Þrennir tónleikar sem breska pönkbandið goðsagnakennda Sex Pistols hélt í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1978 koma á næstunni út á jafnmörgum vínylplötum og í framhaldinu verður hægt að kaupa geislaplötusett og hlaða efninu niður á streymisveitum.
Við erum að tala um tónleika í Atlanta, Dallas og í Winterlands Ballroom í San Francisco, þar sem Johnny Rotten söngvari leysti bandið upp frammi fyrir tónleikagestum. Það var líka þar sem hin frægu ummæli „líður ykkur stundum eins og að þið hafið verið svikin?“ féllu. Fyrir tónleikana í Dallas birti útvarpsstöð þessa auglýsingu: „Sagt er að enginn geti verið skrýtnari en Alice Cooper eða stundað meira niðurrif en Kiss. Þeir menn hafa ekki séð The Sex Pistols.“
Atlanta-tónleikarnir koma út í lok febrúar, Dallas-tónleikarnir í lok mars og San Francisco-giggið í lok apríl.