Vígvallarþreyta Úkraínuher hefur varist stöðugum árásum Rússlands undanfarið og menn margir þreyttir. Illa gengur að leysa þessa menn af.
Vígvallarþreyta Úkraínuher hefur varist stöðugum árásum Rússlands undanfarið og menn margir þreyttir. Illa gengur að leysa þessa menn af. — AFP/Roman Pilipey
Kænugarðsstjórn virðist nú eiga fullt í fangi með að fá nýliða inn í herinn. Á sama tíma hefur gengið illa að taka hermenn frá víglínunni og veita þeim kærkomið leyfi. Þessi staða hefur aukið mjög álag á herafla Úkraínu

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Kænugarðsstjórn virðist nú eiga fullt í fangi með að fá nýliða inn í herinn. Á sama tíma hefur gengið illa að taka hermenn frá víglínunni og veita þeim kærkomið leyfi. Þessi staða hefur aukið mjög álag á herafla Úkraínu. Í ljósi þessa hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum, sem jafnframt eru helsti stuðningur Úkraínustjórnar í baráttunni við innrásarlið Rússlands, þrýst á um lækkun lágmarksaldurs til að gegna herþjónustu. Viðmiðið nú er 25 ár en Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, leggur til 18 ár.

Sú aðgerð að lækka aldur niður í 18 ár yrði ekki einsdæmi, hvorki á Vesturlöndum né annars staðar. Sem dæmi má nefna að í Rússlandi nær herskylda til þeirra sem náð hafa 18 ára aldri. Sérfræðingar hafa þó lengi varað við því að senda svo unga einstaklinga í vopnuð átök. Þeir séu mun líklegri en aðrir til að þróa með sér áfallastreituröskun og fíknisjúkdóma auk þess sem þeir eru líklegri til að leiðast út í afbrot að lokinni herskyldu.

Heraflinn þarf vopn og búnað

Jevheniia Kravchuk er einn þeirra þingmanna í Úkraínu sem eru mótfallnir því að lækka herskyldualdur.

Hún segir brýnna að útvega þeim sem nú þegar berjast nauðsynleg vopn og útbúnað. Herafli Úkraínu sé langt frá því að búa yfir þeim búnaði sem nauðsynlegur er til að stöðva hersveitir Rússlands og Norður-Kóreu, sem óspart fórna sínum mönnum í von um frekari landvinninga.

„Ef við lækkum aldur og sendum fleiri á víglínuna þá verður mannfall enn meira. Þessi ungmenni sem kunna að verða dregin inn í herinn munu bara falla. Þegar herinn skortir skotfæri og stórskotalið er ekki hægt að verja þá sem eru í fremstu víglínu. Hið sama á við um brynvarin ökutæki, þau bjarga mannslífum og okkur skortir þessi tæki,“ segir hún í samtali við Deutsche Welle.

Snemma í desember sl. bjuggust sérfræðingar í varnarmálum við því að gangur stríðsins myndi falla vegna veðurs, en það reyndist ekki raunin. Rússar hafa haldið uppi miklum þrýstingi og tekist að sækja fram á ákveðnum svæðum í austri.

Höf.: Kristján H. Johannessen