Öryggisráð Ísraels samþykkti í gær samkomulag um vopnahlé á Gasa og lausn gísla. Lagði ráðið til við ríkisstjórn Ísraels að vopnahléið yrði samþykkt eftir að hafa farið yfir allar hliðar er snúa að öryggis- og mannúðarmálum sem og pólitíska stöðu málsins.
Ríkisstjórnarfundur hófst í gær en fregnir af niðurstöðu hans höfðu ekki borist þegar Morgunblaðið fór í prentun á tólfta tímanum. Hafði ríkisstjórnin þá rætt samkomulagið í sex klukkustundir og var klukkan farin að ganga tvö um nótt í Ísrael.
Samkomulagið sem um ræðir á að koma til framkvæmda í þremur áföngum. Um 60 gíslar eru enn taldir á lífi af þeim 251 sem Hamas rændi í hryðjuverkunum 7. október 2023. Í fyrsta áfanganum eiga Hamas-samtökin að sleppa 33 af þeim gíslum sem samtökin tóku 7. október, gegn því að Ísraelar láti lausa um þúsund manns sem dvelja í ísraelskum fangelsum. Gæti fyrstu gíslunum verið sleppt úr haldi strax á morgun, sunnudag. Samhliða fangaskiptunum mun Ísraelsher draga sig frá Gasasvæðinu og tryggt verður að íbúar svæðisins geti snúið aftur til síns heima. Þá verður neyðaraðstoð stóraukin, og er gert ráð fyrir að hundruð vörubíla fái að fara inn á Gasasvæðið á degi hverjum.
Viðræður um framkvæmd annars og þriðja áfanga samkomulagsins munu hefjast þegar 16 dagar verða liðnir af vopnahléinu.
Óvissa ríkti á fimmtudagsmorgun um framtíð vopnahléssamkomulagsins sem hafði verið tilkynnt kvöldið áður. Sakaði ríkisstjórn Ísraels þá Hamas um að ætla að ganga á bak orða sinna. Hamas-samtökin þvertóku fyrir það og sagði Sami Abu Zuhri, einn af leiðtogum Hamas, ásakanir Ísraela tilhæfulausar.