Snilligáfa Davids Lynch var fyrst og fremst fólgin í einstakri sköpunargáfu en um leið óhefðbundinni nálgun á allri þeirri list sem hann tók sér fyrir hendur, því þótt hann væri aðallega heimsfægur fyrir kvikmyndagerð þá gaf hann sig að alls konar annarri list líka. Í huga Davids var jörðin alls ekki kringlótt en sannarlega ekki flöt heldur.“
Þetta segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi og gamall samstarfsmaður Davids Lynch og vinur til áratuga. Lynch lést í vikunni, tæplega 79 ára gamall, eftir veikindi.
Lynch hafði mjög sérstakan og auðþekkjanlegan stíl, sem gjarnan var kallaður „lynchískur“, vegna þess að hann var engum líkur, hvorki efnistök né áferð verka hans. „Það var engin leið að setja David í flokk. Hann vildi aldrei takmarka sig og festist aldrei í ákveðnum frásagnarstíl. David hafði einstakt lag á því að gera allt að sínu og hafnaði þeirri mýtu að menn þyrftu að hafa upplifað hlutina til að gera þeim almennileg skil. Í hans huga var nóg að vita hvernig tilfinningin væri,“ segir Sigurjón.
Hafði alltaf skýra sýn
Lynch fæddist 20. janúar 1946 í Missoula í Montana. Hann hóf feril sinn með því að gera stuttmyndir seint á sjöunda áratugnum og sló í gegn með sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd, hrollvekjunni Eraserhead 1977, sem fyrir löngu hefur öðlast költstöðu meðal kvikmyndaunnenda.
Síðan kom Fílamaðurinn, The Elephant Man, 1980, með John Hurt og Anthony Hopkins, sem hlaut mikið lof og naut lýðhylli. Framtíðaróperan Dune, 1984, féll ekki eins vel í kramið hjá gagnrýnendum en aðsókn var góð. Þá komu Blue Velvet og Wild at Heart sem flestir þekkja og síðar marglofaðar myndir eins og Lost Highway og Mulholland Drive. Ekki má heldur gleyma sjónvarpsmyndaflokknum Twin Peaks, sem naut gríðarlegra vinsælda, snemma í níunni, og framhaldinu Twin Peaks: The Return, 2017. Það varð seinasta verk Lynch sem leikstjóra.
Sigurjón segir að Lynch hafi verið einstakur og um margt óvenjulegur maður. Hann hafi alltaf haft mjög skýra sýn á það sem hann var að gera og aldrei hafi verið nein læti í kringum hann. „Læti og kvartanir voru aldrei liðin á kvikmyndasettinu; þeir sem voru til vandræða komu ekki aftur næsta dag. Pössuðu ekki inn í mengið. David gætti þess vel að láta aldrei safnast upp stress. Sjálfur stundaði hann sína innhverfu íhugun í 45 mínútur í hverju hádegi og menn urðu að borða hljóðlaust. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu. David bjó til einstakt andrúmsloft og kom til dæmis með nýja tónlist á hverjum einasta degi. Allt í því skyni að halda andanum gangandi, eins og hann var vanur að segja,“ segir Sigurjón.
Leitaði meira inn á við
Lynch var mikill áhugamaður um tónlist og samdi sjálfur meðal annars kvikmyndatónlist, einn og með öðrum. Hann teiknaði líka, málaði, vann að höggmyndalist og var mikill ljósmyndari, svo fátt eitt sé nefnt. „Kvikmyndir eru mikið átak og samvinnuverkefni og í seinni tíð leitaði David meira inn á við og fékk mikið út úr annars konar listsköpun; gerði til að mynda poppplötu þegar hann var kominn yfir sjötugt sem naut vinsælda. Það geta ekki margir státað af því,“ segir Sigurjón.
