Símon Ingi Kjærnested fæddist 18. febrúar. Hann lést 9. janúar 2025.
Útförin fór fram 16. janúar 2025.
Í minningu minni var alltaf sól og sumar á Þorfinnsgötu 8 og börn að ærslast í garðinum. Á slíkum dögum voru systurnar, mamma og Magga, oftar en ekki saman úti undir húsveggnum í sólbaði og við börnin fáklædd í leik á teppinu í kringum þær. Þessir dagar voru endalausir og tíminn virtist standa í stað.
Afi hafði byggt húsið í kreppunni á fjórða áratugnum. Þá var hann vörubílstjóri og tókst með fádæma dugnaði og vinnuskiptum að koma upp þessu þriggja hæða hús með risi og kjallara. Þegar ég man fyrst eftir mér bjuggu þrjú ömmusystkini mín í risinu; afi og amma á 3. hæð, auk Dodda tvíburabróður mömmu; á miðhæð bjuggum við, mamma og pabbi með þrjú börn, en einnig Gissi frændi, með sína konu og þrjú börn; á fyrstu hæð voru svo Magga frænka og Daddi með sín þrjú börn. Að auki voru leigjendur í kjallaraherbergi.
Fyrstu barnabörn afa og ömmu fæddust í húsinu 1945. Á næstu árum fjölgaði börnunum hratt með tilheyrandi glaðværð, hlátrasköllum og endalausum ærslum. Allt húsið stóð börnunum opið og var vettvangur leikja okkar. En húsið var meira en leikvangur, það veitti bernsku okkar ómetanlega umgjörð öryggis og umhyggju stórfjölskyldunnar.
Nú saxast á barnahópinn, frændsystkinin á Þorfinnsgötu 8. Símon Ingi, elsta barnabarn afa og ömmu, er fallinn frá. Tæpum fjórum árum eldri var hann ekki leikfélagi minn, eins og Örn bróðir hans og jafnaldri. Hann var mér fyrirmynd. Sem drengur var Símon fríður og bjartur yfirlitum, vöðvastæltur og ávallt með bros á vör og hnyttni í tilsvörum. Símon var ungur áhugasamur um smíðar og vélar og alltaf tilbúinn að leiðbeina og hjálpa mér við það sem ég var að bisa við.
Ég var frá sjö ára aldri í sveit í Borgarfirði hjá vinafólki afa og ömmu sem bjuggu góðu búi í Flókadal. Eitt sumarið var Símon líka í sveit á sama bæ, sennilega 14 ára þá, og deildum við herbergi. Símon gekk til allra verka enda lék allt í höndum þessa verklagna drengs. Hann sinnti hrossunum, fór í leitir, keyrði traktorinn og fékk að taka aðeins í rússajeppann. Mikið leit ég upp til hans. Um haustið fékk hann nokkrar kanínur á Kleppjárnsreykjum sem hann hélt svo í bakgarðinum á Þorfinnsgötunni.
Leiðtogahæfileikar Símonar komu síðar fram í því að hann var kjörinn formaður skólafélags Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Ég minnist harðrar kosningabaráttu þar sem Símon var m.a. gagnrýndur fyrir að vera kandídat „sjoppuliðsins“. Á þeim tíma keyrði hann um á skellinöðru, gekk í leðurjakka og var með brilljantín í hári. Árið eftir fór Símon sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Þegar hann kom aftur var hann orðinn fullorðinn. Hann átti kærustu og stefndi nú að því að verða endurskoðandi en ekki húsasmiður.
Þegar ég komst á aldur fylgdi ég í fótspor Símonar og fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Ég minnist þess þó ekki að hafa komið til baka sem fullorðinn maður.
Ég minnist Símonar með djúpu þakklæti og virðingu. Uppeldið á Þorfinnsgötunni varð honum sem okkur hinum krökkunum gott veganesti. Ellu og fjölskyldu hans færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Halldór Kr. Júlíusson.
Elskulegur bróðir minn Símon er látinn. Símon var 15 árum eldri en ég og hefur verið hluti af mínu lífi alla ævi.
Þegar ég var 2-3 ára var hann skiptinemi í Ameríku og við heimkomu gaf hann mér bangsa sem ég nefndi Símon og á ég þennan bangsa ennþá og passa vel upp á hann. Ég var aðeins 6 ára þegar hann flutti að heiman og þá bættist Ella í fjölskylduna og svo synirnir þrír, Guðmundur, Stefán og Brynjar.
Ég var svo heppin að fá að passa strákana við ýmis tilefni og þótti mér það alltaf skemmtilegt og ekki var verra að fá smá vasapening að launum og keyra svo heim á fína bílnum hans.
Símon var mikið snyrtimenni og báru eldhúsið og bílskúrinn heima hjá honum þess merki og einnig báturinn hans.
Á seinni árum höfum við hist reglulega í Sundlaug Garðabæjar sem við stunduðum bæði okkur til heilsubótar. Símon var elsti bróðir minn og var gott að vita af honum.
Hvíl í friði kæri bróðir.
Margrét H. Kjærnested.
Minn kæri æskuvinur, Símon I. Kjærnested endurskoðandi, er fallinn frá eftir skammvinn veikindi.
Það var haustið 1952 og kennsla að hefjast í skólum landsins að tveir sjö ára strákar í fylgd mæðra sinna hittust í fyrsta sinn í Austurbæjarskóla til að byrja skólagönguna. Forlögin höguðu því þannig að þeir urðu bekkjarbræður og sessunautar. Þarna hófst ævilöng traust og góð vinátta sem aldrei hefur borið skugga á.
Símon bjó í húsi stórfjölskyldunnar við Þorfinnsgötu og varð heimili hans brátt að mínu öðru heimili þessi árin, en ég kom þar reglulega við á leið í og úr skóla úr efri Hlíðunum og dvaldi oft lengi.
Það var margt sýslað á þessum árum og urðum við um tíma dúfnabændur og sýndu íbúarnir á Þorfinnsgötunni mikið umburðarlyndi með því að leyfa okkur að smíða dúfnakofa á baklóð hússins. Símon var yfirsmiðurinn og sýndi þá þegar góða hæfileika sína á því sviði og verklagni yfirleitt.
Gamla skátaheimilið við Snorrabraut var steinsnar frá Þorfinnsgötunni og gengum við í skátana, en þar var aðsetur Landnema, okkar skátafélags. Dvöldum við löngum stundum þar og fórum auk þess oft í útilegur, í tjald og skátaskála, og sá okkar skátaflokkur um tíma um gamla Lækjarbotnaskálann. Símon fór einnig í sveit á þessum árum, bæði austur á Hérað og í Borgarfjörðinn. Síðar fór hann til sjós á varðskipum Landhelgisgæslunnar. Þessi reynsla mótaði Símon. Hann var ávallt vinnusamur, skipulagður og snyrtimenni í hvívetna.
Minn góði vinur kom mér og líklega fleirum því talsvert á óvart þegar hann ákvað að fara í Verzlunarskólann og eftir próf þaðan að fara í nám í endurskoðun og fá löggildingu sem slíkur og gera að sínu ævistarfi. Ég var búinn að sjá fyrir mér að hann opnaði smíðaverkstæði eða gerðist skipstjórnarmaður. En Símon var góður og farsæll endurskoðandi, glöggur og áreiðanlegur.
Árið 1962 fór Símon sem skiptinemi til Bandaríkjanna og var það mikið örlaga- og gæfuspor fyrir hann því þá kynntist hann Ellu sem einnig var skiptinemi. Úr þeim kynnum spratt ást sem hefur blómstrað allar götur síðan og hann ávarpaði Ellu sína jafnan með orðinu „engill“. Símon var alla tíð mikill fjölskyldumaður og þau eignuðust þrjá dugmikla syni sem standa nú þétt við hlið mömmu sinnar.
Siglingabakterían festi sig í sessi hjá Símoni og urðu siglingar hans ævisport sem hann stundaði mikið með sonunum. Hann var einnig áhugasamur um stangveiði og var gott að deila stöng með honum því þar réð eljusemi og ástundun ríkjum.
Það er margs að minnast eftir rúmlega sjötíu ára óbrigðula vináttu. Ungdómsárin, skátastarfið, skíðaferðir í Alpana, ferðir til sólarlanda, Króatíuferð, veiðiferðir í Norðurá, Svartá og víðar, bridskvöld með vinunum, herrakvöld hjá Nirði, nýársböllin og fleira. Þessar minningar verða varðveittar um ókomna tíð.
