Íslenskir Þeir Julian Duranona og Jaliesky García komu frá Kúbu og léku báðir með íslenska landsliðinu á stórmótum í handbolta.
Íslenskir Þeir Julian Duranona og Jaliesky García komu frá Kúbu og léku báðir með íslenska landsliðinu á stórmótum í handbolta. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kúba er annar mótherji Íslands á heimsmeistaramóti karla í handknattleik en þjóðirnar mætast í annarri umferð G-riðils í Zagreb í Króatíu í kvöld klukkan 19.30. Kúbumenn fengu skell gegn Slóveníu, 41:19, í fyrsta leiknum á fimmtudaginn og virðast vera með lakasta liðið í riðlinum

HM 2025

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Kúba er annar mótherji Íslands á heimsmeistaramóti karla í handknattleik en þjóðirnar mætast í annarri umferð G-riðils í Zagreb í Króatíu í kvöld klukkan 19.30.

Kúbumenn fengu skell gegn Slóveníu, 41:19, í fyrsta leiknum á fimmtudaginn og virðast vera með lakasta liðið í riðlinum.

Kúba teflir fram ungu liði, líklega því yngsta á þessu heimsmeistaramóti, en flestir leikmanna liðsins spila með evrópskum liðum. Þarna eru m.a. samherjar Þorsteins Leós Gunnarssonar og Orra Freys Þorkelssonar hjá Porto og Sporting í Portúgal.

Unnu með yfirburðum

Dariel García, sem var markahæstur gegn Slóveníu, spilar með Bidasoa á Spáni og Hanser Rodríguez, helsti markaskorari liðsins undanfarin ár, leikur með sterku liði Vardar frá Norður-Makedóníu. Meirihluti leikmanna í HM-hópi Kúbu leikur með liðum í Portúgal og á Spáni.

Kúba vann meistarakeppni Norður- og Mið-Ameríkuriðils 2024 með miklum yfirburðum og tryggði sér þar með sæti á HM, m.a. með mjög öruggum níu marka sigrum gegn Grænlandi og Bandaríkjunum sem hafa verið fulltrúar heimshlutans á HM undanfarin ár. Kúba vann Mexíkó í úrslitaleik mótsins, 36:21.

Bandaríska liðið, sem leikur á HM sem boðslið (wildcard), hafnaði í fjórða sæti þeirrar keppni.

Á Kúbu er mikil handboltahefð, sú mesta í þessum heimshluta. Kúba kom fram á sjónarsviðið seint á 20. öldinni með mjög öflugt lið sem stóð sig ítrekað vel á heimsmeistaramótum og náði best 8. sæti á HM 1999.

Duranona og García

Á þeim árum átti þjóðin marga snjalla handboltamenn og einna fremstur þeirra var Julian Duranona sem flúði land, eins og margir aðrir, gerðist Íslendingur og spilaði með KA og landsliði Íslands við góðan orðstír, ásamt því að leika í Þýskalandi í framhaldi af því. Duranona skoraði 202 mörk í 61 landsleik fyrir Ísland og lék m.a. á HM 2001. Áður varð hann markakóngur HM 1990 með liði Kúbu og er bæði leikja- og markahæstur í sögu landsliðsins.

Jaliesky García kom einnig til Íslands upp úr aldamótum, lék með HK og varð íslenskur landsliðsmaður og spilaði síðan lengi með Göppingen í Þýskalandi. Jaliesky, sem síðan var landsliðsþjálfari Púertó Ríkó um árabil, skoraði 149 mörk í 46 landsleikjum fyrir Ísland og spilaði á nokkrum stórmótum.

Handboltinn á Kúbu fór síðan í niðursveiflu eftir aldamótin. Liðið komst á HM 2009 en það er eina heimsmeistaramót Kúbu á 21. öldinni, þar til nú.

Brotthvarf bestu handboltamanna landsins hefur verið mesta vandamál Kúbumanna en fjölmargir öflugir leikmenn þaðan hafa gert það sama og Duranona og García og gerst ríkisborgarar annarra landa. Þeir hafa spilað fyrir m.a. Spán, Portúgal, Ungverjaland og Katar. Lið Katars sem nú leikur á heimsmeistaramótinu er t.d. með tvo Kúbumenn innanborðs.

Höf.: Víðir Sigurðsson