Kvennaskólinn í ísspegli.
Kvennaskólinn í ísspegli. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Engu ríki stendur ógn af Grænlandi. Það má miklu frekar segja að Grænland búi yfir miklum verðmætum, sem engir nema Grænlendingar eiga að hafa forgang til að nýta, og ekkert verra þótt þeir fari sér hægt og af varúð. Hægt er að gera samninga, án þess að láta glitta í byssustingina.

Forsætisráðherra Grænlands sagðist gjarnan vilja eiga samtal við verðandi forseta Bandaríkjanna. Hann er ekki eini leiðtogi ríkja, sem sóst hefur eftir samtali við Donald Trump, frá því að hann vann með miklum glæsibrag forsetakosningarnar í byrjun nóvember á síðasta ári, þær sömu og hann hafði áður tapað. Strax eftir helgi fer fram hin sérstaka innsetningarathöfn nýs forseta og varaforseta, og vitað er af reynslu að allt er þá gert til að sú verði glæsileg, þótt að þessu sinni verði sviðið ekki sérstakar svalir þinghússins í höfuðborginni Washington eins og endranær því spáð er fimbulkulda og verður hún því innan dyra. Það er þó ekki alveg ljóst hverjir úr helstu sveit fyrirmenna mæti til fagnaðarins, og er þá einkum horft til fyrrverandi forseta ríkisins og maka þeirra.

Sigur í annað sinn

Þegar Trump vann síðast, 2016, er fullyrt að Clinton, fyrrverandi forsetafrú, sem keppt hafði við Trump sem sigraði þá fremur naumlega, hafi reynt að fá samstöðu „forsetadæmisins“ um að sýna innsetningarathöfn Trumps forakt, með því að mæta ekki til þessarar athafnar. En George W. Bush og frú hans töldu fráleitt að mæta ekki til þessa opinbera atburðar, sem almenningur fylgdist jafnan mjög áhugasamur með, og það þótt þau Bush-hjón, sem eru repúblikanar, hefðu sennilega alls ekki kosið Trump sem forseta það sinnið, því að þau hefðu haft andúð á framgöngu hans, þegar Trump var að berjast fyrir því að verða frambjóðandi flokks repúblikana.

Flestir eru sjálfsagt búnir að gleyma því, að Hillary fullyrti að Trump hefði náð sigri í kosningunum 2016 með svindli! Trump hélt því sama hins vegar fram að loknum kosningunum 2020, þegar Joe Biden sigraði, að beitt hefði verið brögðum og Biden því unnið með svindli. Iðulega er minnst á þetta „hneyksli“ Trumps, að halda fram svindli, en sömu ásakanir frú Hillary voru fljótar að gleymast.

Reglan vestra er sú, að nýr forseti tekur ekki við embættinu þrátt fyrir sigur sinn fyrr en upp úr miðjum janúar, áramótin á eftir kosningunum. En forsætisráðherra Grænlands er ekki eini ráðamaðurinn sem vill mæta og tala við Trump á meðan aðdragandatíminn er að líða, og aðeins er einn forseti í Bandaríkjunum á meðan, fráfarandi forsetinn, þar til eftir að eiðstafurinn hefur verið staðfestur í janúar að viðstöddum gríðarlegum fjölda almennings og mun færri fyrirmanna.

Það er svo sannarlega ástæða til þess að helsti ráðamaður heimamanna á Grænlandi segist tilbúinn til umræðu, eftir að tilvonandi forseti Bandaríkjanna seildist í annað sinn (2019 var síðast) eftir Grænlandi. Trump hefur lengi sýnt að hann fer sínu fram, hvað sem hver segir. Og það hefur bæði kosti og galla. En það eru í gildi skráðar og óskráðar reglur um samskipti forystumanna ríkja, sem hafa í meginatriðum reynst vel og stundum verið til þess fallnar að afstýra illindum og eftirmálum.

Það eru vissulega til mörg dæmi, sem sýna að stórríki telja stundum að aðstæður og hagsmunir þeirra, sem jafnvel séu lífshagsmunir, krefjist þess að framganga gagnvart öðrum ríkjum geti ekki lotið fyrrnefndum reglum, svo sem þegar heimurinn logar allur í átökum, eða a.m.k. víða er óöld og stríð.

