Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Í ársbyrjun hóf störf þriggja manna rannsóknarnefnd á málsatvikum í tengslum við hörmulega snjóflóðið sem féll í Súðavík 16. janúar 1995. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis flutti tillögu um nefndina, var hún samþykkt 30. apríl 2024 og valdi alþingi síðan nefndarmenn.
Hlutverk þeirra er að draga saman og búa til birtingar upplýsingar um málsatvik í Súðavík í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda. Lýsa á (1) hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur; (2) fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt og (3) eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.
Í greinargerð með tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er tekið fram að við umfjöllun málsins hafi „hún ekki orðið þess áskynja að neitt saknæmt hafi átt sér stað“ og það sé því ekki tilefni rannsóknarinnar.
Nefndin lýsir forsögu málsins á þann veg að 6. júní 2023 hafi henni borist bréf frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þar sagði ráðherrann að sér hefði borist erindi frá lögmannsstofu fyrir hönd aðstandenda og eftirlifandi ættingja þeirra fjórtán einstaklinga sem létust í snjóflóðinu í Súðavík. Hefði þess verið óskað að rannsókn færi fram á þætti hins opinbera í snjóflóðinu, til að mynda með skipan rannsóknarnefndar á grundvelli laga um rannsóknarnefndir.
Það var mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mikilvægt væri að stofna til hlutlægrar og óháðrar rannsóknar á þann veg sem síðan var lýst í tillögu hennar og getið er hér að ofan. Skortur á slíkri rannsókn hefði skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem mikilvægt væri að eyða. Rannsóknin gerði alþingi og stjórnvöldum eftir atvikum kleift að meta hvort dreginn hefði verið lærdómur af atburðunum og hvort úrbóta væri þörf. Þá væri með rannsókninni svarað ákalli um óhlutdræga rannsókn á málsatvikum sem hefði verið uppi frá því að atburðirnir urðu.
Frétt um skipan rannsóknarnefndarinnar birtist hér í blaðinu miðvikudaginn 15. janúar, daginn áður en rétt 30 ár voru liðin frá snjóflóðunum í Súðavík. Þann dag, 16. janúar, kom fólk nú saman í kirkjum í Reykjavík og Súðavík auk þess sem þar var farin blysför við minnisvarða um þá sem létust í snjóflóðinu.
Störf nefndarinnar þjóna vonandi þeim tilgangi sem að er stefnt.
Hér skal rifjað upp að í lögum um almannavarnir sem voru samþykkt 30. maí 2008 voru ákvæði um að alþingi kysi þrjá menn til fimm ára í rannsóknarnefnd almannavarna sem starfaði sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Skyldi nefndin að loknu hættuástandi rannsaka þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila, þar á meðal vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, samhæfingar- og stjórnstöðvar, lögreglu, slökkviliðs, landhelgisgæslu og almannavarnanefnda.
Ákvæði laganna um þessa sjálfstæðu rannsóknarnefnd voru felld úr almannavarnalögum með breytingu sem alþingi samþykkti 9. júní 2022. Í staðinn skal almannavarnadeild ríkislögreglustjóra halda rýnifundi eftir að almannavarnastigi hefur verið aflétt með fulltrúum viðbragðsaðila. Ljóst er að slíkir fundir koma aldrei í stað úttektar sjálfstæðrar nefndar óháðra aðila.
Það verður ætíð þörf á sjálfstæðri úttekt á almannavarnaatvikum, smáum eða stórum, til lærdóms fyrir þá sem almannavörnum sinna, til að vinna gegn tortryggni og til að upplýsa þá sem eiga um sárt að binda.
Við blasir að ekki hefur verið gerð viðunandi úttekt á því sem gerðist innan opinberu stjórnsýslunnar og á grundvelli sóttvarna- og almannavarnalaga á covid-19-tímanum. Það er mikill misskilningur ef menn halda að í ósk um slíka úttekt felist grunsemdir um einhver saknæm brot. Hlutlæg skýrsla um viðbrögð við heimsfaraldrinum gæfi handhöfum löggjafar- og framkvæmdavalds hugmynd um hvar skerpa þyrfti kröfur til heimilda og ferla yrði að nýju að skylda fólk til að halda sig heima eða í byrgjum, bera hlífðarfatnað eða þiggja lyfjagjöf, til dæmis vegna eldgosa eða átaka.
Vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi, rýmingar Grindavíkur og Bláa lónsins og aðgerða til að verjast hraunstraumi hefur orðið til mikil reynsla hjá almenningi, fyrirtækjum og opinberum aðilum á vegum sveitarfélaga og ríkisins sem nauðsynlegt er að halda til haga svo að hana megi nýta í öðrum tilvikum og við aðrar aðstæður. Það verður ekki gert nema staðreyndum og lýsingu á viðbrögðum sé haldið til haga.
Hvarvetna annars staðar á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld dreift til heimila bæklingum og öðru fræðsluefni um viðbrögð á hættustundu. Ekki dugir að gera slíkt efni aðgengilegt á netinu því að líklegt er að á því slokkni vegna rafmagnsleysis.
Óviðunandi er að 30 ár líði frá sorgaratburði eins og snjóflóðunum í Súðavík þar til hafin er sjálfstæð rannsókn á þeim. Alþingi brást vel og skynsamlega við tilmælunum frá forsætisráðherra. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis mótaði farveg fyrir skipan rannsóknarnefndar í almannavarnatilvikum.
Þegar alþingi kemur saman hljóta þingmenn að búa þannig um hnúta að ekki líði 30 ár þar til óhlutdrægar úttektir liggi fyrir um stjórnsýslu í heimsfaraldri og viðbrögð við jarðeldum á Reykjanesi.