Huginn Freyr Þorsteinsson er ráðgjafi hjá Aton og heimspekingur.
Huginn Freyr Þorsteinsson er ráðgjafi hjá Aton og heimspekingur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afi minn, Gunnar Valdimarsson, var fornbókasali í Bókinni á Laugavegi 1 og þar hreiðraði um sig áhugi minn á bókum. Að fara höndum um fallegar bækur í vönduðu bandi vekur hjá manni jákvæð hughrif. Sem barn og ungur maður las ég margar skáldsögur

Afi minn, Gunnar Valdimarsson, var fornbókasali í Bókinni á Laugavegi 1 og þar hreiðraði um sig áhugi minn á bókum. Að fara höndum um fallegar bækur í vönduðu bandi vekur hjá manni jákvæð hughrif. Sem barn og ungur maður las ég margar skáldsögur. Halldór Laxness varð snemma í uppáhaldi og þá vegna þess hve fjölbreyttar bækur hans gátu verið. Ég hreifst af áróðurstækni Laxness í Alþýðubókinni, kerskni hans í Brekkukotsannál og frásögninni í Sjálfstæðu fólki.

Í seinni tíð les ég meira af fræðibókum. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags eru í miklum metum hjá mér og fá rit hef ég lesið jafn oft eins og Orðræðu um aðferð eftir franska heimspekinginn René Descartes og Rannsókn á skilningsgáfunni eftir David Hume. Báðir höfundar fjalla um efni sem á vel við á okkar tímum, það er spurninguna um hvernig við getum orðið okkur úti um þekkingu og rökstutt tilkall okkar til hennar.

Þá er ég sérstakur áhugamaður um rit um íslensk náttúruvísindi frá fyrri öldum. Þýðing Jónasar Hallgrímssonar á Stjörnufræði Ursins er sígild og gerði Íslendingum á þeim tíma m.a. kleift að kynnast þyngdarfræði Newtons. Eins og þekkt er birtust einnig fjölmörg nýyrði í þýðingu Jónasar, líkt og orðin aðdráttarafl, sporbaugur, fjaðurmagnaður, ljósvaki og sjónauki. Samantekt og matreiðsla Þorvaldar Thoroddsen á þróunarkenningu Darwins, Um uppruna dýrategunda og jurta, sem er einnig lærdómsrit, er annað dæmi um vel heppnað rit til að kynna Íslendingum vísindakenningu.

Í námi mínu í vísindasögu á sínum tíma fékk ég áhuga á ritum Emilié de Chatelet en hún er m.a. þekkt fyrir að hafa þýtt stórvirki Newtons, Principia Mathematica, á frönsku. Þá skrifaði hún bók árið 1742, Grundvöll eðlisfræðinnar, þar sem hún glímir við fjölmargar erfiðar spurningar sem vakna við tilurð þeirrar heimsmyndar sem er að verða til á hennar tíma.

Upp á síðkastið hef ég gert átak í því að lesa ljóð og þá eftir sígilda höfunda eins og Bólu-Hjálmar. En þarna hef ég líka heillast af nýjabruminu og nýlega las ég ágæta ljóðabók Eydísar Blöndal Ég brotna 100% niður sem er góð tilvistarspeki á viðsjárverðum tímum.