Minn góði vinur er „farinn heim“. Ég þakka honum fyrir allt og allt og forsjóninni fyrir að hafa eignast hann að vini.
Við Stína og fjölskyldan sendum Ellu og fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur.
Ólafur G. Gústafsson.
Það fór ekki mikið fyrir Símoni Kjærnested en þeir sem hann elskuðu vissu alltaf að hann stæði þétt við bakið á þeim, sama hvað myndi dynja á.
Ég kynntist Símoni í gegnum son hans, Brynjar Kjærnested, sem er einn af mínum bestu vinum. Við Brynjar höfum verið kærir vinir í um þrjá áratugi og í gegnum okkar vinskap kynntist ég fjölskyldu Brynjars, þar á meðal Símoni.
Símon starfaði lengst af sem löggiltur endurskoðandi og var virtur í starfi sínu fyrir nákvæmni, fagmennsku og traust. Hann var hæglátur maður, sem reyndi ekki að vekja á sér athygli ef hjá því væri komist. Þeir sem þekktu Símon þekktu hann þó fyrst og fremst fyrir að vera bæði viðræðugóður og hlýr. Hann passaði alltaf vel upp á sína nánustu, bæði fjölskyldu og vini, og var traustur bakhjarl í lífi þeirra sem honum voru kærir.
Símon var einstaklega góður afi og átti jafnframt hlý og kær tengsl við syni sína þrjá. Samskipti Símonar og Brynjars voru í senn náin og falleg allt fram til síðasta dags.
Símon lætur eftir sig eiginkonu sína, Ellu, sem hann átti langa og hamingjusama samleið með.
Með Símoni er genginn maður sem hafði djúp áhrif á þá sem honum kynntust, ekki með háværum orðum eða látum, heldur með yfirvegun, hlýju og tryggð. Hans verður sárt saknað.
Elsku Ella, Brynjar og fjölskylda, ég votta ykkur innilega samúð mína.
Ómar R. Valdimarsson.
Kær vinur og samstarfsfélagi til margra ára er fallinn frá eftir skammvinn veikindi en minningin lifir um góðan mann. Símoni kynntist ég þegar hann réð mig sem aðstoðarfjármálastjóra, hjá þá tiltölulega nýstofnuðu félagi Atlantsolíu, fyrir tæpum átján árum. Sjálfur var Símon þá fjármálastjóri félagsins og í eigendahópi. Ég var nýkomin úr námi erlendis og þekkti lítið sem ekkert til þessa nýja olíufélags, sem ætlaði sér stóra hluti á íslenskum markaði. Ég ákvað að slá til þegar Símon hringdi í mig og bauð mér starfið. Ein af aðalástæðunum var að ég hafði góða tilfinningu fyrir þessum tilvonandi yfirmanni mínum. Ég hugsaði að þarna færi maður með mikla reynslu, endurskoðandi sem ég gæti lært mikið af.
Við Símon unnum saman þar til hann fór á eftirlaun fyrir tæpum sex árum og bar aldrei skugga á það samstarf. Símon starfaði sem fjármálastjóri félagsins frá upphafi þess, ásamt því að sitja í stjórn félagsins. Hann var ávallt virkur í félagsstörfum, bæði með Lions og Frímúrurum. Hann var mikill útivistarmaður, stundaði skíði, veiði og siglingar af miklum krafti langt fram eftir aldri. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Símon.
En Símon var svo miklu meira en samstarfsmaður og hann kenndi mér mun meira en það sem fellur undir fræði reikningsskila og endurskoðunar. Símoni var ávallt mjög umhugað um fólk, fólkið sitt og fólkið okkar hjá Atlantsolíu. Það skipti hann miklu máli að fólki liði vel, væri sátt, og hann hafði skilning á misjöfnum aðstæðum fólks. Hann stóð ávallt með fólkinu, lét það njóta sannmælis.
Símon stóð alla tíð við bakið á mér, hvatti mig áfram og studdi þegar á þurfti að halda. Ég veit að hann var hvatamaður að því að mér var boðin staða framkvæmdastjóra tæpum tveimur árum eftir að ég hóf störf hjá félaginu. Þá fór hann úr því að vera næsti yfirmaður minn í það að vera undirmaður minn. Þó svo að Símon væri af annarri kynslóð en ég átti hann ekki í neinum vandræðum með þessi hlutverkaskipti. Áfram var hann helsti stuðningsmaður minn, hvatti mig áfram og hlustaði þegar ég þurfti á að halda.
