Sendiherrabústaður Frakka við Skálholtsstíg er glæsilegt hús. Þar hafa allir franskir sendiherrar búið og í dag býr þar sendiherrann Guillaume Bazard. Hér hefur hann nú starfað í rúm tvö ár en vann áður í áratugi sem diplómat víða um heim. Bazard hefur búið í Noregi, Indlandi, Bosníu, Portúgal, Bretlandi og nú á Íslandi. Hér líkar honum vel að búa en kona hans, sem er norsk, býr í Noregi ásamt unglingsdóttur og sonurinn býr í Bretlandi. Bazard er með bakgrunn í tungumálum og stjórnmálafræði en fyrir tilviljun endaði hann í utanríkisþjónustunni eftir að prófessor í háskóla stakk upp á því við hann.
Eitthvað gott alls staðar
Starfið í utanríkisþjónustu segir Bazard hafa reynst áhugavert og hefur hann öðlast mikla reynslu af því að búa og starfa á erlendum vettvangi. Spurður hvaða land sé í uppáhaldi svarar hann:
„Ég var í Bosníu rétt eftir stríðið sem var afar áhugaverður tími. Þar hitti ég líka konuna mína sem var þar norskur diplómat. Það var líka merkilegt að vera í Indlandi á meðan fjármálakreppan gekk yfir Evrópu og sjá hana frá öðru sjónarhorni. En Portúgal var besta landið fyrir fjölskylduna og Bretland var mjög fínt. Það er eitthvað gott í öllum löndum,“ segir hann, en hingað hafði Bazard einu sinni komið sem ferðamaður, árið 1992.
Þegar hann sá að staða sendiherra hér á landi var laus til umsóknar sótti hann um og fékk. Hann segist ekki hafa komið hingað með stórar hugmyndir um breytingar.
„Fyrst þarf maður að koma og taka út starfið, en eitt sem mér fannst mega bæta var pólitískt samtal á milli landanna. Sem franskur sendiherra er mikilvægt að tungumál og menning séu stór hluti af starfinu. Við vinnum í nánu samstarfi við Alliance Francaise og sinnum þá menningarmálum og tungumálinu. Hér hefur til að mynda verið haldin frönsk kvikmyndahátíð í 25 ár,“ segir hann, en sú hátíð er einmitt nú í gangi í Bíó Paradís og stendur til 26. janúar með afar fjölbreyttri dagskrá.
Helgarnar á fjöllum
Í hverju er vinnan aðallega fólgin?
„Sendiherrar vinna náið með utanríkisráðuneytinu þar sem rætt er um alþjóðleg stjórnmál, eins og stöðuna í Úkraínu sem dæmi. Einnig er rætt um hvernig við vinnum með alþjóðlegum samtökum og Sameinuðu þjóðunum. Þá þarf að huga að efnahagslegum tengslum landanna; hjálpa frönskum fyrirtækjum sem hafa áhuga á að starfa hér. Frakkar hafa fjárfest hér undanfarin ár,“ segir hann og nefnir sem dæmi að árið 2022 hafi Míla verið seld til franska fjárfestingasjóðsins Ardian. Auk þess eru áform um viðskipti hér varðandi gagnaver og vindorku.
„Viðskipti milli landanna eru ekki mjög mikil, en nýlega keypti Icelandair til dæmis nýjar Airbus-vélar,“ segir hann.
„Hér áætlum við að búi um eitt þúsund til tólf hundruð Frakkar, flestir á suðvesturhorninu. Margir vinna í ferðamennsku en einnig í háskólum og rannsóknarsetrum.“
Mér skilst að þú sért alltaf á fjöllum?
„Ekki kannski alltaf. Ég er nú stundum á skrifstofunni,“ segir hann og hlær.
„En um helgar, ef veður leyfir, fer ég í fjallgöngur eða út í náttúruna. Mig langar að sjá eins mikið og ég get af landinu. Ég nýt þess líka að keyra um landið með myndavélina, en ég er amatörljósmyndari og stoppa gjarnan þegar ég sé eyðibýli eða fallega birtu og mynda. Oftast fer ég einn en mig langar að fá son minn með mér næsta sumar í alvörufjallgöngu,“ segir Bazard og viðurkennir að það geti verið erfitt að dvelja langdvölum frá fjölskyldunni en hann á eftir að búa og starfa hér í tvö ár í viðbót.
