Jón Grétar Broddason fæddist á Egilsstöðum 14. júlí 1982 og átti þar heima allan sinn aldur. Hann lést á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað 8. janúar 2025.

Foreldrar hans eru Broddi Bjarni Bjarnason og Guðrún Sóley Guðmundsdóttir.

Bræður Jóns Grétars eru Heiðar Steinn, f. 21. september 1971, og Bjarni Þór, f. 2. janúar 1974.

Jón Grétar stundaði nám í Grunnskóla Egilsstaða og síðan í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Útför Jóns Grétars fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 18. janúar 2025, og hefst athöfnin kl. 11.

Henni verður streymt á
www.egilsstadaprestakall.com

Jón Grétar var ógleymanlegur karakter sem snerti alla þá sem hann kynntist. Hann bjó yfir þessum „x-faktor“ sem erfitt er að útskýra og enginn getur gleymt.

Jón Grétar, eða Nonni eins og hann var oft kallaður, var mikill rútínumaður. Viðvera og vinna hans í Stólpa var honum mjög kær og mikilvægur partur í hans daglegu rútínu. Sama hvað á dundi þá mætti okkar maður ævinlega til vinnu. Hann mátti ekki vera að því að vera veikur eða taka sér lögbundið frí. Í Stólpa skyldi haldið.

Í kringum hann var aldrei lognmolla. Gleði og glens var sí og æ við völd. Dálæti hans á tónlist, kassettum, vísum, flugvélum og almennu spjalli einkenndi daga hans í Stólpa.

Jóni þótti fátt betra en gott spjall með kaffibolla við hönd og átti til að bresta í söng. Þá yfirleitt eitthvað gamalt og gott. Þá þögnuðu allir og lögðu við hlustir. Söngröddina átti hann ekki langt að sækja, enda foreldrar hans báðir í kirkjukórnum.

Kassettutækið var ævinlega með í för og lagði Jón Grétar mikið upp úr því að fá sínar daglegu spólur í Stólpa. Þar voru jólaspólurnar vinsælastar ásamt Trausti og Trygg, Gunna og Felix, Dýrunum í Hálsaskógi og Emil í Kattholti.

Flugvélar áttu hug hans allan. Það var ekki óvanalegt að okkar maður sussaði á okkur, bæði um þögn og tilkynnti í kjölfarið að þarna hefði „Fokkerinn“ verið að taka á loft eða lenda. Oftar en ekki skellti Jón sér í hlutverk flugstjórans og kyrjaði með tilþrifum:

„Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Welcome aboard, ladies and gentlemen. Thank you goodbye.“

Ansi fátt fór framhjá Jóni, enda með stórkostlega heyrn. Þótt hann sæi ekki, þá þekkti hann starfsfólk Stólpa í sundur á fótatakinu einu saman. Jafnvel gat hann greint hver væri að mæta til vinnu þar sem hann þekkti ganghljóðin í bílum þeirra. Þá var ekki óvanalegt að heyra: „Aha! Þarna kemur Helga á prumpubílnum.“

Jón Grétar var sjarmör af Guðs náð. Sú manneskja var ekki til sem Jón gat ekki heillað og talað um fyrir til að fá sínu framgengt. Þessu náði hann ævinlega í gegn með annaðhvort vísnasöng eða frumsömdum ljóðalestri af mikilli list. Eftirfarandi vísa var í miklu uppáhaldi. Vísan hljómaði alltaf eins að því undantöldu að Jón skeytti við nafni þess sem um ræddi hverju sinni:

Eva hef ég elskað þig,

Eva hef ég elskað.

Elsku Eva elska þig.

Eva ég elska þig.

Elsku Jón Grétar, takk fyrir samfylgdina.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,

og þín er liðin æviönn,

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo vinur kæri vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín geta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Elva Rún Gunnarsdóttir fyrir hönd vina í Stólpa.