Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Nei, í rauninni ekki. Virkjunin er svo vel staðsett að Búrfellslína 1 liggur beint yfir þann stað þar sem virkjunin á að rísa og það stóð alltaf til að tengja beint inn á hana,“ segir Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hvort dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun úr gildi, setti áform Landsnets um flutning raforku frá hinni væntanlegu virkjun í uppnám, eða raskaði áformum fyrirtækisins um uppbyggingu flutningskerfis raforku frá svæðinu að einhverju leyti.
„Við vorum farin af stað með að byggja tengivirki og dómurinn setur það verkefni í uppnám,“ segir Gnýr.
Tengivirkið á að rísa við hlið Hvammsvirkjunar, við hliðina á Búrfellslínu 1 sem liggur yfir Þjórsá á fyrirhuguðum virkjunarstað.
„Hvammsvirkjun er einstaklega vel staðsett með tilliti til núverandi innviða,“ segir Gnýr.
„Virkjunin krefst hins vegar nýs tengivirkis, en kostnaður við þá framkvæmd nemur um tveimur milljörðum króna. Við þurfum nú að sjá til hvernig málin þróast. Við vorum að fara af stað með að panta búnað fyrir tengivirkið og þurfum nú að skoða hvað við gerum í því samhengi. Við förum ekki í það að panta búnað ef það er einhver óvissa um framkvæmdina. Við þurfum að vera tryggir með að farið verði í hana,“ segir Gnýr og nefnir að verkefnið verði sett í biðstöðu þar til málin skýrast betur.
Orkuskortur yfirvofandi
Í raforkuspá Landsnets sem sett var fram nýlega kom fram að verulegur orkuskortur væri yfirvofandi í landinu. Þar sem ljóst er orðið að örugglega verða tafir á byggingu og þar með gangsetningu Hvammsvirkjunar muni orkuskortur í landinu vaxa enn frekar, hvað þá ef ekkert verður af byggingu virkjunarinnar sem hefur verið í undirbúningi í aldarfjórðung.
Segir í spánni að viðvarandi orkuskortur verði til skemmri tíma, allt fram til ársins 2029, og aftur til lengri tíma eftir 2040. Þá segir Landsnet að líkur séu á skerðingum á forgangsorku til notenda í ár.