Maturinn betri en í Noregi
Blaðamaður getur ekki setið á sér og spyr eins og Íslendingar gjarnan gera þegar útlendingar eru annars vegar:
How do you like Iceland?
„Ég elska Ísland! Ég var svolítið hissa hversu ólíkt það er hinum Norðurlöndunum; Ísland er mjög sérstakt. Mér finnst það algjörlega heillandi. Þið gerið hluti oft öðruvísi en aðrar þjóðir. Ég er líka mjög hrifinn af bókmenntum hér og er til að mynda að lesa Laxness og er hrifinn af Auði Övu.“
Hvað finnst þér um matinn hér?
„Mjög góður. Það er gott að konan mín heyrir ekki til en maturinn hér er miklu betri en í Noregi,“ segir hann og hlær.
„Ég hef ekki smakkað skötu því mér hefur verið ráðið frá því en hef farið á þorrablót á Vestfjörðum og smakkaði þá til dæmis hákarl. Ég gæti alveg lifað án hans, en hann er ágætur með snafs,“ segir hann kíminn.
Árlega er hér haldin franska matarhátíðin Keimur þar sem kynntar eru franskar vörur og franskir kokkar mæta til að hitta íslenska kollega sína.
„Þetta hefur verið mjög vinsælt. Við fáum alltaf franska kokka frá ýmsum héruðum Frakklands til að koma og halda kynningar og námskeið.“
Tökur hefjast í fyrramálið
Sendiherranum er margt til lista lagt en hann tók nýlega að sér hlutverk frönskukennara í þáttum Vesturports um Vigdísi forseta. Þar var hann ekki mjög liðlegur við hina ungu Vigdísi sem bað um að einkunn yrði endurskoðuð.
Bazard skellihlær þegar spurður hvort hann sé orðinn sjónvarpsstjarna í hjáverkum.
„Ég myndi ekki orða það svo.“
Hvernig kom það til að þú fékkst þetta hlutverk?
„Það er góð spurning! Þú gætir kannski komist að því fyrir mig. Þau í Vesturporti hringdu í mig og spurðu hvort ég gæti leikið hlutverkið. Ég þakkaði fyrir en sagðist ekki hafa tekið einn einasta leiklistartíma á lífsleiðinni og aldrei leikið neitt, ekki einu sinni í barnaskóla. Ég sagðist samt vera allur af vilja gerður að hjálpa til og fékk sendar þessar línur. Svo heyrði ég ekkert í tvo mánuði og fékk svo skilaboð um að tökur hæfust í fyrramálið,“ segir hann og hlær.
„Þetta er afar lítið hlutverk; ég er kannski þrjátíu sekúndur á skjánum. Ég er frekar stífur og leiðinlegur við Vigdísi og segi að ekki sé hægt að víkja frá reglum. Þetta var mjög spennandi og þrátt fyrir að vera bara í einni senu var ég á settinu allan daginn. Senan þegar við löbbum eftir ganginum var tekin upp sjö eða átta sinnum. Ég var frekar stressaður en þetta fór vel; senan var að minnsta kosti ekki klippt út.“
Hélt þessu leyndu lengi
Ertu þá að huga að því að skipta um starfsvettvang?
„Nei, nei, ég held ekki. En það var gaman að leika á móti Elínu Hall. Ég hef hitt Vigdísi; hún hefur til dæmis komið hingað í kaffi og ég man að hún ræddi við mig um dvöl sína Grenoble. Hún sagði að það hefði verið erfitt að vera þar en allt hefði orðið betra þegar hún flutti til Parísar. Hún átti í mjög góðum samskiptum við Frakkland þegar hún var forseti og kenndi sjálf frönsku og við berum mikla virðingu fyrir henni.“
Hvernig var að horfa á sjálfan sig á skjánum?
„Það var ekki mjög kvalafullt. Það tók fljótt af. Þetta var virkilega skemmtileg reynsla.“
Hvað sögðu yfirmenn þínir í París um þetta uppátæki að leika í sjónvarpi?
„Ég hélt þessu leyndu fyrir þeim alveg þar til þetta fór í loftið því ég vissi ekkert hvort eitthvað yrði af þessu eða hvort ég yrði klipptur út. Fyrir tuttugu árum hefði ég þurft að fá leyfi hjá mínum yfirboðurum en það eru ekki svo stífar reglur í dag,“ segir hann og brosir.