Sigfús Eiríksson fæddist 7. maí 1947. Hann lést 21. desember 2024.

Útför Sigfúsar fór fram 15. janúar 2025.

Í dag verður kvaddur hinstu kveðju í Fella- og Hólakirkju bróðir minn og mágur, Sigfús Eiríksson. Hann fæddist í Reykjavík 1947 en fluttist með foreldrum og bræðrum sínum að Stóru-Hvalsá í Hrútafirði 1952. Þar átti hann sín bernsku- og unglingsár á fjölmennu sveitarheimili. Á þessum tímum var það nánast regla að krakkar og unglingar þurftu að hjálpa til með vinnu heima við og voru látin gera ýmislegt. Hann lærði því snemma að lífið var ekki bara leikur. Það þurfti að hafa fyrir hlutunum. Hestar voru honum sérstaklega hugleiknir á þessum árum og vann hann við tamningar eitt sumar. Þar eignaðist hann Jarp sem hét reyndar Haukur, algjör brokkari. Keppti hann á honum einu sinni á hestamannamóti úti í Bitru en ekki man ég í hvaða sæti hann lenti. Oft dró hann mig með sér til að gefa hestunum sem voru á húsi og var ýmislegt spjallað um hesta og fénað.

Þegar við hjónin fórum að stofna heimili var eitt og annað sem þurfti að laga eins og gengur. Það þurfti að færa vegg og það þurfti að leggja flísar. Þar sem þetta sýndist oft ekkert stórmál var bara vaðið í verkin meira af vilja en getu. Svo þegar allt var komið í óefni og basl þá var þrautaráðið: „Hringjum í Sigfús.“ Og aldrei brást það. Hann mætti eftir smástund með sín tæki og tól og málin leystust eiginlega af sjálfu sér. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar bjargaði hann okkur úr svona krísum og vann stundum megnið af vinnunni sjálfur. Erum við honum ævinlega þakklát fyrir það.

En starfið sem hann valdi sér varð honum þungt í skauti. Allt rykið frá sementi, sparsli, steinlímum og slípivélum tók sinn toll. Það ásamt reykingum um stóran hluta ævinnar á örugglega sinn þátt í því að lungun hættu að starfa eðlilega. Núna undanfarin ár hafa súrefniskútar og súrefnisvélar hjálpað mikið til og léttu honum lífið. Má segja að þessi búnaður hafi gert honum kleift að hafa fótaferð og hreyfa sig aðeins síðustu misserin. En þegar endurteknar sýkingar í lungum herjuðu á var lítið hægt að gera. Sigfús lést 21. desember á LSH Fossvogi eftir stutta legu þar. Að lokum þökkum við Sigfúsi kærlega alla hans greiðvikni við okkur, ásamt mörgum glöðum og góðum stundum sem við áttum saman.

Við sendum okkar bestu samúðarkveðjur til allra ættingja og vina.

Sigríður og Guðmundur (Sirrí og Gummi).

Við kveðjum kæran vin úr okkar dýrmæta hjónahópi sem hefur verið saman í rúm þrjátíu ár, hans er sárt saknað og hans litríku persónu. Sigfús var sterkur persónuleiki, hafði óborganlegan húmor og það var gaman að tala við hann. Sagði umbúðalaust skoðun sína á mönnum og málefnum.

Hann starfaði lengst af við múrverk og var góður fagmaður, einstaklega greiðvikinn og ávallt tilbúinn að veita leiðsögn í faginu ef með þurfti.

Oddfellowreglan var honum kær og starfaði hann þar um árabil. Sigfús var trúaður maður og vel lesinn í Biblíunni. Úr henni útskýrði hann svo vel á sinn einstaka hátt torlesinn texta fyrir vinum sínum í hópnum, innihald og merkingu orðsins.

Sigfús unni tónlist og hafði unun af að spila á harmonikku og átti afar góðan vinahóp sem spilaði með honum, uns kraftar hans voru þrotnir.

