Melania er einstaklega glæsileg kona sem vekur athygli hvert sem hún kemur. Manneskjan sjálf er nokkur ráðgáta.
Melania er einstaklega glæsileg kona sem vekur athygli hvert sem hún kemur. Manneskjan sjálf er nokkur ráðgáta. — Mynd/Wikipedia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trump leitar mjög til hennar og hlustar á ráð hennar. Hún er eina manneskjan í innsta hring hans sem getur gagnrýnt hann án þess að hann bregðist illa við.

Donald Trump verður settur inn í embætti forseta Bandaríkjanna mánudaginn 20. janúar. Við hlið hans verður eiginkona hans Melania.

Melaniu hefur verið lýst sem ráðgátu. Stundum hefur verið dregin upp mynd af henni sem hjálparvana konu sem hafi engar sjálfstæðar skoðanir og sé viljalaust verkfæri í höndum eiginmanns síns. Um tíma bar nokkuð á hreyfingu sem kom fram undir slagorðinu „Free Melania“. Á baráttufundum kvenna mátti jafnvel sjá konur með skilti þar sem sjá mátti þessi orð. Sagt er að Melaniu hafi verið allnokkuð skemmt yfir herferðinni.

Melaniu hefur verið lýst sem kaldri og fjarlægri en þeir sem hafa átt töluverð samskipti við hana segja hana hlýja manneskju. Ævisagnaritari hennar segir hana gera hlutina eins og hún vilji gera þá, ekki eins og ætlast sé til af henni.

Í fyrri forsetatíð Trumps, 2017-2021, hélt Melania sig áberandi mikið til hlés. Hún sást ekki mikið í Hvíta húsinu heldur bjó í New York ásamt syni þeirra. Búist er við að hún verði nú sýnilegri en áður og muni búa í Hvíta húsinu ásamt eiginmanni sínum, en að sjálfsögðu munu þau ekki deila svefnherbergi, fremur en áður.

Fékk ekki símanúmerið

Melanija Knavs fæddist í Slóveníu í fjölskyldu sem var fjárhagslega vel stæð og ólst upp sem kaþólikki. Hún fékk snemma áhuga á tísku og hannaði og saumaði eigin föt. Sem unglingur lærði hún hönnun og ljósmyndun og ætlaði sér að verða fatahönnuður. Sextán ára gömul fór hún að starfa sem fyrirsæta. Hún hefur alla tíð verið öguð, lifað heilusamlegu lífi og forðast alla óreglu. Hún kom til Bandaríkjanna árið 1996 og tveimur árum seinna var hún kynnt fyrir kaupsýslumanninum Donald Trump. Hann bað um símanúmer hennar en hún neitaði og sagði seinna að ef hún hefði látið hann fá númerið hefði hún einungis orðið ein af þeim fjölmörgu konum sem hann hringdi í. Hann gaf henni sitt símanúmer og hún hringdi viku seinna. Þau gengu í hjónaband árið 2005. Trump stakk upp á því að athöfninni yrði sjónvarpað á NBC en Melania tók það ekki í mál enda hefur hún aldrei sóst sérstaklega eftir athygli. Töluverður aldursmunur er á þeim, hann er 78 ára og hún 54 ára.

Engin dramadrottning

Hjónin hafa aldrei eytt miklum tíma saman en kunnugir segja að hann meti hana mikils og henni þyki vænt um hann. Þau eiga saman soninn Barron og Melania hefur séð um uppeldi hans, að mestu án aðstoðar barnfóstra. Trump hefur ekki komið nálægt uppeldinu enda lítur hann ekki á það sem sitt hlutverk. Melania er stjúpmóðir fjögurra barna hans. Hún er sögð náin einu þeirra, Tiffany, sem var sex ára þegar Melania hóf samband við föður hennar. Melania er umhyggjusöm móðir og lagði sérstaka áherslu á það við eiginmann sinn að syni þeirra yrði tryggður sanngjarn erfðaréttur og mun hafa náðst samkomulag um það þeirra á milli.

Það var Melania sem hvatti mann sinn til að fara í forsetaframboð árið 2016 og hafði, ólíkt mörgum sem voru í hans innsta hring, trú á að hann gæti unnið. Hún sagði honum að hann ætti að vera hann sjálfur og segja það sem honum fyndist. Hún beitti sér þó ekki mikið í kosningabaráttu hans, hélt þó umdeilda ræðu á flokksþingi Repúblikana og þar var ýmislegt að finna sem minnti óþægilega á ræðu sem Michelle Obama hafði flutt nokkru áður. Melania tók gagnrýni á það mjög inn á sig en Trump kenndi aðstoðarmönnum um, en þeim hafði láðst að lesa ræðuna yfir.

Starfsfólk Hvíta hússins ber Melaniu vel söguna, segir hana enga dramadrottningu heldur manneskju sem kom vel fram við það. Á fyrsta ári sínu í Hvíta húsinu flutti Melania átta ræður en Michelle Obama hélt 74 á sínu fyrsta ári þar. Margir efuðust um að Melaniu liði vel í hlutverki forsetafrúar. Hún virtist sinna hlutverkinu meira af skyldu en áhuga. Hún var þó iðin við að heimsækja barnaspítala og er sögð opin og hlý þegar hún talar við börn. Velferð barna er henni mikið hjartans mál.

Ráðgjafar Trumps voru ekki sáttir við langar fjarverur hennar frá Hvíta húsinu einfaldlega vegna þess að þeir sáu að Melania hafði róandi áhrif á forsetann. Trump leitar mjög til hennar og hlustar á ráð hennar. Hún er eina manneskjan í innsta hring hans sem getur gagnrýnt hann án þess að hann bregðist illa við. Hann hefur rekið fólk vegna þess að hún var andsnúin því.

Alls ekki vinsæl

Melania hefur ekki ætíð verið sátt við áherslur manns síns og lætur vita af því. Hún er til dæmis fylgjandi þungunarrofi og hefur talað fyrir rétti kvenna til þess. Hún talaði fyrir sóttvörnum á covid-tímanum þegar Trump gerði það ekki.

Árið 2018 heimsótti Melania flóttamannabúðir fyrir börn sem höfðu verið aðskilin frá foreldrum sínum. Hún var í jakka með áletruninni: Mér stendur í rauninni alveg á sama, hvað með þig?“ Hún var sökuð um kaldlyndi en sagði orðin vera skilaboð til vinstrisinnaðra fjölmiðla og fólks sem hefði gagnrýnt hana. Hún sagðist seinna hafa verið að ögra þessum hópi. Hún sagði eiginmanni sínum að það væri rangt að aðskilja börn flóttafólks frá foreldrum sínum og Trump lét í kjölfarið af stefnu sem hann hafði verið harðlega gagnrýndur fyrir.

Trump hefur verið bendlaður við ótal hneykslis- og framhjáhaldsmál. Þegar sambönd hans við aðrar konur komust í sviðsljósið virtist sem Melania hefði ekki haft grun um þau. Þegar upptaka sem sýndi hann tala niðrandi um konur var opinberuð sagði hún upptökuna ekki sýna manninn sem hún þekkti.

Árið 2018 varð uppvíst um samband hans við klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels sem hafði átt sér stað um svipað leyti og Melania fæddi son sinn. Í kjölfarið afboðaði Melania sig frá opinberum viðburðum með manni sínum og sást lítið opinberlega.

Hún hefur oft komið manni sínum til varnar og eftir banatilræði við hann á síðasta ári mætti hún í viðtal við Fox og sakaði andstæðinga Trumps um að hafa skapað eitrað andrúmsloft sem hefði leitt til árásarinnar.

Sem forsetafrú lítur Melania á Jacqueline Kennedy og Betty Ford sem fyrirmyndir. Hún er annáluð fyrir góðan fatasmekk og kunnugir segja að það sé aldrei tilviljun hverju hún klæðist.

Heimildamynd um hana er í vinnslu hjá Amazon og verður sýnd á árinu. Hugsanlega mun myndin verða til að bæta ímynd forsetafrúarinnar og á því þarf hún að halda. Í bandarískri skoðanakönnun sem gerð var meðal fræðimanna og sagnfræðinga árið 2020 var hún kosin versta forsetafrú í sögu Bandaríkjanna. Ekki sanngjarnt, segja þeir sem þekkja hana.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir