Þórarinn Hjaltason
Síðastliðinn miðvikudag, 15. janúar, var haldinn kynningarfundur í safnaðarheimili Kópavogskirkju um fyrirhugaða borgarlínu í Kópavogi. Eftir framsöguerindi var gefinn kostur á spurningum úr sal. Greinilegt var að margir fundarmanna höfðu efasemdir um ágæti borgarlínunnar. M.a. var spurt hvort ekki væri betra að endurbæta núverandi strætókerfi með gerð fleiri forgangsakreina, vegna þess að slíkt væri margfalt ódýrara. Enn fremur var bent á að það þyrfti að auka flutningsgetu gatnakerfisins til þess að bæta núverandi umferðarástand. Uppbyggingu borgarlínunnar á nefnilega ekki að ljúka fyrr en 2040. Svör frummælanda og sérfræðinga voru vægast sagt loðin og villandi og sum hreinar rangfærslur sem full ástæða er til að leiðrétta.
Reynslan af Plusbus í Álaborg
Sérfræðingur sem svaraði spurningunni „hvers vegna borgarlína en ekki endurbætt strætókerfi“ benti á Álaborg, þar sem nýlega hefur verið tekin í notkun hraðvagnalína (e. BRT). Að hans sögn bendir reynslan af henni til þess að borgarlína sem hraðvagnakerfi verði miklu öflugri hvati til að breyta ferðavenjum en BRT-Lite, sem við hjá samtökunum Samgöngum fyrir alla (SFA) köllum létta borgarlínu. Þarna er um hreina rangfærslu að ræða.
Fyrri áfangi BRT í Álaborg (Plusbus) var tekinn í notkun 2023. Í skýrslunni „Udredningsrapport for Aalborg Letbane/BRT“ frá árinu 2014 er reiknað með að arðsemi Plusbus verði neikvæð ef afleiddur aukakostnaður fyrir bílaumferð er tekinn með í reikninginn, sbr. töflu á bls. 121. Farþegafjöldinn í dag er töluvert undir þeim væntingum sem gerðar eru í skýrslunni, þannig að arðsemi Plusbus hlýtur að vera neikvæð. Á bls. 91 kemur fram að reiknað er með að Plusbus leiði til þess að ferðum með bíl fækki aðeins um 500 á sólarhring.
Kostnaður við fyrri áfanga Plusbus, sem er um 12 km, var aðeins um 10 milljarðar ISK. Áætlað er að fyrsti áfangi borgarlínu muni kosta á bilinu 45-50 milljarða. Það sér hver heilvita maður að arðsemi borgarlínu verður neikvæð.
Gildi núverandi forgangsakreina
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri sagði að borgarlínan væri eina raunhæfa lausnin vegna þess að strætó yrði áfram fastur í umferðinni jafnvel þótt gerðar yrðu fleiri forgangsakreinar með hefðbundnum hætti! Ég ætla ekki að gera lítið úr lesendum Mbl. með því að útskýra í smáatriðum hvers vegna svar bæjarstjóra er út í hött.
Það nægir að benda á mjög góða reynslu af forgangsakreinum á Miklubraut austan Grensásvegar. Þær eru tiltölulega ódýrar vegna þess að það nægir að tengja saman aðreinar og fráreinar með rauðum forgangsakreinum sem eru samtals vel innan við 1 km að lengd.
Það blasir við að nota lausn af þessu tagi á þjóðvegum með mislægum gatnamótum, s.s. Vesturlandsvegi, Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi. Í borgarlínukerfinu er hins vegar reiknað með sérgötum til hliðar sem þarf að tengja saman með göngum eða brúm með tilheyrandi kostnaði.
Á borgarlínuleið milli Vogabyggðar og Mjóddar er gert ráð fyrir sérgötu sem lauslega áætlað er um tíu sinnum dýrari og gerir nánast ekkert gagn umfram hefðbundnu lausnina á Miklubraut, sem auk þess er margfalt fljótlegra að framkvæma og veldur minni umferðartöfum á framkvæmdatíma.
Vonandi bera valkyrjurnar í nýrri ríkisstjórn gæfu til að afstýra þessu stórslysi sem samgöngusáttmálinn í óbreyttri mynd felur í sér.
Höfundur er samgönguverkfræðingur.