Útboð NTD og Jarðboranir voru einu borunarfyrirtækin sem tóku þátt í útboði Orkuveitunnar í apríl sl. um að bora allt að 35 jarðhitaholur.
Útboð NTD og Jarðboranir voru einu borunarfyrirtækin sem tóku þátt í útboði Orkuveitunnar í apríl sl. um að bora allt að 35 jarðhitaholur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Geir Hagalínsson, stofnandi og framkvæmdastjóri borfyrirtækisins North Tech Drilling (NTD), segir það hafa komið sér á óvart hversu mikill munur var á þeirra tilboði og Jarðborana í útboði Orkuveitunnar (OR) um að bora allt að 35 jarðhitaholur

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Geir Hagalínsson, stofnandi og framkvæmdastjóri borfyrirtækisins North Tech Drilling (NTD), segir það hafa komið sér á óvart hversu mikill munur var á þeirra tilboði og Jarðborana í útboði Orkuveitunnar (OR) um að bora allt að 35 jarðhitaholur.

Í lok síðasta árs samþykkti OR 4,6 milljarða króna tilboð NTD en Jarðboranir buðu 9,7 milljarða í verkið. Fyrirtækin voru þau einu sem tóku þátt í útboðinu, sem fór fram í ágúst sl.

Geir segir í samtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir þennan mun hafi tilboð NTD ekki verið ýkja langt frá kostnaðaráætlun.

„Okkar tilboð var bara rúmum milljarði undir kostnaðaráætlun OR, en við erum fimm milljörðum lægri en Jarðboranir,“ segir Geir.

Geir telur aðspurður að þessi mikli munur sýni berlega fram á að einokun hafi ríkt á íslenskum borunarmarkaði síðustu ár.

„Hér hefur enginn komist inn á markaðinn. Ég get bent á til dæmis útboð Orkuveitunnar 2018 og Þeistareyki þar á undan. Það voru fleiri aðilar sem buðu í en alltaf fengu Jarðboranir öll verkefni. Þegar þetta er orðið þannig að menn sjá ekki fram á að koma með tækin hingað til lands af því að þeir fá ekki nein almennileg verkefni, þá er engin samkeppni,“ útskýrir Geir.

Að mati Geirs sýnir þessi munur fram á hvað boranir á jarðhitaholum hafi reynst orkufyrirtækjum kostnaðarsamar í gegnum tíðina.

„Þetta er einmitt það sem orkufyrirtækin hafa verið að kvarta undan undanfarin ár – hvað kostnaðurinn er orðinn skuggalegur við boranir á jarðhitaholum. Fyrir okkur er þetta augljóst mál að menn setja bara einhvern verðmiða og fá svo öll þessi verkefni,“ segir Geir að lokum.