Birna Guðríður Jensdóttir fæddist í Þorlákshöfn 11. október 1955. Hún lést á heimili sínu 11. janúar 2025.
Foreldrar Birnu voru Marta Bára Bjarnadóttir, f. 4.12. 1933, d. 25.5. 2020, og Jens Þórarinn Karlsson vélstjóri, f. 14.9. 1925, d. 23.5. 1988. Systkini Birnu: Þórunn, Bjarni, Hafdís, Sesselja, d. 1968, Guðmundur, Ásta, Anna, Jenný, Rafnar og Silja.
Birna var í sambúð í 25 ár með Guðmundi Þorgeiri Eggertssyni, f. 23.2. 1957, og eignuðust þau fimm börn: 1) Valgeir Jens, f. 17.5. 1976, maki Sigrún Björg. Börn: Emilía Rós, Snæbjörn Valur, Magndís Hugrún, Rafn Úlfur. 2) Hólmfríður Harpa, f. 26.4. 1986. Barn: Matín Guðmundur. 3) Svavar Karl, f. 3.8. 1989. 4) Þórarinn Rafn, f. 9.4. 1991, maki Anna Lovísa. Börn: Kristinn Örn, Katla Lovísa. 5) Marta Bára, f. 26.9. 1992, maki Kjartan. Börn: Matthias Hans, Elliott Daniel.
Birna var fædd og uppalin í Þorlákshöfn á B-götu 2. Hún var annað barnið sem fæddist í Þorlákshöfn. Birna útskrifaðist úr Húsmæðraskólanum á Laugarvatni 1973. Hún byrjaði snemma að vinna í fiski og var alla tíð ósérhlífin til vinnu. Hún starfaði við margvísleg störf í gegnum tíðina. Í tuttugu ár starfaði hún við ræstingar hjá Reykjavíkurborg við ýmsa skóla, síðustu tíu árin hjá Réttarholtsskóla.
Birna var mikið viðloðandi tónlist. Hún var meðlimur í Kór Langholtskirkju. Hún spilaði á gítar og var stjórnandi á samsöng á mannamótum og þótti ómissandi í kringum réttir í rúm 50 ár.
Síðustu 32 ár ævi sinnar bjó hún í Rauðhömrum 5.
Útför Birnu fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 18. janúar 2025, kl. 13.
Móðir mín Birna Guðríður er þá farin yfir í sumarlandið. Það eru erfið orð að skrifa. Ég hafði hana lengi vel einn og var fordekraður fyrir vikið. Mikill mömmustrákur en svo var ákveðið að skella í systkini og það dugði ekki að bæta einu við, þau þurftu að verða fjögur. Þar er mömmu rétt lýst. Ef það á að gera eitthvað þá er eins gott að gera það almennilega. Hún var af þeirri kynslóð þar sem dugnaður var mesta dyggðin. Hún var ákaflega ósérhlífin og byrjaði að vinna sex ára í fiski. Vann hörðum höndum alla tíð og ef það var sest niður þá voru teknir upp prjónar.
Um helgar og í frístundum var auk þess alltaf farið eitthvað. Hvort sem það var í heimsókn eða í ferðalög, hvert á land sem er. Alls staðar þekkti hún fólk. Hvort sem það var Vopnafjörður eða Drangsnes. Það mátti gera ráð fyrir því að hvert sem farið var færi verulegur tími í spjall við fólk sem ég átti að þekkja en hafði auðvitað ekki hugmynd um hvert væri. „Veistu ekki hver þetta er? Þetta er frændi þinn.“ Henni var verulega í mun að ná að heilsa öllum og spjalla. Vonandi er það þannig sem fólk hugsar til hennar. Brosandi út að eyrum með sína miklu rödd og smitandi hlátur. „Nei, hæ!“ Þannig ætla ég að minnast hennar.
Valgeir Jens Guðmundsson.
Elsku besta Birna mín.
Mig tekur sárt að setjast hér niður og setja nokkur orð á blað til að minnast þín. Við höfum átt samleið meira og minna í 60 ár og yfirleitt alltaf verið fjör og skemmtilegheit.
Birna er fædd í Þorlákshöfn 11. október 1955 og er barn númer 2 sem fæðist þar.
