Timothée Chalamet fékk góðan tíma til að búa sig undir hlutverkið.
Timothée Chalamet fékk góðan tíma til að búa sig undir hlutverkið. — AFP/Alberto E. Rodriguez
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig leikur maður goðsögn? Hvernig leikur maður goðsögn sem enn er á lífi og flestir jarðarbúar þekkja og hafa skoðun á? Frammi fyrir þessum spurningum stóð bandaríski leikarinn Timothée Chalamet meðan hann bjó sig undir hlutverk söngvaskáldsins…

Hvernig leikur maður goðsögn? Hvernig leikur maður goðsögn sem enn er á lífi og flestir jarðarbúar þekkja og hafa skoðun á? Frammi fyrir þessum spurningum stóð bandaríski leikarinn Timothée Chalamet meðan hann bjó sig undir hlutverk söngvaskáldsins og nóbelsverðlaunahafans Bobs Dylans í kvikmyndinni A Complete Unknown.

„Leið mín inn var tónlistin,“ sagði hann í viðtali við útvarpsstöðina NPR. „Ég elska tónlist þessa manns. Þetta eru söngvar lífsins. Hann er einn merkasti bandaríski listamaður okkar tíma.“

Þegar hann tók verkefnið að sér bjóst Chalamet aðeins við að hafa fjóra mánuði til að búa sig undir hlutverkið. Þá skall á heimsfaraldur kórónuveirunnar og fjórir mánuðir urðu að fimm árum. Spurður hversu mikill léttir það hafi verið að fá þennan aukatíma „með“ Dylan, að hugsa um hann, stúdera hann og þykjast vera hann svaraði Chalamet:

„Tja, léttirinn jókst í réttu hlutfalli við allt sem ég lærði á þessum langa tíma. Fyrst hélt ég að ég myndi fá að leika Bob án þess að vera meðlimur í kirkjunni hans í þeim skilningi að ég var ekki einn af þessum risaaðdáendum hans, ennþá. Síðan varð þetta að fimm ára ferli, þar sem mér líður eins og ég hafi snúið við hverjum einasta steini sem á vegi mínum varð.“

Spurður hvað hafi verið erfiðast, að syngja, tala eða spila á gítar eða munnhörpu eins og Dylan eða hreyfa sig og ganga eins og hann svaraði Chalamet því til að hann hefði ekki lagt áherslu á eitt öðru fremur, heldur reynt að tileinka sér öll karaktereinkennin jöfnum höndum. „Eins og ég segi, ég sneri við hverjum steini og gerði allt sem þurfti, með hliðsjón af líkamsbeitingu hans og hegðun.“

Þar með talið að þyngja sig um níu kíló. „Hvort sem þið trúið því eður ei, þá var ég grennri en gaurinn sjálfur.“

Líklega ekki margir sem geta státað af því.

Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar, James Mangold, átti líka aðild að samtalinu og var spurður að því hvort ekki væri erfitt að nálgast jafn fræga persónu og Bob Dylan.

„Maður reynir að losa sig undan sjónarhorni almennings. Ekki vegna þess að það sé rétt eða rangt. Maðurinn hefur sent frá sér 55 plötur og túrað heiminn í 60 ár, þannig að hann er ekki beinlínis Howard Hughes. Hann hefur fært okkur bækur, ljóð, kvikmyndahandrit, kvikmyndir, sjálfsævisögur, jólaplötur. Nefndu það bara, hann hefur gert það. Samt viljum við alltaf meira.“

Mangold lagði áherslu á að Chalamet syngi sjálfur í myndinni, rétt eins og hann fór fram á við Joaquin Phoenix og Reese Witherspoon, sem léku Johnny Cash og June Carter Cash í Walk the Line. Hann segir Chalamet, líkt og hin tvö á undan honum, hafa tekið því vel.