Það fór ekki fram hjá okkur hversu stoltur hann var af sinni fjölskyldu, þar var hann þátttakandi af lífi og sál, ekkert var honum óviðkomandi ef hann gat lagt lið.

Elsku Hanna og fjölskyldan öll, skarðið er stórt sem hann skilur eftir. Megi góður Guð styrkja og styðja á þessum erfiðu tímum.

Af eilífðar ljósi bjarma ber

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri' en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson)

Hinsta kveðja frá hjónahópnum,

Björg, Sóley, Páll og Ingibjörg.

Eldhuganum Sigfúsi Eiríkssyni harmonikuleikara kynntumst við félagarnir fyrst fyrir nokkrum árum þegar við fórum að reyna að spila með Harmonikufélagi Reykjavíkur. Þar hafði hann þá verið félagi í mörg ár. Spilatíma sótti hann hjá Karli Jónatanssyni harmonikuleikara o.fl. og spilaði í ýmsum hópum og hljómsveitum og þekkti fjölda tónlistarmanna.

Fljótlega eftir að kynni okkar hófust tók hann okkur að sér og hélt okkur við efnið með því að reka á eftir með æfingar. Lágmark taldi hann að hittast vikulega yfir vetrartímann. Stundum hringdi hann líka óþolinmóður og vildi að við kæmum strax í dag eða á morgun, hafði þá fundið nýtt lag sem hann vildi prófa eða var kominn með nýja harmoniku. Oftast vorum við þrír heima hjá honum en stundum fleiri. Spilamennskan var honum bæði ástríða og unun og þegar vel tókst til ljómaði hann eins og sól í heiði.

Sigfús var múrarameistari og vann við múrverk og flísalagnir á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þar nutu verkin dugnaðar hans og atorku til starfsloka. Þá gafst loks tími til að sinna áhugamálinu af fullri einurð. Ástríðunni fyrir harmonikunni og öllu sem henni fylgir. Svo fór heilsan að bila, lungun að gefa sig og síðustu misseri tók við barátta sem sífellt gerðist harðvítugri. Það var eins og eldmóður hans efldist allur í þessum átökum. Hann gaf ekkert eftir. Keypti bara þægilegri bíla og léttari og meðfærilegri harmonikur og hélt áfram að sækja harmonikumót víða um land.

Á síðasta ári hafði Sigfús frumkvæði að því að við fórum að spila með Harmonikufélaginu Gretti í Vestur-Húnavatnssýslu. Seinni hluta síðasta vetrar og í vor fórum við nokkrar ferðir norður til að æfa og hann þá alltaf með súrefniskútinn í eftirdragi. Að hans mati hefðu þessar ferðir mátt vera fleiri. Þeirra naut hann einlæglega síkátur og lífsglaður þrátt fyrir erfitt heilsufar. Afraksturinn var svo vel heppnaður dansleikur á harmonikumóti í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka 15. júní sl. Eftir það spilaði hann ekki opinberlega.

Að áeggjan Sigfúsar hófum við aftur æfingar heima hjá honum nú í haust. Í nóvember varð hann svo að leggjast inn á sjúkrahús. Þangað heimsóttum við hann og til hins síðasta var hugur hans við harmonikuna. Hann talaði um að nú þyrfti hann að fara að komast heim og æfa og svo yrðum við að fara norður og hitta félagana þar. Hann var með lagalistann nánast tilbúinn í höfðinu og allt yrði þetta að gerast sem fyrst. Á fimmtudegi ætluðum við til hans í heimsókn en þá hann bað um að því yrði frestað til næsta dags, það stæði víst til einhver fjölskyldufundur. Hann lést svo næsta laugardagsmorgun.

Við söknum vinar sem allt til síðustu samverustundar hvatti okkur áfram með glaðværð og bjartsýni. Þannig minnumst við Sigfúsar Eiríkssonar.

Við sendum Hönnu og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Sveinn Kjartansson
og Þórður Skúlason.