Reynsla Hin þrautreynda Steinunn Björnsdóttir var markahæst Framara.
Reynsla Hin þrautreynda Steinunn Björnsdóttir var markahæst Framara. — Morgunblaðið/Karítas
Fram lenti í talsverðu basli með ÍR í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í gærkvöld þegar liðin mættust í Úlfarsárdal en hafði þó betur að lokum, 22:20. Fram náði þar með Haukum að stigum í öðru til þriðja sætinu með 18 stig, fjórum stigum á eftir Val

Fram lenti í talsverðu basli með ÍR í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í gærkvöld þegar liðin mættust í Úlfarsárdal en hafði þó betur að lokum, 22:20. Fram náði þar með Haukum að stigum í öðru til þriðja sætinu með 18 stig, fjórum stigum á eftir Val.

Fram var yfir í hálfleik, 14:9, og virtist stefna á öruggan sigur. En ÍR-konur létu finna fyrir sér í seinni hálfleiknum, söxuðu smám saman á forskotið og höfðu minnkað muninn í eitt mark, 18:17, þegar hálfleikurinn var hálfnaður.

Fram komst í 21:18 en ÍR svaraði tvisvar og fékk tækifæri til að jafna metin á lokamínútunni. Ethel Gyða Bjarnasen varði þá í marki Fram og Íris Anna Gísladóttir skoraði og tryggði Fram sigurinn, 22:20.

Steinunn Björnsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Fram, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4 og Íris Anna Gísladóttir 3 en Sara Dögg Hjaltadóttir var atkvæðamest ÍR-inga með 7 mörk.