En það er að vísu öðrum þræði vegna þess að ég á svo ofboðslega mikið af fallegum sokkum að synd væri að hafa þá á hælunum.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Ég gleymi mér stundum í dagdraumum mínum. Það verður bara að segjast eins og er. Í vikunni fór ég allt í einu að hugsa um Jóa útherja, sem Ómar Ragnarsson söng um af svo miklu listfengi um árið, og því lauk með þeim ósköpum að ég hrópaði upp yfir mig hér í vinnunni: Upp með sokkana!

Ekki nóg með það, ég henti líka í: Út af með Albert! Eða var það: Inn á með Albert? Man það ekki nógu vel.

Samstarfsmönnum mínum brá að vonum í brún og einum varð að orði: „Er einhver leikur í gangi?“

Ekki þannig, ég var bara að brýna sjálfan mig, enda umsjónarmaður af annarri deild hér á blaðinu með svipuna á mér og ég þurfti að hífa upp um mig sokkana, sem hefur, fyrir ykkur sem talið ekki reiprennandi sparkmál, sömu merkingu og að bretta upp ermarnar eða stíga á bensíngjöfina.

Sjálfur hef ég mikið dálæti á upphífðum sokkum og legg mig alltaf fram um að hafa sokkana uppi þegar ég spila bumbubolta. En það er að vísu öðrum þræði vegna þess að ég á svo ofboðslega mikið af fallegum sokkum, svona merkjasokkum, að synd væri að hafa þá á hælunum. Til hvers að eiga fallega sokka ef þeim er ekki flaggað?

Ég þekki raunar mann sem flaggaði sokkum sínum í slíku ofboði þegar hann var ungur að sokkarnir urðu samofnir sjálfsmynd hans. Vont var að sjá hvar maðurinn byrjaði og sokkarnir tóku við – og öfugt. Þetta varð til þess að menn fóru hreinlega að kalla blessaðan manninn Sokkana.

„Hvað er að frétta af Sokkunum?“

„Þeir eru hressir!“

Hér ríður á að notast við persónufornafn í fleirtölu. Þegar ég hugsa um það eru Sokkarnir líklega eini fleirtölueinstaklingurinn sem ég þekki.

Það er mikil gæfa að eiga góða sokka og ykkar bíður veisla þegar þið flettið yfir á baksíðu þessa blaðs. Þar er nefnilega að finna 70 ára gamla frétt af óhappi. Stúlka nokkur hrasaði í hálku og hjó sundur á sér hnéð, nánast inn að beini. En ekki sá á sokkunum.

Gefum Velvakanda orðið: „Hvað haldið þið þá með sokkana? Þeir hafa margir farið fyrir minna. En viti menn! Ekki sprák á þeim, hnéð sundurhöggvið – sokkurinn stráheill! Kraftaverk! Eða bara sokkar, sem segja sex?“

Er nema von að stúlkunni hafi orðið að orði: „Ég hefi nú ekki vitað það betra.“