Þórður sést hér leiðbeina leikurum á settinu. Við hlið hans er stórleikarinn Rory McCann.
Þórður sést hér leiðbeina leikurum á settinu. Við hlið hans er stórleikarinn Rory McCann. — Ljósmynd/Lilja Jóns
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hringdi í leikarann eitt kvöldið og sagði: „Blessaður, heyrðu, sko, þú átt að deyja. Það er miklu flottara fyrir karakterinn þinn að við kveðjum hann á þennan hátt.“

Hrollvekjan The Damned, eða Hinir fordæmdu eins og myndin gæti heitið á íslensku, er erlend framleiðsla en leikstjórinn Þórður Pálsson er alíslenskur. Hugmyndina hefur hann gengið lengi með í maganum og eftir margra ára ferli, mikla vinnu og dugnað er sagan hans loks komin á hvíta tjaldið. Myndin hefur nú þegar verið frumsýnd í Bretlandi og Bandaríkjunum og fengið lofsamlega dóma, meðal annars í New York Times. The Damned, sem er á ensku, leggst vel í Kanann og var hún tekjuhæsta nýja myndin um frumsýningarhelgina. Íslendingar fá svo að berja hana augum 30. janúar.

Sagan gerist í lok nítjándu aldar og segir af fólki í verbúð sem verður vitni að sjóslysi. Erfiðar ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið draga dilk á eftir sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og hryllingi!

Erfið mórölsk spurning

Á Óðinsgötu heima hjá Þórði var gott að setjast niður yfir kaffi og spjalla. Þar býr hann ásamt kisunni Gosa og kærustu sinni Dóru Hrund, en henni kynntist hann einmitt við tökurnar á The Damned.

Spurður um kveikjuna að sögunni segist Þórður hafa fengið hugmyndina fyrir átta árum.

„Ég var að skrifa annað handrit og flutti vestur á Ísafjörð í þrjá mánuði. Ég kom ekki bílnum úr innkeyrslunni og það var allt á kafi í snjó. Ég þekkti engan þarna, en var reyndar með vini mínum frá Suður-Afríku sem hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt. Ég náði aðeins að upplifa landið á annan hátt í gegnum hann. Ég byrjaði þá að skrifa þetta sem hliðarsögu, en hafði heyrt sögur um hluti sem gerðust í gamla daga í fátækum fiskiþorpum; sögur um að slökkt hefði verið á vitum og skip sem steyttu á skerum; af fólki sem fann hluti í fjörunni og sögur af draugum,“ segir Þórður og segist hafa farið að íhuga uppruna drauga.

„Margar sögur enda ofan í skúffu en það er alltaf ástæða fyrir því ef maður getur ekki gleymt hugmyndinni og þróar hana áfram. Í þessu tilviki var það móralska spurningin sem kviknar í myndinni sem dró mig áfram,“ segir Þórður og segir aðeins frá sögunni, en aðalsöguhetjan er Eva, leikin af áströlsku leikkonunni Odessu Young.

„Eva er yfir lítilli verbúð, en hún hefur misst manninn sinn í sjóslysi. Þau eru þarna föst yfir veturinn og matur er af skornum skammti. Þegar þau sjá skip sökkva við ströndina standa þau frammi fyrir því að ákveða sig; reyna stórhættulega björgun eða ekki, vitandi það að ef einhverjum yrði bjargað myndu þau öll svelta úr hungri. Þar kemur þessi móralska spurning sem brann á mér. Hún varð svo allt í einu hrollvekja þar sem óhugnanlegir hlutir fara að gerast.“

The Damned er samvinnuverkefni framleiðenda í Englandi, Írlandi, Belgíu og Íslandi.

„Hún er frekar dýr fyrsta bíómynd,“ segir hann, en þess má geta að hún kostaði um 725 milljónir króna, eða um fimm milljón dollara.

„Ég þurfti að fá ameríska fjárfesta inn og fjármögnunin tók mörg ár. Svo þegar það tókst þurfti ég að bíða í ár því við urðum að fara í tökur í febrúar og náðum því ekki það árið.“

Að opna nýjar dyr

Þórður lærði kvikmyndagerð í Kvikmyndaskóla Íslands og fór svo í meistaranám í Englandi í National Film and Television School.

„Ég lærði gríðarlega mikið í Kvikmyndaskólanum hér heima, enda fór ég þar inn með mikinn metnað og í stað þess að gera þrjár stuttmyndir gerði ég hátt í níu,“ segir hann.

