Í Zagreb
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson spilaði sinn fyrsta leik og skoraði sín fyrstu mörk á stórmóti í handbolta er Ísland sigraði Grænhöfðaeyjar, 34:21, í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramótinu á fimmtudaginn var.
„Ég var með góða tilfinningu í gegnum daginn og það var gaman að fá að koma inn á og spila fyrsta leik á stórmóti. Það var mikil gleði. Þetta var svipað og fyrir aðra leiki, maður er alltaf með smá fiðring á leikdegi en þegar maður er kominn inn á völlinn hverfur fiðringurinn eftir eina eða tvær sóknir. Þá er þetta bara handboltaleikur,“ sagði Þorsteinn við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Zagreb.
Þorsteinn skoraði tvö mörk í leiknum með neglum fyrir utan. „Það er alltaf gaman að skora,“ sagði Þorsteinn, sem var viss um að hann myndi skora þegar hann stökk upp í sitt fyrsta skot gegn Grænhöfðaeyjum og boltinn söng í netinu.
„Ég var nánast 100 prósent viss um að ég myndi skora þegar ég fór í loftið. Ég skora eiginlega alltaf úr svona færum. Ég myndi segja að þetta væri 90 prósent skotfæri fyrir mig. Það má segja það sama með seinna markið. Ég vissi að þetta myndi detta inn,“ sagði Þorsteinn.
Svipað en meiri alvara
Mosfellingurinn, sem er 22 ára, kann vel við sig á fyrsta stórmótinu en hann hefur reynslu af mótum með yngri landsliðunum.
„Þetta hefur verið mjög gaman. Það er mjög gaman að vera með strákunum á hótelinu. Ég hef lært mikið af því að vera hérna með þessum leikmönnum. Maður hefur verið með yngri landsliðunum á svona mótum og þetta er svipað nema það er meiri alvara í þessu.“
Þorsteinn er á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður erlendis en hann samdi við portúgalska félagið Porto fyrir leiktíðina.
„Ég hef bætt mig í nánast öllum þáttum leiksins. Ég hef þroskast mikið sem leikmaður og bætt mig töluvert síðan ég fór út,“ sagði Þorsteinn. Orri Freyr Þorkelsson leikur með Sporting í sömu deild og Stiven Tobar Valencia með Benfica. Orri er í HM-hópnum en Stiven var ekki valinn að þessu sinni.
„Fyrir leiki spjöllum við alltaf í 5-10 mínútur. Við erum allir góðir félagar þrátt fyrir að það sé rígur á milli liðanna. Það er allt í góðu hjá okkur Íslendingunum,“ útskýrði Þorsteinn.
Hann kann vel við lífið í Porto. „Það er mjög fínt að búa í Portúgal. Það er alltaf sól og gott veður. Það er gott að vera laus við snjóinn. Það er ódýrt að búa þarna og þetta er mjög gott.“
Erna Sóley Gunnarsdóttir, sem varð fyrsta íslenska konan til að keppa í kúluvarpi á Ólympíuleikum er hún keppti í París síðasta sumar, er eldri systir Þorsteins. Hún hafnaði í 20. sæti.
„Það var mjög gaman að fylgjast með henni á Ólympíuleikunum. Eina sem vantaði var að við í handboltalandsliðinu kæmumst þangað líka. Hún stóð sig þrusuvel á þessum leikum,“ sagði hann.
Rétt eins og stóra systir er Þorsteinn hávaxinn en hann var orðinn rúmir tveir metrar á unglingsárum. Nú er hann 208 sentímetrar.
„Ég hef alltaf verið stór og stækkaði mjög jafnt og þétt fyrstu árin. Ég tók svo góðan kipp og var kominn yfir tvo metra þegar ég var 16 ára.“
Góður í marki í fótbolta
Þrátt fyrir hæðina var ekki alltaf ljóst að Þorsteinn yrði handboltamaður.
„Ég var mikið í fótboltanum líka og það var óvíst hvort yrði fyrir valinu. Ég var eiginlega betri í fótbolta en samt bara þegar ég var í marki. Ég var ekkert góður frammi. Ég vildi alltaf verða atvinnumarkvörður í fótbolta en á unglingsárunum áttaði ég mig á því að ég væri mun betri í handbolta þegar ég byrjaði að skara fram úr þar. Mér fannst alltaf skemmtilegra í handbolta og því varð hann fyrir valinu,“ sagði Þorsteinn.