Tungutak
Þórhallur Eyþórsson
tolli@hi.is
Sjónvarpsþættirnir um Vigdísi Finnbogadóttur njóta mikilla vinsælda. Ekki fer þó hjá því að áhorfendur finni að ýmsu sem þeir álíta að betur mætti fara. Meðal annars hafa verið taldar upp tímaskekkjur, t.d. í málfarsefnum. Hér verður staldrað við í kennslustund hjá Hermóði latínukennara, sem Guðmundur Ólafsson leikur með ágætum. Vigdís varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949 og þá þéruðust kennarar og nemendur. Þéringum er alfarið sleppt í þáttunum og þykir sumum skjóta skökku við en aðrir telja eðlilegt að færa málsniðið til okkar tíma.
Þegar ég var í MR á áttunda áratugnum voru aðeins tveir kennarar sem þéruðu nemendur: Guðni rektor Guðmundsson sem kenndi ensku og Ólöf Benediktsdóttir, virðuleg frú af Engeyjarætt, sem kenndi dönsku. Guðni var frægur fyrir neyðarleg ummæli eins og „Haldið þér kjafti, helvítið yðar.“ Eitt sinn kom rektor inn í bekk með boðskap til nemenda. Þegar hann var á leið út aftur mundi einn nemandinn eftir einhverju sem hann vildi spyrja um og sagði stundarhátt: „Heyrðu!“ Þá sneri Guðni sér við í dyragættinni og sagði með fyrirlitningarsvip: „Hvenær urðum við dús?“ Venjan var að fólk þéraði hvert annað en ef það vildi nota fornafnið þú – þúa viðmælanda sinn – þurfti það að „bjóða dús“. Guðni hafði ekki boðið nemandanum dús og nemandinn hefði því átt að segja: „Heyrið þér!“
Hermóður latínukennari ritar á töfluna Alea iacta est, sem þýðir orðrétt „teningnum er kastað“. Þetta er frægasta setning sem sögð hefur verið á latínu – jafnvel í allri mannkynssögunni – og er höfð eftir Sesari er hann hélt yfir ársprænuna Rúbíkó 10. janúar 49 f. Kr. (Reyndar segja sumir að Sesar hafi mælt þessa setningu á grísku en látum það ekki spilla sögunni.) Hermóður þýðir hins vegar „teningunum er kastað“, eins og um væri að ræða fleirtölu. Hætt er við að sjálfur hefði latínukennarinn ekki fengið háa einkunn fyrir þessa frammistöðu því að orðin alea ‘teningur’ og iacta est ‘kastað er’ eru hér í eintölu.
Ekki batnar latínan er þegar kennarinn ritar á töfluna: Terram ecclesie do ‘Ég gef kirkjunni land’. Ecclesia þýðir ‘kirkja’ og þágufallið í klassískri latínu sem kennd er í menntaskólum er ecclesiae, ekki ecclesie (sem er seinna alda latína). Að auki sker íslenskulegur framburður latínukennarans í eyru. Hann segir do ‘(ég) gef’ eins og orðið rími við sko en í latínu er framburðurinn „dó“ sem rímar við hó. Loks eru föllin í latínu rituð á töfluna en af óskiljanlegum ástæðum vantar þar accusativus ‘þolfall’ og vocativus ‘ávarpsfall’.
Ýmsum mun þykja slík smásmylgi vera tittlingaskítur. Þá er við hæfi að vitna í Handritaspjall eftir Jón Helgason prófessor (1958): „Sá sem segði við sjálfan sig: ,þetta er lítilvægt og þessvegna hirði ég ekki um að vera vandvirkur’ hefur ekki öðlast hinn rétta anda til svona verka.“ Það á við í smáu sem stóru.