Stígur Sæland garðyrkjubóndi fæddist í Hafnarfirði 19. ágúst 1949. Hann lést á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 7. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Eiríkur Ágúst Sæland, f. 28. apríl 1922, d. 22. nóvember 2002, og Hulda Gústafsdóttir Sæland, f. 24. desember 1926, d. 22. janúar 2018.

Stígur var þriðji í röð sex systkina, hin eru: Sigríður Sæland, f. 1944, Gústaf Sæland, f. 1945, Klara Sæland, f. 1951, Sveinn Sæland, f. 1954, og Eiríkur Ómar Sæland, f. 1958.

Árið 1968 kynntist Stígur Aðalbjörgu Sigurjónsdóttur frá Vatnsdalsgerði í Vopnafirði, þau giftust 26. desember 1969 en skildu 1992.

Börn þeirra eru: 1) Sigurjón Sæland, f. 20. mars 1969, kvæntur Guðbjörgu Þuru Gunnarsdóttur, f. 31. janúar 1969. Börn þeirra eru Aðalbjörg Elsa Sæland, sambýlismaður Oddur Ingi og barn þeirra Oliver Andri. Sólrún Tinna Sæland og fóstursonur Sigurjóns er Guðjón Andri giftur Eline Elnes. Börn þeirra eru Frosti, Lilja og Storm. 2) Ágúst Sæland, f. 27. janúar 1972, kvæntur Unni Gunnarsdóttur, f. 29. október 1974. Börn þeirra eru Karitas og Bjarki. Dóttir Ágústs af fyrra sambandi er Hafdís Sæland, gift Hrannari Ágústssyni. Börn þeirra eru Rebekka og Rökkvi. Móðir Hafdísar er Pálína Margrét Poulsen. Með fyrri konu sinni, Steinunni Kristínu Pétursdóttur, eignaðist Ágúst Sigurð Inga, í sambúð með Clziu Macchi, og Fanneyju Rún, í sambúð með Ásgeiri Pálmasyni. Börn þeirra eru Matthías Haukur Sæland og Sólveig Klara Sæland. 3) Stígur Sæland, f. 10. júní 1977, sambýliskona hans er Mona Tysland Lillehagen f. 31. október 1987. Barn Stígs af fyrra sambandi er Símon Már Sæland, móðir Símonar er Susanne Lundmark. Börn af fyrra sambandi eru Anna Lilja Sæland, í sambúð með Marius Sjöholt Kolas, og Aron Reynir Sæland, í sambúð með Louise Aarhus Undertun. Móðir Önnu og Arons er June Helen Akslen.

Stígur Sæland ólst upp á Espiflöt í Biskupstungum þar sem foreldrar hans stunduðu garðyrkju. Ræktun átti hug hans alla tíð.

Hann fór með þáverandi eiginkonu sinni til Vestmannaeyja í vinnu hjá Magnúsi Jónssyni í Alfa. Árið 1971 keyptu þau húsið að Stóra-Fljóti í Biskupstungum og unnu hjá foreldrum Stígs á Espiflöt. Árið 1977 gerðust þau meðeigendur í félagsbúinu Espiflöt ásamt foreldrum Stígs og bróður og mágkonu, þeim Sveini Sæland og Áslaugu Sveinbjargardóttur. Þau ræktuðu afskorin blóm og er stöðin enn sú stærsta á landinu í þeirri ræktun.

Árið 1987 urðu breytingar og Stígur og Aðalbjörg byggðu garðyrkjustöð neðar í landi Espiflatar sem fékk nafnið Garðyrkjustöðin Stóra-Fljót. Eftir skilnaðinn rak Stígur garðyrkjustöðina til 2005 en þá urðu breytingar á eignarhaldi og Stígur hætti rekstri.

Stígur Sæland kynntist Ragnhildi Kristinsdóttur frá Eskifirði 1994, þau slitu samvistum 1999.

Sambýliskona Stígs frá 2002 er Kristín Jóhannesdóttir sem lifir sambýlismann sinn, sonur hennar sem ólst að hluta til upp hjá Stíg er Guðmundur Ás Magnússon, f. 20. júní 1988. Þau bjuggu fyrstu árin saman í Tungunum, fluttu eitt ár til Reykjavíkur en svo aftur í Tungurnar.

Útförin fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 18. janúar 2025, klukkan 14.

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.

Vinur aftansólar sértu,

sonur morgunroðans vertu.

(Stephan G. Stephansson)

Við Stígur kynntumst árið 2002 og forum að búa saman um sumarið í Reykholti og sonur minn kom með mér. Vorum því saman í 23 ár. Hann var mjög hjartahlýr og góður maður, afskaplega duglegur og ákveðinn og hirðusamur.

Stígur átti og rak garðyrkjustöðina Stórafljót í Reykholti og ræktaði rósir. Hann var svo óheppinn að sjúkdómur kom í rósirnar sem enginn vissi hver var og hann þurfti að henda allri ræktuninni og fá nýjar plöntur og það kostaði mikið. Það var léleg sala og þetta endaði með að hann missti stöðina í gjaldþrot 2005 sem var mikið áfall fyrir hann og braut hann mikið niður. Hann var vakinn og sofinn yfir stöðinni og þetta var fallegasta blómastöðin. Upp úr því greindist hann með parkinsonssjúkdóminn. Var svo eftir það í hlutastarfi á Espiflöt gróðrarstöð hjá bróður sinum.

Við áttum mjög góðan tíma saman. Stígur var mjög kærleiksríkur. Vildi allt fyrir mig gera.

Höfðum bæði mikinn áhuga á andlegum málum, vorum í bænahringjum og námskeiðum. Vorum bæði sannfærð um líf eftir þetta líf og núna er hann laus úr veikindaviðjum.

Ferðuðumst mikið innanlands. Vorum á Suðurlandi á keyrslu þegar stóri Suðurlandsskjálftinn kom og fundum hann ekki þess vegna.

Við reyndum líka þegar við gátum að fara til heitari landa á veturna eins og Kanarí, Tenerife, Costa del Sol á haustin og Portúgal. Það var mjög gott að komast úr myrkrinu og kuldanum hér á Íslandi. Hitinn hafði mjög góð áhrif á okkur bæði. Einu sinni lá við að við kæmumst ekki heim. Það var þegar hrunið varð 2008 og við vorum þá í Portúgal. En það tókst.

Parkinsons varð aðgangsharðara og versnaði og Stígur for á Ás í mars 2017. Ég for síðan á Ás í júlí 2017 til Stígs.

Heilsu Stígs helt áfram að hraka þar til hann lést 7. janúar síðastliðinn, farinn að heilsu og kröftum.

Ég þakka Guði fyrir tímann okkar saman. Það var dýrmætur tími. Ég votta aðstandendum öllum mína dýpstu samúð.

Um undrageim, í himinveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum.

(Benedikt Gröndal)

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

(Sálmarnir 121:1-2)

Kristín.