„Að sjálfsögðu er það yfirþyrmandi. En maður vill að leikarinn hafi fullt vald á hlutverki sínu og að tónlistin sé ekki á einhvern hátt svikin, það er að hún sé af bandi, að ekki sé talað um þá fráleitu hugmynd að rödd Bobs Dylans komi úr munni Timmys. Það yrði mjög skrýtið. Þess utan erum við fyrst og fremst að gera mynd um þjóðlagatónlist og hvað er hún ef ekki einlæg og sönn, hrein og bein, sterk og heiðarleg? Þannig að þetta er ekkert sérstakt hugrekki af minni hálfu, bara heilbrigð skynsemi.“

Málmgrýtið í röddinni

Sjálfur virðist Dylan ekki hafa miklar áhyggjur, ef marka má færslu hans á samskiptamiðlinum X fyrir skemmstu. „Timmy er frábær leikari og ég er ekki í vafa um að hann eigi eftir að verða trúverðugur sem ég eða yngri ég eða einhver annar ég.“

Chalamet þykir vænt um þessa færslu, enda sé hún mjög í anda Dylans. „Þetta var í raun aldrei nein ákvörðun. Ég tek undir með Jim [Mangold], hann orðaði þetta svo vel. Þetta er kvikmynd um þjóðlagatónlist og þjóðlagatónlistarmenn. Maður verður að finna fyrir trúverðugleikanum. Það má alls ekki útvatna þessa tónlist og mýkja hana upp þar sem hún er hrá. Bob Dylan fékk mjög slæma berkjubólgu þegar hann var rúmlega tvítugur sem hafði áhrif á það að rödd hans hljómar eins og hún gerir. Maður heyrir málmgrýtið í henni og „North Country-blúsinn“ þegar hann tekur til máls. Ekkert af þessu mátti missa sín.“

Fram kom í viðtalinu að Chalamet hefði hvorki talað við né hitt Dylan sjálfan. Og enginn fundur var skipulagður meðan á vinnslu myndarinnar stóð. Ekki stóð á leikaranum en hann kveðst ekki hafa viljað vera tilætlunarsamur, til þess sé virðingin fyrir Dylan of mikil.

„En ég sá hann tvisvar á tónleikum og það var mjög gagnlegt. Það var ótrúlega fróðlegt að drekka í sig orkuna frá honum úr fjarlægð. Hitti ég hann einhvern tíma mun ég þakka fyrir mig. Ekki fyrir hlutverkið eða tækifærið, heldur fyrir allt sem hann hefur fært okkur.“

Mangold hitti Dylan hins vegar í nokkur skipti vegna myndarinnar og segir þá fundi hafa verið ánægjulega; til að mynda hafi þeir varið saman hálfum degi á kaffihúsi meðan útgöngubann ríkti í heimsfaraldrinum. „Mér fannst strax þegar við settumst niður og hann sá handritið að hann skynjaði að áform okkar væru hrein og tær. Ég held að hann hafi áttað sig á því að ekki stæði til að mála skrattann á vegginn, að við ætluðum okkur bara að horfa hlutlægt á allt og leyfa því að spilast.“

A Complete Unknown kemur í kvikmyndahús hérlendis á fimmtudaginn.

Báðir frá New York

Timothée Chalamet er 29 ára gamall. Hann ólst upp í New York og á bandaríska móður og franskan föður. Hann vakti fyrst athygli árið 2012 fyrir leik sinn í sjónvarpsmyndaflokknum Homeland en á að baki kvikmyndir á borð við Call Me by Your Name, Beautiful Boy, Dune og Wonka. Hann er í sambandi með bandarísku samfélagsmiðlastjörnunni Kylie Jenner.

James Mangold er 61 árs, fæddur í New York. Hann er þekktur fyrir fjölhæfni sína og hefur leikstýrt kvikmyndum á borð við Cop Land, Girl, Interrupted, Identity, Walk the Line og 3:10 to Yuma. Mangold er einnig afkastamikill handritshöfundur og hefur framleitt kvikmyndir.