Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að úthluta Þjóðarhöll ehf. byggingarreit F innan lóðar Engjavegar 8, Reykjavík.
Umrædd lóð er milli Laugardalshallar og Suðurlandsbrautar og þar á að rísa nýtt fjölnota íþrótta- og viðburðahús. Í desember sl. voru þrjú teymi valin til þátttöku í samkeppnisútboði um hönnun og byggingu hússins.
Fram kemur í tillögu sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri lagði fyrir borgarráð að Reykjavíkurborg selji Þjóðarhöll ehf. byggingarrétt lóðarinnar fyrir krónur 1.572.000.000. Auk greiðslu fyrir byggingarrétt greiðast krónur 489.000.000 í gatnagerðargjöld.
Heildargreiðsla fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld eru því rúmir tveir milljarðar króna, eða krónur 2.061.000.000. Fjárhæð gatnagerðargjalda getur breyst til hækkunar við álagningu þeirra við innlögn byggingarnefndarteikninga.
Lóðarúthlutunin byggist á samkomulagi milli íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 10. janúar 2024. Lóðin Engjavegur 8 er um 35.030 m2 að stærð og heimilt er að byggja allt að 19.000 m2 á byggingarreit F. Lóðin telst byggingarhæf.
Gjalddagi gatnagerðargjalda og eftirstöðva byggingarréttarins er 45 dögum eftir staðfestingu borgarráðs á úthlutun lóðarinnar.
Fram kemur í bréfinu að ef Þjóðarhöll ehf. innir ekki af hendi greiðslu kaupverðs byggingarréttarins og gatnagerðargjalda innan tilgreindra fresta fellur úthlutun lóðarinnar niður með afturköllun borgarráðs. Sama á við ef framkvæmdafrestir eru ekki virtir.
Litlar líkur eru á því að til afturköllunar komi á úthlutun lóðarinnar því Þjóðarhöll ehf. er í sameiginlegri eigu ríkissjóðs Íslands og Reykjavíkurborgar. Ríkið á 55% í félaginu og borgin 45%.
Félagið Þjóðarhöll ehf. var stofnað 10. janúar 2024. Í því er fimm manna stjórn og er Jón Arnór Stefánsson formaður.
Kostnaðarskipting milli ríkis og borgar liggur fyrir og er hún í samræmi við eignarhlutinn í félaginu.