Snemma í heimsstyrjöldinni síðari sagði eldra fólk, sem þá var uppi, að fólk í Reykjavík hefði flykkst í átt til Reykjavíkurhafnar til að kanna hvort flotinn mikli, sem nálgaðist inn Faxaflóa, væri breskur eða þýskur. Það gat skipt máli fyrir mjög marga hér á landi og að öðru leyti höfðu flestir landsmanna skoðun á því, hvað væri hagstæðast íslenskri þjóð, hvort flotinn, sem var fyrir landi, væri þýskur eða breskur. Það varð því verulegur fögnuður þegar breski herinn tók land hér, og það þótt gera mætti ráð fyrir því, að þessi atburðir gætu orðið til þess að styrjöldin mikla yrði fyrirferðarmeiri á heimaslóð en hefði verið.

Mannskap vantar

Þegar her nasista hafði náð að styrkja sig verulega á meginlandinu, og margir töldu að fáar þjóðir Evrópu hefðu styrk til þess að standa árásir þeirra af sér, lagði Winston Churchill forsætisráðherra mikla áherslu á að ná mannskap til baka heim til Bretlands. Það var upp á líf og dauða, taldi hann.

Framhaldið var að bandaríski herinn, sem var ekki þá orðinn beinn þátttakandi í styrjöldinni, myndi leysa Bretana af. Franklin Roosevelt forseti samþykkti þetta, enda myndu íslensk stjórnvöld og bandarískir þingmenn samþykkja þessar breytingar, þar sem Bandaríkin voru ekki orðin enn beinn þátttakandi í hinni miklu styrjöld á þessum tíma. En þetta breyttist eftir að Japanir gerðu þau mistök að ráðast á Pearl Harbour og Adolf Hitler bætti heldur betur við þau mistök bandamanna sinna í Japan, þegar hann lýsti þegar yfir stríði við Bandaríkin og auðveldaði þannig forsetanum, þingi og almenningi að setja hina miklu stríðsvél Bandaríkjanna á fulla ferð, auka mjög hervæðingu sína og kvaðningu hermanna.

Winston Churchill hringdi til Roosevelts forseta „um beinu línuna“ og heima fyrir sagði hann, að þótt mikið væri enn eftir af stríðinu, þá hefðu þessir síðustu atburðir tryggt að nú væri aðeins ein stór spurning eftir og hún væri sú, hversu fljótt myndi sigur nást núna.

Ógnin ógurlega

Á því augnabliki vissi varla nokkur maður að Bandaríkin hæfu innan skamms framleiðslu kjarnorkuvopna og knúðu Japana þar með til uppgjafar, en margir töldu að eins og japanski herinn berðist væri víst að hann myndi aldrei gefast upp, hvað sem bardögum liði. Truman forseti, sem tekið hafði við þegar Roosevelt forseti varð bráðkvaddur, veitti bandarískum sveitum heimild til að beita einni kjarnorkusprengju, gagnvart borginni Hiroshima, og þegar það virtist ekki duga til, þá var önnur kjarnorkusprengja send á Nagasaki. Þá áttaði japanska herstjórnin sig á hvernig komið væri, og loks Japanskeisari sjálfur. Hefðbundnir hetjulegir bardagar breyttu ekki lengur neinu. Hér eftir yrði ekki hjá því komist að gefast upp gegn bandamönnum.

Jósep Stalín, sem í upphafi stríðs hafði verið í bandalagi við Hitler og flokk hans, til að kaupa sér tíma, var mjög brugðið þegar honum var sagt frá sprengjunum ógurlegu og kallaði á Bería, hinn illræmda foringja leyniþjónustunnar, og fól honum og njósnurum hans í Bandaríkjunum að komast með öllum tiltækum ráðum yfir gerð kjarnorkusprengja, og í loftinu lá að ella myndi Bería ekki þurfa að kemba hærurnar!