„Í skólanum er mikil samvinna og ég bauð mig gjarnan fram að leikstýra hjá nemendum í hinum deildunum,“ segir hann, en Þórður var á leikstjórnar- og framleiðslubraut.

„Skólinn er æðislegur ef maður leggur sig allan fram. Ég náði þarna að læra mikið af mistökum mínum og þegar ég svo sótti um í Englandi hafði ég gert miklu fleiri stuttmyndir en hinir umsækjendurnir. Ég hef reyndar aldrei verið eins stressaður á ævinni eins og í viðtalinu þegar ég sótti um og sat þarna í svitabaði,“ segir hann og brosir.

„Svo bara elskuðu kennararnir útskriftarmyndina mína úr Kvikmyndaskólanum,“ segir Þórður, en það voru góð ráð frá móður hans sem fleyttu honum áfram í náminu, og í lífinu sjálfu.

„Mamma sagði við mig strax þegar ég kláraði framhaldsskóla að ég yrði að nota myndirnar mínar til þess að opna nýjar dyr. Ég yrði að skilja hvað það væri mikilvægt að leggja allt í hverja mynd því það væri aldrei að vita hvaða dyr þær myndu síðar opna. Þegar ég gerði svo útskriftarmyndina mína í London opnaði hún dyr að umboðsmanni þar,“ segir Þórður og segist hafa alltaf sett sér há markmið.

„Ég vissi strax eftir námið hér heima að ég kynni ekki nóg og væri ekki tilbúinn að gera heila bíómynd. Ég hafði ekki nógu mikla reynslu af því að vinna með leikurum eða vera í framleiðslu,“ segir Þórður, en hann bjó svo í Englandi meira og minna í tíu ár.

„Ég útskrifaðist árið 2015 og fékk þennan umboðsmann en hvað svo? Ég sá fljótt að ég þurfti að fara að gera mitt eigið „stöff“ og fór bara að vinna á bar og hafa samband við fólk. Ég fór þá að leggja drög að sjónvarpsseríunni Brot,“ segir hann.

„Ég sendi tölvupóst á alla framleiðendur á Íslandi, sendi þeim útskriftarmyndina mína og „biblíuna“ um Brot og spurði hvort þeir væru til í kaffibolla,“ segir hann og útskýrir að í „biblíu“ sé stiklað á stóru um söguþráðinn ásamt vel völdum ljósmyndum.

„Sá fyrsti sem ég hitti var Kristinn Þórðarson hjá True North sem ég endaði á að vinna með, ásamt Davíð Óskarssyni og eiganda True North, Leifi Dagfinnssyni. Þeir tóku sénsinn á mér,“ segir Þórður, en Brot var frumsýnd hér á landi árið 2019 og árið 2020 á Netflix undir nafninu The Valhalla Murders.

„Ég átti hugmyndina en vann svo með handritshöfundum við þróun handritanna og leikstýrði fjórum þáttum af átta. Þættirnir gengu mjög vel bæði heima og erlendis.“

Andrúmsloftið mjög sérstakt

Á svipuðum tíma og Brot fór í loftið fékk Þórður umboðsmann í Bandaríkjunum og tók að sér ýmis verkefni, en alltaf inni á milli var hann að vinna að The Damned ásamt framleiðendunum Kamillu Hodol og Emilie Jouffroy. Handritið er unnið í samvinnu við Jamie Hannigan.

„Framleiðendurnir voru með mér í skóla, þannig að við vorum eins og lítil fjölskylda. Við fjögur vorum í því að þróa handritið og finna pening. Að lokum var handritið orðið það gott að það var sent út og í kjölfarið voru fundnir leikarar í hlutverkin,“ segir hann, en í aðalhlutverkum er áðurnefnd Odessa Young, sem meðal annars lék í The Staircase, Joe Cole, úr Peaky Blinders og Gangs of London, Rory McCann úr Game of Thrones og Siobhan Finneran úr Downton Abbey og Happy Valley, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta eru rosalega fínir leikarar, með sál.“

Hvernig tókst þér að fá þessa flottu leikara með þér í lið?

„Við ræddum hlutverkin og hvaða leikara við sæjum fyrir okkur. Í mjög langan tíma var ég að skrifa bréf til leikara þar sem ég sendi þeim handritið og spurði hvort þau væru til í að leika í myndinni. Þetta er mín fyrsta bíómynd og því vissu þau ekki hvers konar leikstjóri ég væri eða hvað ég vildi gera. Þau höfðu öll séð Brot, en þetta er svo allt öðruvísi saga. Andrúmsloftið í myndinni er mjög sérstakt. En eftir marga fundi og marga kaffibolla kom þetta heim og saman.“

Hundurinn fékk sviðsskrekk

Tökur hófust á Vestfjörðum í febrúar 2023 og stóðu yfir í sex vikur. Leikarar og tökulið þurftu að þola ískulda á setti, enda hávetur á hjara veraldar.

„Þetta er mjög íslensk mynd að því leyti að við erum að vinna í gríðarlegum kulda fyrir vestan. Það eru engir aðstoðarmenn fyrir leikarana og þau eru öll í períóðubúningum alveg að frjósa! Þau voru að drepast úr kulda og vildu bara klára senurnar. Ég var þarna í 66° úlpunni minni með trefil að biðja þau að leika senuna einu sinni enn,“ segir hann og brosir.

„Reyndar missti ég um tíma alveg tilfinninguna í stóru tánum,“ segir hann.

„Svo vorum við úti á sjó á árabát og þetta voru engir sjómenn. Þetta var mjög metnaðarfull bíómynd að gera á sex vikum,“ segir Þórður.

„Við byggðum sett inni í gamalli netaverksmiðju þar sem innisenurnar voru teknar. Á miðri leið þurftum við að breyta planinu. Við vorum búin að skjóta helling af útisenum en vöknuðum einn daginn og snjórinn var farinn. Við skutum því allar innisenurnar og biðum til guðs að aftur færi að snjóa. Ég hringdi í ömmu Huldu, sem er í betra sambandi við almættið, og hún lofaði að tala við guð. Byrjar þá bara ekki að snjóa!“

Ýmislegt fór úrskeiðis við gerð kvikmyndarinnar; fleira en veðrið. Í myndinni átti að vera vinalegur hundur sem síðar myndi breytast í óargadýr.

„Hann átti að spila stóra rullu. Því miður fékk hann sviðsskrekk. Aumingja hundurinn þoldi ekki stressið að hafa fimmtíu til sextíu manns að horfa á hann leika,“ segir Þórður og hlær.

„Aumingja kallinn.“

Þórður segir að allir leikstjórar þurfi að vera tilbúnir að takast á við slík vandamál og þá gildi að finna upp á einhverju nýju.

„Ég hafði alltaf trú á því að við fjögur, ég, Jamie, Kamilla og Emilie, myndum finna lausn og við gerðum það. Ég er mjög ánægður með útkomuna,“ segir hann og bætir við að hann hafi þurft að „drepa“ eina persónuna sem upphaflega átti ekki að deyja.

„Ég hringdi í leikarann eitt kvöldið og sagði: „Blessaður, heyrðu, sko, þú átt að deyja. Það er miklu flottara fyrir karakterinn þinn að við kveðjum hann á þennan hátt.“ Eftir það sagði hann alltaf við mig í hvert skipti sem við sáumst, jafnvel föðmuðumst: „You bastard!““ segir hann og hlær.

Öllum hent í rútu vestur

Hvernig var að leikstýra manni eins og Rory McCann, stjörnu úr Game of Thrones?

„Rory er gull af manni, mjög hlýr og ekki með neina stjörnustæla. Hann er alvöru karlmaður og ekki í slæmri merkingu. Hann hafði ekki leikið í tvö ár þegar hann kom til mín því hann hafði farið í tvær hnjáaðgerðir. Hann var smá stressaður og var alltaf að koma til mín og spyrja hvort leikurinn hans hefði verið í lagi. „Was that okay boss?“ spurði hann reglulega,“ segir Þórður.

„Ég sannfærði hann um það að hann væri frábær. Þá kom alltaf: „Thank you boss!””

Spurður hvort fleira óvænt en snjóleysi og hundur með sviðsskrekk hafi gerst segir Þórður að flugi vestur hafi verið aflýst. Það reyndist kannski happ eftir allt saman.

„Þegar leikarnir komu þurfti að hrista hópinn saman, en við höfðum viku til að undirbúa allt; smink, hár, búninga, gera kamerupróf, æfa bardagasenur og inni á milli láta leikarana kynnast. Við byrjuðum á að fara í Árbæjarsafn og taka fyrsta samlestur. Síðar í vikunni áttum við að fljúga til Ísafjarðar en þá skall á óveður. Þá var það bara rúta! Þetta var ellefu tíma rútuferð í frekar vondu veðri. Leikararnir birgðu sig upp af snakki og bjór og áður en ég vissi af voru allir orðnir perluvinir. Allir voru aðeins búnir að fá sér í tána og sumir voru farnir að syngja. Ég drekk aldrei meðan á tökum stendur, þannig að ég var að reyna að leggja mig, en það var bara partí í rútunni,“ segir Þórður og brosir.

„Þegar við komum vestur hittum við mann sem ætlaði að halda reif og bauð öllu liðinu og þau voru til. Svo um helgar fórum við í alls konar ferðir að skoða fossa og landslagið, þannig að við vorum svo mikið saman. Við vorum orðin eins og lítil fjölskylda og þess vegna voru leikararnir tilbúnir að láta sig hafa það að leika í kulda og trekki,“ segir Þórður.

„Á þeim tíma sem myndin gerist voru konur ekki í jökkum eða úlpum, heldur í lögum af fötum. Aumingja Odessa að þurfa að leika svona illa klædd.“

Kynntist ástinni á setti

Var ekki mikið ævintýri að búa þessa mynd til?

„Jú, en þetta er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Ég átti mér ekkert líf. Þegar allt datt í gang hafði ég ekkert pláss fyrir annað í lífinu eins og til dæmis maka; ég var kominn á vertíð,“ segir Þórður, sem reyndar kynntist kærustu sinni Dóru Hrund við gerð myndarinnar, en hún starfaði í leikmyndadeild.

„Þarna kynntist ég ástinni minni, þannig að myndin er búin að gefa mér mikið. Ég flutti í raun aftur heim til Íslands til að vera með henni,“ segir Þórður.

„Hér er kærastan, vinir og fjölskyldan. Svo er gott að geta farið í sund og fengið sér grjónagraut og slátur.“

Streyma ekki bara peningarnir inn núna frá Ameríku?

„Jú, nú er bara að opna bankabókina,“ segir hann og hlær.

Hvað er næst á dagskrá?

„Ég má ekki segja of mikið en er að þróa bíómynd í Bandaríkjunum sem gerist í Texas. Hún gæti ekki verið ólíkari The Damned,“ segir Þórður og vill ekki gefa of mikið upp. Hann segir myndina vera hrollvekju en með meiri húmor.

„Það er alveg smá „splatter“ í henni. Þarna er ég að gera alls konar hluti sem ég gat ekki gert í The Damned, sem er þyngri mynd,“ segir Þórður.

„Ég er líka búinn að vera að þróa íslenska seríu, „háspennu-hörmungarsögu“ sem ég er að vinna með Óttari Norðfjörð og Margréti Örnólfs í samstarfi við Glassriver. Þegar fjármögnun er komin í höfn get ég sagt meira.“

Er að lifa drauminn

Aftur að The Damned. Þórður segist nú vera búinn að sleppa „barninu“ sínu út í heim. Nú er hann önnum kafinn í viðtölum við blaðamenn víðs vegar að.

„Ekki gúggla nafnið mitt á YouTube,“ segir hann og hlær.

„Aðalatriðið er að myndin hefur fengið svo góða dóma úti. Ég er búinn að læra að dómar skipta máli, en hún fær 91% á Rotten Tomatoes. Það var fjallað um myndina í Variety og New York Times og þau voru mjög hrifin. Það tala allir um þetta andrúmsloft í myndinni. Svo tala allir um Odessu Young sem leikur Evu. Hún er ung en með þroskaða sál. Hún er framtíðarstjarna í Bandaríkjunum og lék nýverið í nýju Bruce Springsteen-myndinni,“ segir hann.

Ertu ánægður að hafa valið þetta starf, að vera kvikmyndaleikstjóri?

„Já, ég er að lifa drauminn minn. Ég er alinn upp af dásamlegri móður og fékk það í veganesti að ég gæti gert allt sem ég vildi. Ég set mér raunhæf markmið fyrir framtíðina og tek eitt skref í einu,“ segir Þórður og segist stefna hátt. Hann vildi ekki vera í neinu öðru starfi.

„Ég er ekki góður í neinu öðru.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir