Gunnar Þór Finnbjörnsson
Garðabær hyggst reisa háa og þétta byggð á svokölluðu Arnarlandi sem afmarkast af Hafnarfjarðarvegi, Arnarnesvegi og Fífuhvammsvegi. Á undanförnum misserum hafa stjórnendur Garðabæjar haldið fjóra fundi til að kynna áform sín fyrir íbúum. Greinarhöfundur hefur áður drepið niður penna um þetta mál enda fátt breyst í fyrirætlunum Garðbæinga.
Á öllum þessum fundum hefur gætt gífurlegrar óánægju meðal þeirra sem búa umhverfis þessa fyrirhuguðu byggð. Arnarnesbúar óttast skuggamyndun og að háhýsin muni gnæfa yfir austurhluta Arnarness og íbúar Akralands óttast m.a. borgarlínu sem fyrirhuguð er í gegnum hverfið þeirra.
Íbúar Smárahverfisins í Kópavogi munu þó líða langmest verði þessi byggð að veruleika. Útsýni úr hverfinu út á sjálfan Kópavoginn verður skert verulega þegar allt að sjö hæða byggingar munu gnæfa yfir voginn. Kópavogsbúum finnst það einkennilegt að Garðabær skuli ætla að eyðileggja heilt hverfi nágranna sinna með þessu móti. Mikið nær væri ef Garðabær vill reisa háhýsi að reisa þau í landi þar sem þau henta. Garðabær á nóg land. Enn verra er að langmestur hluti umferðar þessa hverfis í Garðabæ er fyrirhuguð um Fífuhvammsveginn í Kópavogi. Rætt hefur verið um 8.000 bíla á dag. Garðabær hyggst byggja hátt og mikið en umferðin mun fara inn í Kópavoginn. Aldrei áður á Íslandi hefur eitt bæjarfélag gert öðru bæjarfélagi annan eins óskunda og Garðbæingar áætla nú.
Nýjasta hverfið í Garðabæ, Urriðaholt, sýnir vel hvernig Garðabæ tókst til að hanna umferð um stór hverfi. Umferðin er svo mikil á álagstímum að aðeins fuglinn fljúgandi á greiða leið um hverfið. Við viljum ekki að Smárahverfið verði neitt þessu líkt.
Síðastliðið sumar lýsti bæjarstjóri Garðabæjar áhyggjum vegna nokkurra ungmenna í Garðabæ sem þurftu að fara svokallaða flóttamannaleið frá Urriðaholti á leið til golfiðkunar á golfvellinum Oddi. Sami bæjarstjóri vill nú reisa risabyggð nánast inni í vítateig hjá Breiðabliki í Kópavogi, stærsta íþróttafélagi landsins, með 3.500 iðkendur. Mestmegnis börn og ungmenni. Við hlið Breiðabliks er Smáraskóli með 500 skólabörn. Rétt hjá er svo World Class og Tennishöllin þar sem þúsundir ungmenna iðka sínar íþróttir. Flest þessara barna og ungmenna fara um Fífuhvammsveginn. Það er ljóst að mikil hætta mun skapast ef umferð eykst þarna til muna.
Fyrirhuguð byggð er ekki í neinu samræmi við aðra byggð í nágrenninu. Arnarnesið er lágreist, Akralandið er lágreist, Kársnesið er lágreist og vestasti hluti Smárahverfisins er að mestu lágreistur. Garðbæingar hyggjast byggja hátt, þrátt fyrir að stjórnendur Kópavogs hafi ítrekað fært til bókar að þeir vilji lágreista byggð þarna í samræmi við aðrar nærliggjandi byggðir. Stjórnendur Kópavogs hafi einnig hafnað því að umferð úr hverfinu fari um Fífuhvammsveg í Kópavogi, heldur fari hún um Arnarnesveg í Garðabæ.
Svo háttar til að greinarhöfundur er alinn upp í Garðabæ, bjó þar fram á fullorðinsár og er hlýtt til bæjarins. Gjarnan var leikið í umræddu Arnarlandi, sem þá var krökkt af fuglalífi og er reyndar enn. Garðabær, sem áður hét Garðahreppur, var fallegur lágreistur bær þar sem menn undu glaðir við sitt. Nú er öldin önnur. Peningaöflin hafa tekið völdin, byggt er hærra og þéttar en nokkru sinni fyrr og hin gömlu gildi Garðabæjar eru löngu farin fyrir bí.
Og hver á svo Arnarland? Meirihlutann á Arion banki og minnihlutann á lyfjatengda fyrirtækið Ósar. Þessi fyrirtæki vilja auðvitað hámarka sinn hagnað. Minna máli skiptir þótt Kópavogsbúar missi útsýni sitt út á Kópavoginn og taki í staðinn á móti þúsundum bifreiða Garðbæinga á degi hverjum.
Við stjórnendur Garðabæjar vil ég segja: Þið eruð á villigötum. Það eru takmörk fyrir því hve illa er hægt að koma fram við nágranna sína. Við stjórnendur Kópavogs vil ég segja: Nú ríður á að þið standið vörð um hagsmuni íbúa Kópavogs. Látið ekki stórgróðafyrirtæki og nágrannasveitarfélag ráða ásýnd hjarta Kópavogs um ókomna framtíð. Þetta umhverfisslys má ekki verða að veruleika.
Höfundur er viðskiptafræðingur.