Allar götur síðan hefur kjarnorkusprengjum fjölgað verulega og nokkrar þjóðir hafa sprengt „tilraunasprengjur“. Og nú síðast óttast margur það, en þó fyrst og fremst Ísrael, að Obama og Biden forsetar hafi mokað fé í stjórnina í Teheran, gegn því að hún myndi ekki halda áfram að leitast við að komast yfir kjarnorkusprengjur. Þessar vanhugsuðu aðgerðir fyrrnefndra tveggja stjórnmálaforingja hafa, þvert á barnalegar ætlanir þessara forseta, orðið til þess að Íranir hafa haldið samfellt áfram við kjarnorkuáætlanir sínar og aukið framkvæmdir sínar með það lokamarkmið, að koma sér upp kjarnorkusprengjum.

Margur í öflugustu leyniþjónustu í veröldinni, Mossad, hefur sagt, að á því augnabliki sem Ísraelsmenn myndu sjá að klerkastjórnin í Íran væri við það að komast yfir kjarnorkusprengju, yrði óðara brugðist við frá Jerúsalem. Það má augljóst vera, að þegar ríki eins og Ísrael, sem hefur lengi verið ofurselt ríkjum nágranna og andstæðinga í senn, sem hafa margoft ráðist inn í Ísrael, og stundum allmörg ríki í senn, þá er minni en enginn tími til að biðja guð að hjálpa sér eða hefja vangaveltur og setja á mikið snakk um víða veröld. Sú saga er þekkt.

Grænland verðskuldar virðingu

Spurningu um Grænland má nálgast af mun meiri varúð en gert var nýlega, án þess að þessum ríkjum liggi lífið á.

Engu ríki stendur ógn af Grænlandi. Það má miklu frekar segja að Grænland búi yfir miklum verðmætum, sem engir nema Grænlendingar eiga að hafa forgang til að nýta, og ekkert verra þótt þeir fari sér hægt og af varúð. Hægt er að gera samninga, án þess að láta glitta í byssustingina. Góðri sátt má ná ef hóflega er gengið um, eins og dæmin sanna, og án þess að ganga of ógnandi um og láta fámenni nágrannanna gjalda aflsmunar.

Í umræðum um Grænland kemur því miður fyrir að Danmörk, sem hefur lengi verið nátengd Grænlandi og farið þar með drjúgt vald, hafi þó ekki gengið um það samband af nægjanlegri gætni.

Við, hér uppi á Íslandi, þekkjum þá sögu vel, að lengi fóru danskir húsbændur ekki um með nægjanlegri varúð, þótt vissulega hefðu menn hér sjálfsagt getað haft verri herra yfir sér en þá var. En eftir því var hins vegar tekið, þegar hin óvænta umræða hófst um Grænland, að þá kom á daginn að umræðan um málið var ekki dönskum yfirvöldum nægjanlega hagfelld.

Tilvonandi forseti Bandaríkjanna fór fram eins og öflugur og eftir atvikum ýtinn viðskiptajöfur annars vegar, og hins vegar handhafi valds sem um árhundruð hefur fylgt tilveru þess ríkis, sem hann er nú í forystu fyrir. Og við erum mörg sem teljum, að það hafi gegnum tíðina iðulega verið sérstakt fagnaðarefni fyrir fámenna þjóð eins og okkar að eiga slíka þjóð að bandamönnum. Því má ekki spilla.

Fátt vitað

Sú ríkisstjórn, sem tekin er við í landinu, hefur sýnt að hún hefur næsta lítið fram að færa. Og það hafi hjálpað henni að haltra fyrstu sporin. En menn vita þó næsta lítið hvert skal haltra. Forsætisráðherrann fékk embættið, eins og Katrín á sínum tíma. Það var aldrei nægjanlega upplýst hvað eða hvernig hún hefur hugsað sér að fara með það embætti, ef frá er talið að spyrja fjölda manna hvaða málefni það séu sem skuli leggja sérstaka áherslu á. Það hefði kannski verið skynsamlegra að panta hugmyndir utan úr bæ áður en stjórnarsáttmála er lokað.