Gunnar Randversson segir tónlistina hafa bjargað sér þegar hann var ungur.
Gunnar Randversson segir tónlistina hafa bjargað sér þegar hann var ungur. — Morgunblaðið/Karítas
Fólk glímir á misjafnan hátt við sorgina, sumir verða reiðir en ég fann ekki fyrir reiði. Ég leitaði mikið í trúna, hún hefur hjálpað mér mikið, en byrjaði líka að skrifa.

Þegar ég var lítill var ég alltaf hræddur er forvitnilegur titill á ljóða- og örsögubók. Gunnar Randversson segir hann hafa komið til sín og hann farið að vinna út frá titlinum. „Það gerist yfirleitt þannig, stundum getur jafnvel eitt orð komið öllu af stað,“ segir Gunnar en þetta er hans fimmta ljóðabók, auk þess sem hann hefur sent frá sér eitt smásagnasafn.

– Varstu sjálfur hræddur sem barn?

„Nei, þetta er ekki byggt á eigin reynslu,“ svarar Gunnar brosandi. „Bara hreinn skáldskapur.“

Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur bókina út en þetta er fyrsta bók Gunnars sem kemur út hjá henni. „Ég leitaði til Bjarna Harðarsonar og hann tók mér vel og vildi gefa bókina út. Ég er mjög ánægður með að hafa komist að hjá Sæmundi, Bjarni er mjög góður útgefandi og býsna umsvifamikill.“

Ólíkt hlutskipti ömmu og afa

Amma og afi eru í öndvegi í fyrsta hluta bókarinnar og þar mæðir talsvert meira á henni en honum, svo sem skýrt kemur fram í ljóðinu Stikkfrí:

Afi spásserar glaðbeittur um þorpið og ræðir

heimsmálin og nýjustu fréttir við alla sem

hann hittir. Á meðan er amma heima að

skúra gólf, vaska upp, ryksuga, dusta

rykið af húsgögnunum í stofunni,

hengja upp þvott og þrífa klósettið

Þennan veruleika kannast ábyggilega margir við, þótt eitthvað hafi þetta nú líklega breyst á seinni árum. „Hér lýsi ég hinum dæmigerðu hlutverkum afa og ömmu; það mæddi meira á henni. Íslensku ömmunni féll aldrei verk úr hendi meðan afinn hafði það oft náðugt á heimilinu. Ég fjalla um þetta á gamansaman hátt.“

Hér er ekki byggt á ömmum Gunnars og öfum, föðurafi hans og -amma voru látin áður en hann fæddist 1959 og hin féllu frá þegar hann var um tíu ára. „Þau bjuggu á Sauðárkróki en ég á Ólafsfirði, þannig að ég hitti þau ekki oft og man lítið eftir þeim. Ég er samt með myndina af þeim í huganum og kannski var það smá kveikja en þetta eru samt ekki þau,“ segir Gunnar en ein af fyrri ljóðabókum hans, Hvítasta skyrtan mín, vísar einnig í afa hans sem ávallt klæddist hvítri popplínskyrtu með axlaböndum.

Ljúfar stundir með pabba

Í öðrum hluta bókarinnar drepur Gunnar víða niður fæti; fjallar um alls kyns hversdagslegar raunir, langanir og þrár, ást og hatur. Svo er þarna piltur sem setur markið hátt og vill verða nýr Lionel Messi. „Það átti upphaflega að verða smásaga en passaði vel inn í þessa bók sem örsaga. Þetta er nöturleg lýsing sem endar vel,“ segir Gunnar.

Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar er að finna tvö ljóð um trú. Annað heitir einfaldlega Trú og er svona:

Þessi vissa –

þessi fullvissa

um að Guð sé

til

– Ertu trúaður?

„Já, ég er það. Pabbi bað með mér bænir á kvöldin þegar ég var lítill. Það voru ljúfar stundir sem við fengum saman meðan pabba naut við en hann dó þegar ég var 11 ára. Hann var astmaveikur og fékk hjartaáfall og lést, aðeins 59 ára gamall. Pabbi var kaupmaður og rak verslun á Ólafsfirði og ég ólst að hluta til upp þar. Síðan gerðist ég róttækur á unglingsárum, varð herstöðvaandstæðingur, hallaði mér til vinstri og afneitaði þá trúnni um tíma. Þegar ég eignaðist svo börnin mín kom trúin aftur inn í mitt líf og ég vildi láta skíra þau. Allar götur síðan hef ég lagt rækt við trúna.“

Gunnar og fjölskylda urðu fyrir miklu áfalli fyrir tveimur árum þegar fjögurra ára dóttursonur hans, Gunnar Unnsteinn, lést eftir stutt veikindi. „Gunnar okkar lést vegna veirusýkingar sem hafði dreift sér til heilans. Fram að þessu hafði hann verið alheilbrigður. Fólk glímir á misjafnan hátt við sorgina, sumir verða reiðir en ég fann ekki fyrir reiði. Ég leitaði mikið í trúna, hún hefur hjálpað mér mikið, en byrjaði líka að skrifa og það styrkti mig einnig. Ég hef raunar skrifað heila bók um Gunnar nafna minn sem heitir Hvernig er söknuður á litinn? og mun koma út í haust. Þannig að ég verð með tvær bækur á þessu ári. Þetta eru minningabrot um Gunnar en sviplegt fráfall hans er eilífðarverkefni að takast á við. Við hugsum til Gunnars á hverjum degi. Ég byrja bókina og enda á biblíutilvitnun: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Samdi lag um Gunnar

Bókin verður tileinkuð foreldrum Gunnars litla, Lilju Eivoru Gunnarsdóttur Cederborg og Magnúsi Björgvini Sigurðssyni, og tveggja ára syni þeirra, Pálmari Erni. Hann fæddist aðeins örfáum mánuðum áður en bróðir hans lést. Lilja er þessa dagana að gefa út hlaðvarpsþætti undir nafninu „Sorgarkastið”. Markmið hlaðvarpsins er að skapa vettvang þar sem þessi þungu málefni eru rædd opinskátt, af hreinskilni og einlægni.

Gunnar samdi einnig lag um nafna sinn, A Song Without Words, eða Lag án orða, sem hægt er að finna á streymisveitunni Spotify. Lagið tók Gunnar upp í hljóðveri tengdasonar síns, Magnúsar Gunnarssonar, í Los Angeles. „Magnús er tónlistarmaður en þau dóttir mín eru sem betur fer flutt frá Los Angeles, búa núna í New York,“ segir Gunnar og vísar þar til hinna hræðilegu elda sem nú brenna í borg englanna.

Tónlistin kom snemma inn í líf Gunnars. Þökk sé æskuvini hans á Ólafsfirði, Erni Magnússyni píanóleikara og organista. „Við vorum og erum enn mjög góðir vinir og fyrsti tónlistarkennari minn á Ólafsfirði var bróðir Arnar, Magnús Magnússon. Mig minnir að ég hafi fyrst lært á blokkflautu og síðar vorum við Örn í lúðrasveit hjá Magnúsi. Kynnin af þeim bræðrum höfðu afgerandi áhrif á mig – tónlistin kom inn í líf mitt.“

Pottþétt verið með ADHD

Magnús flutti burt og næsti tónlistarkennari Gunnars var Frank Herlufsen en hjá honum lærði hann bæði á píanó og gítar. „Frank var frábær kennari og hjá honum fór áhuginn upp á næsta stig. Hann hafði mikil og góð áhrif á mig. Ég var ekki búinn að sækja nema tvo eða þrjá tíma hjá Frank þegar ég tjáði mömmu að ég ætlaði að verða tónlistarkennari þegar ég yrði stór.“

Tónlistin breytti heilmiklu í lífi Gunnars. „Sem barn hef ég pottþétt verið með ADHD, þótt enginn trúi því í dag,“ segir Gunnar og brosir en hann er mjög rólegur í fasi. „Ég var ansi órólegur sem barn, talaði mikið og var reglulega vísað út úr tímum og sendur til skólastjórans. Ég var dálítið baldinn, svo það sé bara sagt. Þegar ég fór að læra á hljóðfæri róaðist ég hins vegar heilmikið, fann innri frið og ró. Hegðun mín breyttist og mér fór að ganga betur í skólanum.“

Eftir grunnskólapróf lá leið Gunnars í Menntaskólann á Ísafirði. Það átti sér óvenjulegan aðdraganda, hann las sumsé viðtal í gömlu, góðu Vikunni. „Viðtalið var við Ragnar H. Ragnar, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. Mér fannst það stórmerkilegt og heillaðist af því hversu mikill hugsjónamaður Ragnar var í sambandi við tónlistina. Ég hringdi því í hann og hann hvatti mig eindregið til að koma vestur. Ragnar var frábær kennari og reyndist mér afskaplega vel. Hann setti strax upp prógramm fyrir mig þar sem ég var látinn æfa mig í þrjá til fjóra tíma á dag.“

Gunnar stundaði framhaldsnám í tónlist á Akureyri og í Reykjavík og lauk kennaraprófi 1985 og hefur unnið sem tónlistarkennari síðan. Hefur kennt á píanó, gítar og blokkflautu.

Fór seint að semja

Ragnar vildi að Gunnar einbeitti sér að píanóinu, þannig að hann lagði gítarinn frá sér um langt skeið. Það var ekki fyrr en hann var beðinn að taka að sér gítarkennslu í Breiðholti fyrir 13 árum að hann dustaði rykið af því ágæta hljóðfæri. Ekki nóg með það, hann byrjaði líka að semja tónlist og hefur gert talsvert af því síðan. „Til urðu laglínur og ég áttaði mig á því að það á mun betur við mig að semja á gítar en píanó. Enn ein tilviljunin í mínu lífi.“

Hann spilar á hljóðfæri á hverjum degi, kveðst ekki geta verið án þess, en um þessar mundir leggur hann þó meiri áherslu á skrifin en tónlistina. „Ég á mikið efni, smásögur og það blundar jafnvel í mér skáldsaga. Mig langar að skrifa um þessi 11 ár sem ég fékk með pabba mínum. Það að missa pabba þegar ég var svona ungur mótaði mig að sjálfsögðu mikið og músíkin kom svolítið í staðinn. Hún bjargaði mér.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson