[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk hefur beðið í ofvæni, eins og í Eyjum forðum, eftir bátum til að komast á brott. Sumir komu of seint eða komust ekki að og bátarnir ekki snúið til baka. Hvað varð um þá sem sluppu?

Bátafloti Vestmannaeyja gegndi lykilhlutverki í björgunarstarfi í Eyjum þegar gos hófst þar 23. janúar 1973. Árið 2010 hófst söfnun frásagna Vestmanneyinga, tæplega 5.000 manns, af sögulegum flótta þeirra til Þorlákshafnar í skjóli nætur. Það voru Eyjakonurnar Jóhanna Ýr Jónsdóttir og Helga Hallbergsdóttir sem ýttu verkefninu úr vör á vegum byggðasafnsins Sagnheima. Síðar tók Ingibergur Óskarsson við keflinu. Hann lét sér detta í hug að skrá alla bátana sem komu við sögu og farþegana sem fóru með þeim og gera þessi gögn aðgengileg á vefnum undir heitinu „Allir í bátana“.

Það er sannarlega vel til fundið að heiðra Ingiberg nú á gosafmæli. Verkefni hans og samstarfsfólks hans var frumlegt og fjölmargir Vestmanneyingar hafa bæði lagt hönd á plóginn og nýtt sér afraksturinn. Vitneskjan um bátana og fólkið sem sigldi með þeim nóttina afdrifaríku hefur hjálpað flóttafólkinu og afkomendum þess að rifja upp erfiðar minningar og sögulegan atburð. Síðan hefur oft verið spurt: „Með hvaða bát fórst þú?“ Farþegarnir voru ekki munstraðir á bátana; þeir voru uppteknir af öðru en skráningu. Gosið var fyrirvaralaust og það sem mestu máli skipti var að koma sér umsvifalaust á brott.

Mannfræðingar eru gjarna uppteknir af samanburði, til að varpa ljósi á sögu og mannlíf, og það gildir um undirritaðan. En flóttinn í land var einstakur viðburður í Íslandssögunni, jafnvel á heimsvísu. Hvert á þá að sækja samanburð? Oft hefur verið sagt að Heimaey sé „Pompei norðursins“. Í báðum tilvikum fór fjölmenn og rótgróin byggð undir ösku. En þótt Pompei sé að sumu leyti heppileg til samanburðar við Heimaey held ég að bærinn Herculaneum, sem féll í sama gosi, eigi að sumu leyti betur við. Þar koma bátar og flóttafólk einmitt við sögu.

Pompei eða Herculaneum?

Einu samtímaheimildirnar um gosið í Vesúvíusi árið 79 eftir Krists burð eru tvö bréf, rituð af Pliny yngra og Tacitusi sagnfræðingi. Allt frá lokum sextándu aldar hafa fornleifafræðingar grafið sig niður á byggðina í Pompei, dregið fram í dagsljósið vitneskju um mannlíf sem tók snögglega enda í gosinu, líklega 24. ágúst. Rústir í Pompei eru nú þaulrannsakaðar og fjölsóttar af ferðamönnum. Þar gefst fólki kostur á að ganga um fornar götur og virða fyrir sér merkilegar veggskreytingar. Gosaskan lagðist yfir bæinn á svipstundu eins og þykkt teppi, eyddi öllu lífi. Segja má að Pompei hafi orðið að táknmynd fyrir hvers kyns hamfarir, helför síðustu aldar, ógnir kjarnorkuvopna, aldauða dýrategunda – og eldgosin í Eldfelli og í nágrenni Grindavíkur.

Safnið Eldheimar í Eyjum er skírskotun til Pompei. Að hluta til er það reist á rústum heimilis sem var yfirgefið í skyndi þegar heimilisfólkið hraðaði sér í bátana. Spölkorn frá þeim stað var heimili mitt í Eyjum, steinhús sem foreldrar mínir reistu að Nýjabæjarbraut 1. Þar bjó fjölskylda mín í nokkur ár, en við fluttum til Reykjavíkur árið 1968. Húsið lagðist saman undan fargi gosöskunnar en fæðingarheimili mitt, Bólstaður við Heimagötu 18, fór undir hraun. Sumarið 2018 sótti ég ráðstefnu í Napólí um eldfjöll þar sem ég flutti erindi um eldgosið á Heimaey árið 1973. Ráðstefnugestum var boðið að skoða rústir í Herculaneum skammt fyrir austan Napolí sem verið var að kynna fyrir almenningi. Ég tók boðinu og varð ekki fyrir vonbrigðum. Ekki hvarflaði þó að mér þegar hér var komið sögu að Herculaneum kallaðist jafn skýrt á við Vestmanneyjabæ og sögulega siglingu Eyjaflotans í land eins og raun ber vitni.

Ólík örlög

Herculaneum og Pompei voru ólík bæjarfélög. Herculaneum var við sjávarsíðuna, þar bjuggu um 5.000 manns og þar var stunduð töluverð útgerð. Bænum hefur að þessu leyti svipað til Vestmannaeyjabæjar. Pompei var hins vegar innar í landinu og mun fjölmennari byggð, íbúar voru um 30.000. Herculaneum státaði af mun meiri auðæfum en Pompei og þangað sótti rómverska yfirstéttin til að slaka á í nærveru hafsins. Örlög þessara bæja í gosinu voru sömuleiðis afar ólík. Í Pompei hafði fólk ekkert ráðrúm og kafnaði á augabragði á fyrsta stigi gossins undir ösku, en íbúar Herculaneum sluppu vel. Þar féll í byrjun lítið af ösku og fólk tók að forða sér. Bærinn var vestan megin við eldfjallið og öskustrókurinn streymdi að mestu framhjá honum suður til Pompei.

