Þorsteinn Þorsteinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Heiðar á Varmalandi, vann björgunarafrek á Holtavörðuheiði í vikunni þegar hann synti að bíl sem hafnað hafði utan vegar til að bjarga tveimur mönnum sem sátu fastir á þaki hans. Mikill vatnselgur var á og við veginn en bílinn hafði hafnað utan vegar og var kominn á kaf. Þorsteinn sagði vatnið hafa verið djúpt og hann hefði ekki botnað, því ákvað hann að synda út að bílnum með línu svo hægt væri að bjarga mönnunum. Það tókst. Mennirnir voru kaldir og hraktir en þeim varð ekki meint af, sem betur fer.
Í hverri viku, allt árið um kring, sinnir björgunarsveitarfólk útköllum vegna óhappa eða slysa og leitar að týndu fólki. Þegar náttúruhamfarir verða reiða yfirvöld sig á aðstoð björgunarsveitanna. Í landinu eru 93 björgunarsveitir og sjálfboðaliðar innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru um 18 þúsund talsins.
Við sem hér búum vitum að íslenskt samfélag gæti aldrei gengið án vinnuframlags þeirra við að sinna útköllum vegna slysa, náttúruhamfara, leitar og björgunar. Samt finnst mér stundum eins og fólk líti á sjálfboðastarf björgunarsveitanna sem sjálfsagt mál. Það er það ekki. Það er ekkert sjálfsagt að leggjast til sunds í vatnselg á miðri Holtavörðuheiði til að bjarga ferðafólki. Það er ekkert sjálfsagt við að ganga fjörur og fjöll í leit að týndu fólki eða síga í jökulsprungu. Og það er ekkert sjálfsagt við að aðstoða yfirvöld við vegalokanir í óveðrum eða við öryggisgæslu við svokölluð „túristagos“.
Fólkið í björgunarsveitunum leggur sig reglulega í mikla hættu við aðgerðir. Oft og tíðum reynir þátttaka í leit og björgun ekki síður á sálarþrek björgunarfólks en líkamlegt úthald. Í vikunni minntumst við þess að 30 ár eru liðin frá snjóflóðunum í Súðvík. Náttúruhamfarirnar á Vestfjörðum 1995 voru reiðarslag fyrir þjóðina. Menn sem tóku þátt í björgunaraðgerðum eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri hafa lýst því hvernig atburðirnir hafa haft langvarandi neikvæð áhrif á líf þeirra. Norðfirðingar hafa líka sagt frá því hvernig flóðin fyrir vestan opnuðu ógróin sár eftir snjóflóðin í Neskaupstað 1974. Nú er þekking á áhrifum áfalla sem þessara á fólk miklu dýpri og víðtækari en þá var og björgunarfólk ekki skilið eftir eitt með erfiða upplifun að vinna úr. Það á líka við um fólk sem lendir í náttúruhamförum sem þessum og missir ástvini sína og eigur. En alltaf má betur gera.
Slysavarnafélaginu Landsbjörg er lýst sem félagi í þágu þjóðar. Það stendur heima. Þau sem eru aflögufær gera margt vitlausara en að gerast bakhjarlar björgunarsveitanna og styrkja sjálfboðastarf þeirra með reglulegum fjárframlögum. Við þurfum á þeim að halda.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. tsv@althingi.is