Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Friðrik Steingrímsson yrkir að gefnu tilefni:
Heimamenn og harðbýlingar
harla litlu ráða fá,
því að sunnan sérfræðingar
síst af öllu hlusta' á þá.
Dróttkveðinn handknattleikur er yfirskrift þessa erindis Gunnars J. Straumland:
Rosalegir risar
rota menn og pota,
feikna garpar fræknir
fljúga um og smjúga.
Hróður fæst með hraða
hendur knöttinn senda,
markið hitta merkir
máttarstólpar sáttir.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:
Hún er kvilli höfði á,
huglaus talinn maður sá,
húsdýr vítt um heiminn er,
og heitið stjörnumerki ber.
Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu vísnagátunnar. Úlfar Guðmundsson ratar á svarið:
Á höfði geitur skemma skinn.
Skelfur huglaus raggeitin.
Á bæjum geitur fimar finn.
Finnst á himni Steingeitin.
Þá Guðrún Bjarnadóttir:
Geitur sjást í höfði hans,
en hann er raggeit við þann dans.
Geitur stjákla um stíg og brú
og Steingeiturnar fæðast nú.
Ekki lætur Helgi Einarsson sitt eftir liggja:
Kossageit menn kemur á.
Kveif er raggeit hér.
Á himni steingeit greina má.
Geitin húsdýr er.
Magnús Halldórsson:
Gleður enga geit í haus,
við geit ég ragan kenndi.
Geit um heiminn gengur laus,
geit við stein á bendi.
Sjálfur leysir Páll þrautina svona:
Hefur geitur höfði á,
huglaus raggeit maður sá,
steingeit skin á himni há
sem húsdýr geit má víða sjá.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Vex á fótum hesta hér,
hluti þaksins nafnið ber,
á gömlum lykli einnig er,
orðið löngu grátt á mér.