Um leið og hann var alla tíð hógværðin uppmáluð bjó Lynch að miklu sjálfstrausti, að sögn Sigurjóns, og fannst hann alltaf geta gert allt. Vandamál voru ekki til í hans huga, aðeins lausnir. „Það var alveg sama hvort David var að vinna við að bera út blöð fyrir Wall Street Journal til að safna pening til að gera kvikmyndir eða orðinn margverðlaunaður milljónamæringur þá var hann alltaf sami maðurinn og meira að segja í sömu fötunum. Klæðnaðurinn breyttist aldrei, svartur jakki, hvít skyrta og svart bindi. Það var sama hvort hann var að fara í morgunverð eða á sjálfa Óskarsverðlaunahátíðina,“ segir Sigurjón og hlær við.
„Frægð og velgengni trufluðu David ekki neitt. Ekki heldur þegar verk hans geiguðu, eins og kvikmyndirnar Dune og síðar Inland Empire. Það hafði engin áhrif á David, hann fór bara upp í stúdíóið sitt og málaði eina mynd eða gerði einn skúlptúr. Ég fann aldrei biturð hjá honum, hann gat talað við alla, fann aldrei að kerfinu og hneykslaðist aldrei á nokkrum manni. Kannski var það vegna þess að hann kom frá mjög áreiðanlegu heimili og hafði verið skáti. David var náttúrubarn, þótt hann yrði að búa í borg.“
Að sögn Sigurjóns var auðvelt að treysta innsæi og dómgreind Lynch þegar þeir unnu saman að verkefnum. „Það voru aldrei átök, David vissi alltaf upp á hár hvað hann vildi. Og hann þurfti ekkert endilega lærða leikara, passaði bílstjórinn hans í eitthvert lítið hlutverk þá fékk hann bara það hlutverk.“
Vildi hjálpa Íslendingum
Innhverf íhugun var lengi samofin sjálfsmynd Lynch og Sigurjón naut góðs af þeirri nálgun þegar hann sjálfur átti erfitt uppdráttar í lífinu fyrir fjölmörgum árum. „David hafði trú á því að koma mætti á friði í heiminum með því að fá alla til að finna sinn innri frið.“
Þegar Lynch frétti af bankahruninu hér á Íslandi lýsti hann áhyggjum sínum af andlegri heilsu þjóðarinnar og spurði Sigurjón: Hver er að hjálpa ykkur með hana? Svarið var: Enginn sérstakur. „Jæja, þá kem ég,“ varð Lynch að orði.
Og hann kom, hélt fjölsóttan og eftirminnilegan fyrirlestur og lagði umtalsvert fé í það verkefni að byggja hér upp innhverfa íhugun. „Það hafa ekki margir listamenn komið til Íslands bara vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af andlegri heilsu þjóðarinnar,“ segir Sigurjón en í fyrirlestri sínum kynnti Lynch hvernig nota mætti innhverfa íhugun og hugleiðslutækni til að rétta af efnahag Íslands – og sálarlíf um leið.
Frásagnarmátinn engu líkur
Talið berst að lokum að bestu verkum Lynch, það er á hvíta tjaldinu eða skjánum, og hvort Sigurjón eigi sér tiltekið uppáhaldsverk.
„Nú vandast málið,“ segir hann, „það er af svo mörgu að taka. Ég gæti nefnt Wild at Heart, sem mér þykir mjög vænt um enda framleiddi ég þá mynd, en einnig Eraserhead og Mulholland Drive, sem eru meistaraverk, Blue Velvet og svo auðvitað Twin Peaks, sem var brautryðjandaverk í sjónvarpi á sínum tíma. Helsta meistaraverk Davids tel ég þó vera Twin Peaks: The Return, þætti sem fáir hafa séð, enda tormelt efni. Þeir eru einstakir og bera snilligáfu Davids fagurt vitni, frásagnarmátinn í þeim þáttum er engu líkur. Nafn Davids mun auðvitað lifa um aldur og ævi og þegar frá líður finnst mér líklegt að hans verði aðallega minnst fyrir Eraserhead og Twin Peaks: The Return. Bæði brjóta þessi verk upp stíl og form og eru löngu orðin ódauðleg. Ekta „lynchísk“ listaverk.“