Bjarni Hafsteinn Geirson fæddist 15. mars 1944. Hann lést 31. desember 2024.
Útför fór fram 17. janúar 2025.
Þau sorglegu tíðindi bárust á gamlársdag að góður starfsmaður Hauka til áratuga, Bjarni Hafsteinn Geirsson, hefði látist þá um nóttina eftir skammvinn veikindi. Haddi Geirs, eins og hann var ævinlega kallaður, markaði djúp spor í sögu okkar Haukanna. Hann var á unga aldri góður handknattleiksmaður, sat um tíma í stjórn Knattspyrnufélagsins Hauka og gegndi þar lengi starfi gjaldkera og síðar sem framkvæmdastjóri aðalstjórnar félagsins. Þá var hann um tíma formaður handknattleiksdeildar Hauka.
Haddi kom að uppbyggingu félagsins um áratugaskeið, bæði sem starfsmaður og ekki síður var hann metnaðarfullur um framgang alls félagsstarfs innan Hauka.
Haddi Geirs var öllum kunnur sem komu að leik og starfi hjá Knattspyrnufélaginu Haukum og velgengni og væntumþykja hans í garð félagsins og félagsmanna var nær takmarkalaus. Þá sat hann í framkvæmda- og byggingarnefndum félagsins og lagði þar gott til og sem gjaldkeri félagsins var hann aðhaldssamur og gætinn. Ég átti því láni að fagna að verða samstarfsmaður Hadda frá árinu 2011 og það var ómetanlegt að geta leitað til hans um góð ráð og annað sem tengdist sögu Haukanna og umgjörð allri.
Haddi var sögumaður góður, mjög bókhneigður, unnandi íslenskrar náttúru og veiðiferðir með góðum vinum glöddu hann mjög. Oft var það svo þegar Haddi kom til vinnu að við tókum spjall saman um menn og málefni og ekki síður ræddum við um nýjustu bókatíðindi. Á skrifborðinu hans Hadda var ævinlega mikið af pappírum, enda mikill grúskari, en það brást heldur ekki að við borðsendann var rauði ópalpakkinn, sem stóð mér ævinlega til boða. Haddi kom sér vel meðal starfsfólksins, var oft spaugsamur og var umhugað um að allt gengi sem best. Starfsfólk Hauka saknar góðs vinnufélaga og vinar og Haukafélagar minnast hans sem Hadda Geirs sem var nánast sammerking við Hauka í nútíð og þátíð.
Ég á eftir að sakna vinar míns, umræðna um byggingarframkvæmdir á íþróttasvæði félagsins, gengi Haukanna í íþróttum, um bókmenntir, veiði og pólitík, og allra okkar góðu samverustunda.
Knattspyrnufélagið Haukar minnist góðs vinar og félaga og vottar fjölskyldu og aðstandendum Bjarna Hafsteins innilega samúð. Hans verður sárt saknað hér á Ásvöllum. Minning um Hadda Geirs mun lifa í hjörtum okkar Haukafólks um ókomin ár.
Magnús Gunnarsson,
formaður Knattspyrnufélagsins Hauka.
Einstakur félagsmaður Hauka er fallinn frá eftir ævilangt starf í þágu félagsins. Haukafjölskyldan okkar kveður kæran félaga sem ávallt reyndist okkur vel. Við höfum átt gefandi og notaleg samskipti til áratuga við Hadda Geirs á ýmsum vettvangi Haukastarfsins. Með þessari stuttu kveðju viljum við þakka honum fyrir góð kynni. Haddi var hjartað og sálin í Haukum, sem auk daglegra starfa hlúði vel að sögu Hauka, og ekki síst var aðdáunarvert hvernig hann hélt utan um elstu félagana og gætti þess að þeirra afreka væri minnst á góðum stundum.
Vegferðin er undarleg
ég sannleikskorn á vegginn fæ
frá þér
þau koma bæði létt og alvarleg
sem betur fer þá ýtir þú við mér
(Halldór Gunnar Pálsson,
Magnús Þór Sigmundsson)
Kveðja,
Sigríður, Björn,
Kristján Ómar og Svava.