Gleðistund Halla Gunnarsdóttir formaður VR, Nadia Tamimi og Ragnar Þór Ingólfsson, fv. formaður VR.
Gleðistund Halla Gunnarsdóttir formaður VR, Nadia Tamimi og Ragnar Þór Ingólfsson, fv. formaður VR. — Morgunblaðið/Karítas
„Þetta er mjög stórt skref og það er afar ánægjulegt að geta komið upp öruggum valkosti á leigumarkaði fyrir félaga VR,“ segir Halla Gunnarsdóttir formaður VR, en fyrstu íbúðir í nýjum fjölbýlishúsum íbúðafélagsins VR Blævar í Úlfarsárdal voru afhentar leigjendum í gær

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er mjög stórt skref og það er afar ánægjulegt að geta komið upp öruggum valkosti á leigumarkaði fyrir félaga VR,“ segir Halla Gunnarsdóttir formaður VR, en fyrstu íbúðir í nýjum fjölbýlishúsum íbúðafélagsins VR Blævar í Úlfarsárdal voru afhentar leigjendum í gær. Nadia Tamimi, einstæð móðir með tvö börn á unglingsaldri, fékk fyrstu íbúðina afhenta.

Alls eru íbúðir VR Blævar 36 talsins og skiptast á milli tveggja nýrra fjölbýlishúsa. Í fyrra húsinu, sem stendur við Skyggnisbraut, eru 24 íbúðir en í því síðara, sem stendur við Silfra- og Gæfutjörn, eru 12 íbúðir og verða þær afhentar 25. febrúar næstkomandi.

Halla segir í samtali við Morgunblaðið að þetta verkefni hafi verið lengi í undirbúningi. Mikil þörf sé á kostum sem þessum enda sé leigumarkaðurinn óþroskaður og óstöðugur. „Fólk á almennum leigumarkaði býr við mikið óöryggi og er ekki í þægilegri stöðu til að ákveða að beina viðskiptum sínum annað. Nadia er búin að búa í sinni íbúð á almennum leigumarkaði í fjögur ár og á þeim tíma hefur leigan hækkað úr 260 þúsund krónum á mánuði upp í 430 þúsund.“

Halla segir VR hafa áhuga á að halda uppbyggingu áfram en félagið sé ekki með neinar lóðir sem stendur. Hún kveðst vona að stjórnvöld komi húsnæðismálum í betra horf. Óhæft sé að margir leigjendur þurfi að búa við óöryggi og húsaleiga eigi ekki að vera gróðatækifæri fyrir einkaaðila. „Stóra verkefnið er að takast á við þessa húsnæðiskrísu. Það að við séum að vasast í þessu er ákveðinn áfellisdómur yfir húsnæðismálum í landinu.“

Íbúðirnar í Úlfarsárdal eru ýmist tveggja, þriggja, fjögurra eða fimm herbergja. Stærð þeirra er á bilinu 55-110 fermetrar. Leiguverð íbúðanna er á bilinu 212.000-338.000 krónur og fer eftir stærð. Leiguverð er undir markaðsvirði en það er reiknað þannig að rekstrarkostnaður félagsins sé á núlli. Leiguverðið er bundið vísitölu neysluverðs og leigusamningar eru ótímabundnir. Mörg hundruð VR-félagar hafa skráð sig á biðlista.

Geti treyst á langtímaleigu

„Íbúar hjá VR Blævi fá algjört frelsi til þess að mála íbúðir í nýjum lit, hengja upp myndir eða breyta innréttingum. Þá munu íbúar sitja í húsfélagi og taka sameiginlegar ákvarðanir sem varða sameignarrými, gæludýrahald, húsreglur og fleira.

Þetta er ólíkt því sem tíðkast á almennum leigumarkaði, en það er lykilatriði í hugmyndafræði VR Blævar að íbúar upplifi að húsið sé þeirra og að þau geti komið sér almennilega fyrir í sínum íbúðum til langs tíma, með tilheyrandi réttindum og skyldum,“ segir í tilkynningu.