Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar verður haldin í 44. sinn dagana 24. til 26. janúar en hún hefur verið haldin árlega frá stofnun hennar árið 1980. Á hátíðinni er að venju lögð áhersla á ný íslensk tónverk þó sjónum sé einnig beint að erlendum tónverkum og flytjendum.
„Hátíðin í ár verður mjög fjölbreytt að vanda og þar verður eitthvað fyrir alla því við reynum að hafa breidd í dagskránni. Þar verða okkar föstu samstarfsaðilar eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er alltaf með mjög glæsilega tónleika á hátíðinni og í ár opnar hún hátíðina með tónleikum á föstudeginum, Kammersveit Reykjavíkur og Caput-hópurinn, sem eru bæði með mjög spennandi prógramm og ný verk. Einnig má nefna sönghópinn Cantoque Ensemble, sem hefur verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðastliðin þrjú ár, en hann verður með tónleika í Hallgrímskirkju þar sem þau flytja kórverk eftir Hjálmar H. Ragnarsson,“ segir Gunnhildur Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar og fulltrúi í listaráði hennar, innt eftir því hvað beri hæst í ár.
Leika á rabarbaraflautur
Að sögn Gunnhildar má finna ákveðinn rauðan þráð í gegnum dagskrá hátíðarinnar sem hefur tengingu inn í myndlistarheiminn.
„Við erum til að mynda með mjög skemmtilegan viðburð sem er gjörningurinn hennar Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur en hún var nýlega valin fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist á næsta ári. Ásta mun í rauninni taka yfir Eldborgarsal Hörpu og búa þar til mikla upplifun sem dansar á mörkum tónlistar, hljóðlistar, skáldskapar, gjörnings og innsetningar. Ásta Fanney hefur unnið mikið bæði sem tónskáld, tónlistarkona og myndlistarkona þannig að hún er mjög góður fulltrúi þessa samruna.“
Nefnir Gunnhildur í kjölfarið annað verkefni sem dansi á þessu bili en það ber heitið „Ventus“ og er eftir þau Eyjólf Eyjólfsson og Berglindi Maríu Tómasdóttur.
„Það er flautuhópurinn viibra sem flytur verkið í Ásmundarsafni, Listasafni Reykjavíkur. Þau leika sér mjög mikið með rýmið og sýninguna sem er þar í gangi og eru búin að semja verk sem er sérhugsað fyrir þetta rými. Þetta er mjög spennandi því verkið verður leikið á rosalega fallegar flautur sem Eyjólfur hefur smíðað úr rabarbara,“ útskýrir hún svo blaðamaður hváir enda aldrei heyrt áður að hægt væri að nota þessa garðplöntu sem einhvers konar hljóðfæri.
Þá segir Gunnhildur þriðja viðburðinn sem tengist myndlistinni vera á vegum Skerplu, listahóps úr Listaháskóla Íslands. „Hópurinn samanstendur af nemendum í sviðslistadeild, bæði tónlistar- og myndlistarnemendum, sem eru að gera verk sem byggjast á arfleifð SÚM-hópsins en hann var starfandi í lok sjötta og byrjun sjöunda áratugar.“
Nýjung að hafa listrænt teymi
Í ár var gerð sú breyting að í stað þess að hafa einn listrænan stjórnanda var skipað fjögurra manna listaráð, eða listrænt teymi, sem hefur umsjón með dagskrárgerð hátíðarinnar.
„Auk mín eru Ásmundur Jónsson, Þráinn Hjálmarsson og Björg Brjánsdóttir en saman höfum við tekið allar listrænar ákvarðanir, í samstarfi við okkar fólk, en þessi myndlistartenging á hátíðinni var ein af þeim áherslum sem okkur langaði að draga fram. Þetta er auðvitað líka það sem margir eru að fást við núna í samtímatónlist, þessi samruni tónlistar og myndar,“ segir Gunnhildur til útskýringar.
Sú nýjung á sér einng stað á hátíðinni í ár að boðið verður upp á sérstaka stuttmyndadagskrá í Kaldalóni í Hörpu þar sem sýndar verða stuttmyndir eftir Jófríði Ákadóttur og Áslaugu Magnúsdóttur, Ragnar Árna Ólafsson og Luke Deane, Bjarna Þór Pétursson, Sigrúnu Gyðu Sveinsdóttur og Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur.
„Þessi dagskrá er helguð tónlistartengdum stuttmyndum en um er að ræða verk sem eru gerð í hljóði og mynd. Það er einmitt mjög spennandi að geta boðið upp á þetta líka en aðgangur er ókeypis. Myndirnar verða sýndar nokkrum sinnum þannig að fólk getur svolítið gengið inn og út.“
Stór nöfn sækja hátíðina heim
Líkt og áður skipar erlend tónlist mikilvægan sess á hátíðinni. Þá mun enski kammerhópurinn Riot Ensemble koma fram í ár en þó ekki í fyrsta sinn því hann kom líka hingað til lands árið 2019 til að spila á Myrkum músíkdögum.
„Þetta er einn af aðalhópunum í samtímatónlist í heiminum í dag en þau koma með kvartett sem leikur á hátíðinni og það er gaman að segja frá því að við eigum einn meðlim í þessari frægu hljómsveit, Pétur Jónasson gítarleikara. Hann mun leika á hátíðinni með hópnum og frumflytja nýtt verk sem var samið fyrir okkar tilstilli af Guðmundi Steini Gunnarssyni fyrir hópinn,“ segir Gunnhildur og tekur fram að mikil eftirvænting sé fyrir því að fá Riot Ensemble aftur til landsins.
„Það er mikill fengur að fá þau og kynna þeim íslenska tónlist í þeirri von að þau taki hana með sér út í heim þar sem þau eru tíðir gestir á öllum stærstu sviðum veraldar í samtímatónlistarheiminum.“
Að auki nefnir Gunnhildur annað skemmtilegt samstarf sem er viðburður þar sem þær Guðrún Óskarsdóttir semballeikari og Heleen Van Haegenborgh, tónskáld og píanóleikari, flytja verkið „Þjóðsögur“.
„Þær hafa unnið þetta verk saman fyrir hljómborð og strengi svo þetta verða mjög spennandi tónleikar.“
Fastur liður hjá mörgum
Að sögn Gunnhildar sækir fastur hópur bæði innlendra og erlendra gesta hátíðina á hverju ári.
„Sumir koma gagngert hingað til lands til að koma á hátíðina og sá hópur fer alltaf stækkandi. Eins erum við dugleg að reyna að sækja á ný mið, eins og núna með tengingu við myndlistarheiminn, í þeirri von að fá fleiri áhorfendur. Einnig með því að vera í þéttu og góðu samstarfi við öll menntunarstig landsins. Við erum alltaf í samstarfi við Listaháskólann og svo er Menntaskólinn í tónlist með tónleika á hátíðinni annað árið í röð. Það er mjög mikilvægt að fá þetta unga fólk inn á hátíðina, bæði sem þátttakendur og auðvitað sem gesti líka.“
Þá mun Skólahljómsveit Vestur- og Miðbæjar, undir stjórn Inga Garðars Erlendssonar, sjá um að opna hátíðina og fara þeir tónleikar fram í opnum rýmum Hörpu.
„Þau opna hátíðina með verki sem þau hafa sjálf verið að semja í vetur undir hans handleiðslu en um er að ræða 60 manna lúðrasveit sem flytur verkið. Hér er líka um að ræða samstarf annað árið í röð en ég hlakka mikið til að sjá þau spila. Við erum að reyna að ná í unga fólkið til okkar og þetta er liður í því,“ segir hún og nefnir í kjölfarið að hátíðardagskráin sé mjög þétt enda nái hún einungis yfir þessa þrjá fyrrnefndu daga.
„Við vonumst fyrst og fremst til þess að geta skapað hátíðlega stemningu í Hörpu, þar sem flestir viðburðirnir fara fram, en boðið verður upp á innsetningar á göngunum svo það er tilvalið fyrir fólk að koma og hangsa, njóta og upplifa margt skemmtilegt.“
Mikilvægur vettvangur
Aðspurð að lokum segir Gunnhildur hátíð sem þessa gríðarlega mikilvæga fyrir íslenskt tónlistarlíf.
„Hátíðin tekur svolítið saman hvað er að gerast í þessum heimi á Íslandi en líkt og ég nefndi hér að framan er fólk að koma frá útlöndum á hátíðina í þeim tilgangi að kynna sér þær nýjungar sem hér eru í gangi hverju sinni. Svo má líka horfa á þetta sem eins konar tilraunavettvang en það er svo mikilvægt að tilraunamennska sé í gangi til þess að skapa alls konar nýtt. Þetta er því vettvangur fyrir íslenskt tónlistarfólk til þess að koma fram með nýjar hugmyndir og máta sig við umheiminn. Hátíðin er því mjög mikilvæg fyrir samtímatónlistarsenuna hér á landi því hún er nokkurs konar tilraunamiðstöð og margt byrjar á henni sem teygir svo anga sína víðar út í tónlistarbransann.“
Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á vefsíðu hennar darkmusicdays.is.