Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs fyrir árið 2025 voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fór fram á Hilton hótelinu í vikunni.
Dr. Jón Emil Guðmundsson, lektor við raunvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut verðlaunin fyrir árið 2025. Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra afhenti verðlaunin.
Jón Emil er sérfræðingur í stjarneðlisfræði, með sérstaka áherslu á örbylgjukliðnum – elsta ljósinu í alheiminum. Það er mat dómnefndar að Jón Emil sé framúrskarandi ungur vísindamaður sem sýnt hafi fram á sjálfstæði, frumleika og árangur í sínum rannsóknum. Hann útskrifaðist úr grunnnámi í eðlisfræði við Háskóla Íslands árið 2008. Hann flutti til Bandaríkjanna og stundaði bæði meistaranám og doktorsnám í eðlisfræði við Princeton.
Að loknu doktorsnámi starfaði hann í eitt ár sem nýdoktor í Princeton áður en hann flutti sig til Stokkhólmsháskóla. Árið 2018 hlaut hann styrk frá Sænsku geimvísindastofnuninni sem gerði honum kleift að stofna sinn eigin rannsóknarhóp og árið 2022 tók Jón Emil einnig við stöðu lektors við Raunvísindadeild HÍ.