Símon hitti ég síðast um miðjan desember. Hann kom við á skrifstofunni hjá mér eins og hann gerði stundum eftir að hann fór á eftirlaun og þar áttum við gott spjall eins og svo oft áður. Hann spurði að venju hvernig reksturinn gengi og hvernig fólkið hefði það. Hvort ekki væri allt gott af því að frétta. Umhyggja hans fyrir fólkinu breyttist ekkert þó að hann væri hættur störfum. Mér þykir mjög vænt um að hafa náð að hitta hann þarna, en grunaði ekki að það yrði okkar síðasta spjall. Ég minnist Símonar með hlýju og væntumþykju og verð honum ævinlega þakklát fyrir þann stuðning sem hann veitti mér og fyrir vináttu okkar í gegnum árin.
Elsku Ella, Gummi, Stebbi, Brynjar og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Guðrún.
Lionsklúbburinn Njörður kveður nú einn af sínum elstu og tryggustu félögum, Símon Kjærnested. Það gerum við í þökk og með kærleika fyrir hans ötula og gefandi starf fyrir klúbbinn og markmið hans. Hann kom með sterkan vinahóp á okkar árlegu fjáröflun, herrakvöld Njarðar. Fjáröflunarsamkomu sem reynst hefur ein glæsilegasta, skemmtilegasta og árangursríkasta í sinni röð í 60 ár. Þar hafa félagar Njarðar og gestir gert klúbbnum kleift að styrkja íslenskt heilbrigðiskerfi og hjálparstofnanir um nauðsynleg tæki og tól til bjargar sjúkum og koma slösuðum til bata.
Þannig hefur Njörður m.a. fært endurhæfingardeildinni á Grensási stóran hluta þess búnaðar og tækja sem þar eru notuð, einnig hjartadeild LSH, þvagfæradeild LSH, að ógleymdum búnaði fyrir Hrafnistu, til hagsbóta fyrir starfsfólk ekki síður en sjúklinga. Á síðasta ári studdi klúbburinn mjög myndarlega við Ljósið og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands með þátttöku frá alþjóðahjálparsjóði Lions.
Hvers vegna í ósköpunum á þetta tal heima í minningargrein um fallin vin og bróður!
Jú, fyrir forvitna viljum við taka fram að ástkær fjölskyldufaðir og eiginmaður, vinsæll afi, ötull endurskoðandi og stofnandi öflugs olíusölufélags hafði mun fleiri rósir í sínu hnappagati en margir vita, t.a.m. allt starf hans i okkar ástsæla Lionsklúbbi. Þar er hans ekki síður saknað en hjá fjölskyldu hans og afkomendum, sem eiga um sárt að binda en geta vissulega glaðst yfir þeim góðu verkum sem hann vann með Nirði.
Á síðasta ári mælti hann með að Stefán sonur hans gengi í Njörð. Hann hefur þegar reynst öflugur félagi og til þess líklegur að fylgja fordæmi föður síns með miklum sóma.
Við minnumst Símonar með hlýhug og söknuði. Hann gerðist félagi i Nirði árið 1975 og átti því 50 ára starf að baki í klúbbnum. Hann var kosinn formaður 1988-1989 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir klúbbinn, m.a. í herrakvöldsnefnd. Sú nefnd stendur einmitt fyrir góðgerðarkvöldverði á herrakvöldi daginn eftir útförina. Það er víst að Símonar verður minnst af vinsemd og virðingu á því kvöldi og ættingjar hans hafa þegar lagt drjúgan skerf í styrktarsjóð Njarðar til minningar um hann.
Við vottum eiginkonu og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð við andlát Símonar. Að auki horfi ég (AH) líka á eftir góðum skólabróður úr Verslunarskóla Íslands.
Fyrir hönd allra félaga í Lionsklúbbnum Nirði, blessuð sé minning Símonar Kjærnested.
Arnar Hauksson,
Daníel Þórarinsson, Hörður Sigurjónsson.