Þegar ég flyst til Þorlákshafnar 1963 er Birna 8 ára og ég 6 ára. Íbúar Þorlákshafnar voru ekki margir þá og börnin sem bjuggu í þorpinu léku sér alltaf saman, þá hófust okkar kynni og stóðu alla tíð síðan. Við sem börn bjuggum okkur til ævintýri í litla þorpinu og alltaf nóg að gera hjá okkur alla daga.
Birna og við krakkarnir fórum mjög snemma að hjálpa til við að bjarga verðmætum úr sjó, það þótti sjálfsagt þá og 10 ára gamlar stóðum við á kössum í frystihúsinu til að ná upp á vinnuborðið, þá vorum við að slíta humar og fengum útborgaða peninga í umslagi, það voru stoltar litlar stelpur sem röltu niður stóru brekku með umslagið í hendinni og töldu fúlguna sem þar var, ég er ekki frá því að í huga okkar höfum við elst um mörg ár við það.
Árin liðu og alltaf héldum við hópinn, sumar fluttu frá Þorlákshöfn og við Birna gerðum það. Birna eignaðist fimm börn og kom þeim öllum til manns að mestu ein. Hún Birna var ofurhetja að mínu mati og margra annarra. Lífið var henni oft erfitt en hún gafst aldrei upp enda fyrir fimm börnum að sjá, hún kenndi börnum sínum að fara vel með og eyða ekki um efni fram enda hefði henni aldrei dottið í hug að gera það sjálfri.
Birna bjó í Rauðhömrum í Grafarvogi í stórri íbúð þar sem fór vel um hana og börnin.
Birna var flinkur gítarleikari og spilaði á tólf strengja gítar og elskaði að taka lagið með okkur kerlunum og eins og hún sagði, spila lögin okkar. Árlega fórum við í bústað allar saman yfir helgi og þá var spilað og sungið og mikið talað og rifjaðar upp gamlar gleðistundir.
Við Birna sungum um tíma saman í Húnakórnum og höfðum gaman af.
Við Birna fórum saman í viku til Seattle í mikla reisu, svokallaða viðskiptaferð, og skemmtum okkur vel.
Síðast og alls ekki síst þá var það ferðin okkar í Tungnaréttir á hverju hausti, skemmtilegasta degi ársins. Síðustu 35 ár var Birna alltaf bílstjórinn í réttirnar, fyrstu árin fórum við ríðandi frá Kjarnholtum í réttir og heim aftur. Þá var kjötsúpuveisla í Kjarnholtum og ball í Svínahúsinu og þar sungum við og spiluðum fyrir dansi ásamt fleiri ofurhugum.
Síðan breyttist skipulagið hjá okkur Birnu og eftir réttirnar fórum við á bæina og þöndum raddböndin eins og við gátum með öllum hinum. Þessi dagur ársins var alltaf besti dagurinn okkar Birnu og við hann miðuðum við tímatal okkar, fyrir eða eftir réttir.
Nú er komið að leiðarlokum hjá minni konu, ósérhlífinn dugnaðarforkur og kraftakona sem sagði alltaf já ef óskað var eftir kröftum hennar.
Það var aðdáunarvert að fylgjast með Birnu takast á við veikindi sín með ótrúlegu æðruleysi og mikilli skynsemi og aldrei kvartaði hún.
Takk fyrir samfylgdina, Birna mín, og hafðu þökk fyrir allt.
Guðrún Björg Ketilsdóttir.
Elsku Birna, ein af mínum bestu vinkonum, hefur kvatt þennan heim og er nú komin í sumarlandið. Við vorum vinkonur í 50 ár og margs er að minnast eftir svona langa vináttu. Alltaf var Birna brosandi og hress, sama á hverju gekk. Við brölluðum ýmislegt í gegnum árin, fórum á sveitaböllin með sætaferðum frá Umferðarmiðstöðinni sem þá var og hét. Við fórum 1974 á þjóðhátíð ári eftir gosið og var það sérstakt. Við sungum og spiluðum á gítarana okkar, bæði við tvær og einnig með vinum. Við stofnuðum kvartett og vorum að skemmta á árshátíðum. Eitt sinn settum við upp smá ABBA-sjó á árshátíð og ekki var að spyrja að því; það varð að vera í ABBA-samfestingum skærbleikum úr glansefni og var nú sest við sauma og allt var klárt fyrir umrædda hátíð.