Á næsta stigi gossins dró enn til tíðinda. Þykkur eldveggur – blanda af ösku, gjalli og gasi – þeyttist niður eftir hlíðum Vesúvíusar á u.þ.b. eitt hundrað kílómetra hraða. Íbúar Herculaneum köfnuðu ekki eins og íbúar Pompei heldur féllu þeir andspænis 300 til 700 gráða heitum eldveggnum frá Vesúvíusi. Beinagrindum fórnarlambanna hefur verið líkt við leifar fórnarlamba kjarnorkuárásarinnar á Híróshíma í síðari heimsstyrjöldinni. Hitinn eirði engu og beinin lituðust af blóði. Í kjölfar þessa gengu bylgjur gosleðju yfir Herculaneum og færðu bæinn á kaf á 20 metra dýpi. Leðjan harðnaði og varðveitti lífræn efni sem nú gefa vísbendingu um gróðurfar og fæðuval fyrir gos. Löngu eftir gosið voru tveir bæir (Ercolano og Portici) reistir ofan á öskulaginu sem huldi Herculaneum. Það hefur ekki auðveldað fornleifafræðingum að vinna sín störf. En rannsóknum hefur fleygt fram.

Flóttaleiðirnar

Talið hefur verið að enginn hafi komist undan í gosinu í Vesúvíusi. Athyglin hefur gjarna beinst að hörmulegum endalokum Pompei og minjunum sem þar er að finna. Nú er í vaxandi mæli fjallað um hugsanlegar flóttaleiðir í gosinu, einkum frá Herculaneum, sem uppgötvaðist síðar en Pompei. Gosið stóð í tæpan sólarhring og ýmislegt bendir til að þrátt fyrir allt hafi margur komist á brott áður en yfir lauk, ef til vill meirihluti íbúanna. Mun færri líkamsleifar hafa fundist í bæjunum tveimur en búast mætti við. Auk þess kom í ljós að hesthús stóðu auð, vagnar og bátar voru á brott og skartgripaskápar og fjárgeymslur höfðu verið tæmdar.

Í ljósi þessa er nú verið að endurskrifa sögu gossins. Skömmu fyrir síðustu aldamót fundu fornleifafræðingar líkamsleifar um 300 fórnarlamba gossins í Herculaneum í nokkrum „bátaskýlum“ við ströndina. Fólk hefur beðið í ofvæni, eins og í Eyjum forðum, eftir bátum til að komast á brott. Sumir komu of seint eða komust ekki að og bátarnir ekki snúið til baka. Hvað varð um þá sem sluppu?

Sagnfræðin og erfðafræðin

Steven L. Tuck, prófessor í sagnfræði og klassískum fræðum í Ohio, er í hópi þeirra sem telja að gosið í Vesúvíusi verðskuldi annars konar frásögn en tíðkast hefur, það snúist ekki um útrýmingu heldur um fólk sem bjargaði sér, lifði af og kom undir sig fótunum annars staðar. Um svipað leyti og Ingibergur Óskarsson og félagar hans í Eyjum hófu skráningu á bátunum frá Eyjum tók Tuck að grafast fyrir um afdrif flóttafólksins frá Pompei og Herculaneum. Honum datt í hug að leita að eftirnöfnum sem voru dæmigerð fyrir þessa bæi og kanna hvort þau væri að finna í nálægum byggðarlögum eftir gos. Hann hefur fundið nöfnin í áritunum á veggjum og á legsteinum í 12 bæjum og borgum norðan við Vesúvíus, utan þess svæðis sem varð fyrir mestum skaða. Alls hefur hann fundið nöfn 200 brottfluttra einstaklinga. Mörg settust að í Napólí.

Flóttafólkið virðist hafa haldið hópinn og notfært sér kunningsskap og tengslanet að heiman þegar það kom sér fyrir á nýjum stað. Samfélagið sem tók við þessu fólki virðist hafa gert sérstakar ráðstafanir til að geta tekið á móti því og tryggja að það gæti notið sín og komið undir sig fótunum. Tuck bendir á vissar eyður í gögnum sínum. Ættarnöfn margra útlendinga og þræla, sem voru margir, voru ekki skráð og því erfitt að fylgja þeim eftir. Rannsóknir á erfðaefni líkamsleifa í Pompei geta fyllt í einhverjar eyður, jafnvel eytt misskilningi. Erfðafræðingar við Cambridge-háskóla hafa leitt í ljós að túlkun á sumum líkamsleifunum í Pompei hefur verið byggð á vafasömum fyrirframgefnum hugmyndum um fjölskyldutengsl og félagslegan uppruna. Sumt af þessu fólki hefur átt ættir að rekja til annarra svæða við Miðjarðarhaf eða Norður-Afríku.

Innsæi Stevens Tucks er frumlegt, eins og innsæi Ingibergs Óskarssonar og félaga, og á vissan hátt kallast það á við „Alla í bátana“. Þótt lítið sem ekkert sé vitað um sjálfa bátana frá Herculaneum ætti að vera hægt, segir Tuck, að komast nánar að því hvað varð um flóttafólkið. Furðu sætir að þessi saga hafi ekki verið almennilega sögð fyrr en nú. Kannski er ný sagnaritun rétt að byrja.

Höfundur er mannfræðingur.

Höf.: Gísli Pálsson