Hörður Adolphsson fæddist 4. september 1933. Hann lést 1. janúar 2025.

Útförin fór fram 17. janúar 2025.

Í dag er borinn til grafar tengdafaðir minn Hörður Adolphsson. Hörður var á margan hátt merkilegur maður. Hann var einn átta systkina og missti föður sinn þegar hann var unglingur. 14 ára réð hann sig á eitt af varðskipum Íslendinga og sá um sig sjálfur upp frá því, það var lítið talað um barnaþrælkun á þessum árum.

Eftir árin á sjónum fór hann í Iðnskólann og lærði húsasmíði, sem kom sér mjög vel fyrir okkur Siggu mína þegar við byggðum húsið okkar á Húsavík. Í Eikjuvogi sem árið 1974 var valin fegursta gata Reykjavíkur byggði Hörður glæsilegt einbýlishús yfir fjölskylduna, nánast með eigin höndum, það var ekki alltaf úr miklu að moða á þeim árum. Þar var samheldnin og kærleikurinn ávallt í fyrirrúmi.

Hörður var mikill söngmaður og kunni ógrynni gamalla slagara, þá var oft sungið og glatt á hjalla. Fyrir okkur Siggu og börnin okkar hefur Eikjuvogurinn alltaf verið miðpunktur ekki bara Reykjavíkur heldur miðpunktur Íslands og sárt fyrir alla að það er ekki lengur þannig. Takk fyrir kynnin og samfylgdina og góða ferð yfir í annan heim, þar veit ég að amma Halldóra tekur á móti þér með höndum tveim.

Hvíl í friði.

Stefán Örn Ingvarsson.

Þann 1. janúar kvöddum við einstaklega góðan mann, hann elsku afa minn.

Afi var mikill brandarakarl og fannst gaman að stríða okkur barnabörnunum.

Erfitt er að hugsa til þess að fá ekki að njóta fleiri stunda með honum en minning hans mun alltaf lifa í hjörtum okkar.

Þín verður sárt saknað elsku afi minn.

Þín afastelpa,

Thelma Rut.

Elsku hjartans afi minn. Nú kveð ég þig í hinsta sinn með söknuð í hjarta en hlýjar minningar um góðar stundir lifa.

Þú varst einstakur karakter og kenndir mér góðar lexíur sem gott er að hafa sem veganesti út í lífið. Afstaða þín til lífsins var jákvæð og seiglan sama hvað gekk á. Þú söngst alltaf viðlagið „Við gefumst aldrei upp þótt móti blási“ og þannig hélstu áfram með höfuðið hátt.

Samband ykkar ömmu er mér ljóslifandi þegar ég hugsa um gamla tíma. Þið voruð alltaf jafn hnyttin og amma kallaði þig Emil enda sannur prakkari sem þú varst alla tíð. Það er gott að vita að þið hafið sameinast á ný enda voruð þið fyrir hvort öðru lífið allt.

Ég hugsa til þín og tendra ljós til að minnast þín. Hvíl í friði elsku afi, guð blessi þig og varðveiti.

María Björk Jónsdóttir.

Alltaf þegar ég mætti afa mínum sagði hann með bros á vör: „Hér kemur Rakel Anna panna!“ Hann tók mig í faðminn, knúsaði mig fast og strauk mér mjúklega um andlitið með hlýju og sterku höndunum sínum.

Afi var alltaf tilbúinn í stríðni og glettni. Hann laumaði sér aftan að mér, lagði höndina yfir augun mín og sagði hlæjandi: „Giskaðu hver ég er?“ Og þegar við reyndum að taka myndir, þá var hann alltaf mættur fyrir framan myndavélina – gretti sig og hafði gaman af því að stríða barnabörnunum sínum.

Hann hafði einstakt lag á að finna gömul og lúin áhöld, húsgögn eða hluti og gaf þeim nýtt líf í bílskúrnum sínum. Þar gat hann dundað sér tímunum saman, pússað, málað, smíðað – og meira að segja saumað líka! Hann var alltaf með ný verkefni í gangi, alltaf með einhverjar hugmyndir og nóg af handavinnu.

Amma Halldóra var drottningin í eldhúsinu, alltaf að baka eitthvað gómsætt. Þegar allt var tilbúið dinglaði hún bjöllunni sinni í geymslunni til að kalla afa inn til að borða. Þá lagði hann frá sér verkfærin og kom hlaupandi – enda kunni hann vel að meta góðar kökur og kaffisopa með sinni kæru Halldóru.

Við áttum ótal góðar stundir saman – spiluðum kortaspil, tefldum og nutum samverunnar. Afi var hlýr, stríðinn og skemmtilegur, með einstakan hæfileika til að láta alla í kringum sig hlæja og brosa.

Minningarnar um hann munu ávallt lifa í hjarta mínu, fylltar af hlátri, leik og kærleika.

Rakel Anna.

Afi var bestur í öllum heimi

aldrei ég honum gleymi

Hann farinn er til ömmu í draumalandið

við áttum besta sambandið

Fyndinn var karlinn og elskaði hann sólpallinn

Mikið mun ég sakna þess

að hafa þig ekki í augsýn

Farðu í friði afi minn

nú leka tárin á minni kinn

Þín afastelpa,

Halldóra Sara.

Elsku afi og langafi.

Nú ertu floginn yfir í draumalandið til ömmu.

Við kveðjum þig með hlýju og söknuð í hjarta.

Minningarnar eru margar og góðar. Að koma til ykkar í Eikjuvoginn var alltaf hápunkturinn við að koma til Reykjavíkur, bæði sem barn og fullorðinn. Þú bauðst öllum í „tínu“ og hafðir alltaf jafn gaman af að sprauta spilunum upp í loftið, og láta svo okkur krakkana tína þau upp. Bananakaka, kaffi og alls konar kræsingar, spjall, hlátur, gleði og umhyggja var ykkar auðkenni.

Þessar minningar og svo margar aðrar munu fylgja okkur um ókomna tíð.

Elsku afi okkar, takk fyrir allt og hvíl í friði.

P.s. kysstu ömmu frá okkur!

Kærleikskveðjur,

Halldór, Guðrún Björg, Arna Sigríður, Erna Svava, Sara Ruth og fjölskyldur.