærkvöld.
„Heilt yfir fannst mér þetta öflugt hjá okkur þótt það sé margt sem við getum bætt. Ég er glaður yfir að vinna fyrsta leikinn.
Mér fannst við spila góða og þétta vörn, Viktor varði mörg skot og við fengum mikið af hraðaupphlaupum.
Við vorum líka mjög hreyfanlegir í sókninni og opnuðum vörnina þeirra,“ sagði Orri Freyr sem var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk.
Mættum á fullu í leikinn
„Þetta var fínt, við mættum á fullu í leikinn og kláruðum þetta. Við keyrðum vel á þá, fengum hraðaupphlaup, seinni bylgju og Viktor varði vel í markinu,“ sagði Elvar Örn Jónsson við Morgunblaðið og kvaðst sérstaklega ánægður með fyrri hálfleikinn.
„Við stálum líka boltanum oft og fengum auðveld mörk. Við erum bara að hugsa um okkur og við vildum hlaupa allan leikinn og mér fannst það takast vel.“
Næst á dagskrá hjá íslenska liðinu er leikur gegn Kúbu annað kvöld. „Við förum að skoða þá núna. Við mætum eins til leiks og ætlum að keyra upp hraðann,“ sagði Elvar en Kúba steinlá fyrir Slóveníu í gær.