Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk um að hækka húsið Grensásveg 24 um eina hæð. Áformað er að reka gistiheimili á efri hæðum hússins en atvinnustarfsemi verði á jarðhæð.
Húsið á Grensásvegi 24 er tvílyft hús, byggt árið 1954 samkvæmt fasteignaskrá. Það er áfast húsunum á Grensásvegi 22 og Grensásvegi 26 sem eru þrílyft steypt hús og byggð sama ár. Eftir stækkun verða því öll þrjú húsin jafnhá.
Húsin standa á mótum Miklubrautar og Grensásvegar og eru áberandi í borgarlandslaginu. Í þessum þremur húsum hefur margvísleg starfsemi verið rekin í gegnum árin. Í miðjuhúsinu er í dag skráð gistiheimilið Guesthouse Summerday.
Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að Grensásvegur 24 er skilgreindur nærþjónustukjarni, Grensásvegur (suður) við Miklubraut, og stendur við aðalgötu.
Við aðalgötur og í nærþjónustukjörnum gildi rýmri heimildir landnotkunar. Ekki er heimilt að breyta eldra verslunar- og þjónustuhúsnæði á jarðhæð í gististað.
Það er niðurstaða skipulagsfulltrúa að ekki eru gerðar skipulagslegar athugasemdir við hækkun hússins á Grensásvegi 24 sem og að klæða bæði Grensásveg 24 og Grensásveg 26 að utan með áli.
Þá eru ekki gerðar athugasemdir vegna reksturs gistiheimilis með gistiaðstöðu fyrir 42 gesti á efri hæðum hússins.
Grenndarkynna þarf byggingarleyfi þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi. sisi@mbl.is