Trúnaðarmenn Félags framhaldsskólakennara samþykktu á fundi í gær að hefja undirbúning ótímabundinna verkfalla í „ákveðnum fjölda framhaldsskóla“ í næsta mánuði. Munu framhaldsskólakennarar greiða atkvæði um verkfallið náist samningar ekki fyrir mánaðamót, þegar friðarskyldu lýkur

Trúnaðarmenn Félags framhaldsskólakennara samþykktu á fundi í gær að hefja undirbúning ótímabundinna verkfalla í „ákveðnum fjölda framhaldsskóla“ í næsta mánuði. Munu framhaldsskólakennarar greiða atkvæði um verkfallið náist samningar ekki fyrir mánaðamót, þegar friðarskyldu lýkur. Þetta kemur fram í tilkynningu Kennarasambands Íslands.

Trúnaðarmennirnir lýstu þungum áhyggjum af „algerri pattstöðu“ í kjaradeilu KÍ við samninganefndir ríkis og sveitarfélaga, í ályktun sem samþykkt var á fundinum.

„Krafa alls félagsfólks KÍ er að kjarasamningar inniberi skuldbindingu launagreiðenda um að staðið verði við samkomulag sem undirritað var í september 2016,“ segir í ályktuninni. Samkomulagið hafi kveðið á um jöfnuð milli opinbers og almenns markaðar.