Við hittumst oft og sungum saman og spiluðum á gítarana; Birna átti sex strengja og ég tólf strengja svo stundum var þetta eins og hljómsveit. Eitt haustið skelltum við okkur til Krítar og vorum þar í hálfan mánuð og nutum sólar og sjávar og skoðuðum hina ýmsu staði.
Ég heimsótti hana á spítalann rétt fyrir jólin og þá var hún hin hressasta og við rifjuðum upp okkar vináttu til 50 ára og höfðum báðar gaman af. Ég átti ekki von á að hún kveddi svona fljótt þrátt fyrir sín erfiðu veikindi, ég þakka fyrir að hafa átt þessa stund með henni og yljað okkur við góðar minningar. Takk fyrir allt, brosmilda og lífsglaða vinkona.
Kveð þig með þessu ljóði:
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Hvíl í friði, elsku vinkona.
Ingunn
Sigurðardóttir.
Elsku Birna var stór hluti af okkar öfluga hópi starfsfólks Réttarholtsskóla. Hún skilur eftir sig ótal minningar í huga okkar, kraftmikil, ósérhlífin og hreinskiptin eru orð sem lýsa henni vel og við söknum hennar og hennar einstöku eiginleika.
Á bak við hvern skóla er hópur fólks sem á stóran þátt í að allt gangi upp og það á ekki síður við um þá sem sjá til þess að skólinn sé í sínu besta standi og leggja sig fram alla daga til að mæta þörfum nemenda og annars starfsfólks. Í skóla eins og Réttarholtsskóla er að ansi mörgu að huga, húsnæðið stórt og fjöldi fólks sem stundar þar nám og vinnu. Birna var ein af þeim sem eru svo einlægir í því að þykja vænt um vinnustaðinn sinn. Henni stóð alls ekki á sama um hvernig ástand hans var, vildi hafa röð og reglu á hlutunum, var umhugað um nemendur og samstarfsfólk og gerði svo sannarlega kröfur um að aðrir sinntu sínu til að hafa hlutina í lagi. Við sem þekktum Birnu vitum nákvæmlega hvað hér er átt við.
Birna skilur eftir sig spor í Réttarholtsskóla, spor sem fá okkur hin til að hugsa og læra af. Hún starfaði við skólann í rúma tvo áratugi og lengst af í íþróttahúsi á kvöldin en hún var einstaklega bóngóð og alltaf til í að stökkva í verkefni í skólanum á daginn þegar þurfti. Hún hljóp í afleysingar í mötuneyti, á kaffistofu starfsmanna og göngum skólans hvort sem var um staka daga að ræða eða lengri tímabil. Vinnan var nokkuð sem var ekki að flækjast fyrir Birnu og hún vildi alltaf hafa nóg að gera. Ef það kom róleg stund þá fann Birna sér eitthvað að gera óumbeðin og gekk í hlutina. Síðustu árin í starfi var hún komin í dagvinnu þar sem hennar meginhlutverk var að sjá um kaffistofu starfsmanna og ræstingar. Auk þess tók hún vaktir í íþróttahúsi og eins og við var að búast hélt hún áfram að fara um skólann til að fullvissa sig um að allt væri eins og það ætti að vera og hjálpa til.
Þegar veikindin fóru að gera vart við sig hjá Birnu og þörf var á veikindaleyfi var hennar helsta áhyggjuefni að geta ekki verið í vinnu og um leið og heilsan varð betri um tíma sóttist hún hart eftir því að koma til baka. Sannfærði fjölskyldu, lækni og okkur um að nú gæti hún hafið störf að nýju. Okkur þótti vænt um að fá hana aftur til okkar þótt ekki hafi verið nema í nokkrar dýrmætar vikur. Við erum afar þakklát fyrir Birnu og allt sem hún hefur gert fyrir skólann og skilur eftir sig.
Birna var stór partur af skólasamfélagi Réttarholtsskóla og verður sárt saknað. Við sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur og varðveitum allar okkar góðu minningar um Birnu.
Fyrir hönd starfsfólks Réttarholtsskóla,
Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri.