Stemning Kokteilarnir á Tipsý eru vinsælir hjá skemmtanaglöðum.
Stemning Kokteilarnir á Tipsý eru vinsælir hjá skemmtanaglöðum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kokteilbarinn Tipsý fékk flestar tilnefningar á barþjónakeppninni Bartenders Choice Awards, fimm talsins. Tilnefningarnar voru kynntar í vikunni. Bartenders Choice Awards er norræn barþjónakeppni þar sem dómnefnd veitingamanna í hverju landi…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Kokteilbarinn Tipsý fékk flestar tilnefningar á barþjónakeppninni Bartenders Choice Awards, fimm talsins. Tilnefningarnar voru kynntar í vikunni.

Bartenders Choice Awards er norræn barþjónakeppni þar sem dómnefnd veitingamanna í hverju landi tilnefnir þá einstaklinga, bari og veitingastaði sem þykja hafa staðið upp úr bransanum í hverjum flokki fyrir sig. Þetta verður í 15. sinn sem Bartenders Choice Awards er haldin og sjötta árið sem Ísland tekur þátt í henni. Úrslit verða kynnt 24. mars í Stokkhólmi á sérstökum hátíðarkvöldverði.

Skál!, Sumac og Skreið hlutu tilnefningu sem besti veitingastaðurinn en besta kokteilaseðilinn er að finna á Ömmu Don, Gilligogg og Skál!. Bestu nýju kokteilbarirnir eru Daisy, Gilligogg og Litli barinn. Þrír bestu kokteilbarir á Íslandi eru samkvæmt þessum tilnefningum Amma Don, Jungle og Tipsý.

Besta andrúmsloftið er á Bingo, Kalda bar og Tipsý en tilnefningar í flokknum verðlaun fólksins hljóta Amma Don, Jungle og Tipsý. Þrír hljóta tilnefningu sem bestu barþjónar landsins; Hrafnkell Ingi Gissurarson frá Skál!, Jakob Eggertsson frá Jungle og Daisy og Martin Cabejšek frá Gilligogg. Elvar Halldór Hróar Sigurðsson frá Lebowski er tilnefndur í flokknum rísandi stjarna ásamt þeim Helgu Signýju og Kríu Freysdóttur frá Tipsý. Þá eru Fannar Logi Jónsson, Jónas Heiðarr og Teitur Ridderman Schiöth tilnefndir fyrir að beita sér fyrir framþróun bransans.

Að síðustu ber að geta tilnefninga fyrir besta „signature“-kokteilinn en þær hlutu Daisy fyrir Austurvallar Swizzle, Skál! fyrir Letsgroni og Gilligogg fyrir Pistachio.