Deilurnar á milli Blake Lively og Justins Baldoni halda áfram að magnast því nú hafa þeir Kevin Feige forstjóri Marvel, Bob Iger forstjóri Disney og leikstjórinn Tim Miller verið dregnir inn í mitt dramað. Variety greinir frá því að Baldoni krefjist þess nú að Disney og Marvel varðveiti öll skjöl og gögn sem tengjast karakternum Nicepool, sem Ryan Reynolds eiginmaður Lively lék í Marvel-myndinni Deadpool & Wolverine. Þetta útspil gæti komið einhverjum á óvart í ljósi þess að kvikmyndin It Ends With Us, sem er ástæða deilunnar á milli leikaranna tveggja, var gefin út af Sony og hafði ekkert með Disney að gera. En lögmaður Baldonis telur að Reynolds hafi verið að hæðast að Baldoni í Deadpool & Wolverine, sem Disney gaf út í júlí, með því að byggja karakterinn Nicepool á honum. Karlmannskarakter með hárið í snúð sem þykir segja óviðeigandi hluti í garð kvenna þrátt fyrir að gefa sig út fyrir að vera femínisti.
Baldoni hvergi nærri hættur
Baldoni lætur þó ekki þar við sitja því nú hefur hann einnig lagt fram kæru á hendur hjónunum Lively og Reynolds, að því er kemur fram á BBC. Kemur kæran í kjölfar þess að Lively lagði fram formlega kvörtun í fyrra þar sem hún sakaði Baldoni og yfirmann framleiðslufyrirtækis hans Wayfarer um kynferðislega áreitni auk „annarrar truflandi hegðunar“ og fyrir að skapa fjandsamlegt vinnuumhverfi á tökustað við gerð myndarinnar It Ends With Us. Baldoni krefst þess að fá 400 milljónir dala í skaðabætur, sem samsvarar um 59 milljörðum íslenskra króna, vegna fjárkúgunar, ærumeiðinga og innrásar í friðhelgi einkalífsins. Lögfræðiteymi Livelys hefur lýst þessu nýjasta útspili Baldonis sem enn einum kaflanum í handbókinni um ofbeldismenn en lögfræðingar Baldonis segja Lively og teymi hennar hins vegar hafa gert ítarlega tilraun til að eyðileggja hann og hans feril.