Klara Elías kemur fram á tónleikunum um næstu helgi.
Klara Elías kemur fram á tónleikunum um næstu helgi. — Ljósmyndir/Óskar Pétur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er í 14. sinn sem Eyjatónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu en annar staður var aldrei inni í myndinni. „Það var enn verið að byggja Hörpu þegar ég hafði fyrst samband,“ segir Bjarni Ólafur Guðmundsson, alltaf kallaður Daddi,…

Þetta er í 14. sinn sem Eyjatónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu en annar staður var aldrei inni í myndinni. „Það var enn verið að byggja Hörpu þegar ég hafði fyrst samband,“ segir Bjarni Ólafur Guðmundsson, alltaf kallaður Daddi, sem hefur haft veg og vanda af tónleikunum ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Mary Ólafsdóttur.

Upphaflega stóð til að heiðra minningu Oddgeirs Kristjánssonar, hins sívinsæla lagahöfundar úr Eyjum, sem lést 1966, á einum tónleikum árið 2011. Tónleikarnir heppnuðust afar vel og voru aðstandendur óspart hvattir til að endurtaka leikinn að ári. „Fyrir utan tónlistina gerðist eitthvað ótrúlegt á þessum tónleikum enda var sumt af fólkinu sem mætti að hittast í fyrsta skipti síðan í gosinu. Þetta varð strax öðrum þræði að átthagafundi og -fagnaði. Eða eins og ég segi stundum: stærsta árganga- og ættarmóti í Evrópu. Okkur var því ljúft og skylt að halda áfram,“ segir Daddi.

Ekki of nálægt Þjóðhátíð

Það var Elliði Vignisson, þáverandi bæjarstjóri í Eyjum, sem átti hugmyndina að því að færa tónleikana fram í janúar og tengja þá þannig betur við gosið. „Okkur leist strax vel á þá hugmynd,“ segir Daddi og bætir við að gott sé að hafa tónleikana í hæfilegri fjarlægð frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Þessi tveir viðburðir megi ekki liggja of nálægt hvor öðrum.

Fyrir tónleikana 2013 samdi Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson sérstakt lag við ljóð Kolbrúnar Hörpu Kolbeinsdóttur og hefur það verið flutt af og til síðan. „Það var líka á þeim tónleikum sem allir risu úr sætum þegar Yndislega eyjan mín var flutt, eins og um sjálfan þjóðsönginn væri að ræða. Það var ógleymanleg stund og auðvelt að sjá hversu mikla þýðingu þessi tónlist hefur fyrir Eyjamenn og fólk sem tengist Eyjum,“ segir Daddi.

Eftirminnilegustu tónleikarnir voru 2023, þegar 50 ár voru liðin frá gosinu, frammi fyrir stútfullri Eldborg og í beinu streymi. Alls hafa tónleikarnir þrisvar verið í beinni útsendingu eða streymi. „Alls höfum við flutt hátt í 150 lög á þessum tónleikum sem segir okkur þvílík fjársjóðskista þetta er fyrir svona lítið byggðarlag. Ég get vel ímyndað mér að þetta sé einsdæmi í heiminum.“

Risastór popplög

Á tónleikunum í ár fær Þjóðhátíð meira vægi en oft áður enda segir Daddi hana hafa getið af sér risastór popplög á undanförnum árum og fólk bíði eftir nýju lagi á hverju sumri. „Það þýðir að það er orðið lúxusvandamál að velja lögin en við viljum auðvitað líka halda í gömlu lögin hans Oddgeirs. Við munum flytja alla vega 14 þjóðhátíðarlög núna,” segir Daddi.

Bjartmari Guðlaugssyni verður einnig gert hátt undir höfði að þessu sinni; hann kemur fram sjálfur og aðrir munu líka flytja lög hans. „Hann fær gott ljós á sig enda snillingur,“ segir Daddi.

Klara Elías verður líka í stóru hlutverki en hún hefur komið að tveimur þjóðhátíðarlögum, auk þess sem hún flutti lagið Heim í beinu streymi í heimsfaraldrinum 2020 sem Daddi segir að sé ígildi þjóðhátíðarlags.

Magni forfallast

Af öðrum söngvurum má nefna Siggu Beinteins og sjálfan brekkusöngvarann, Magnús Kjartan. Til stóð að Magni yrði með en hann varð að segja sig frá verkefninu vegna veikinda. Í hans stað kemur enginn aukvisi, Matti Matt. „Hann hefur verið með okkur áður og er algjörlega frábær söngvari.“

Þarna verða líka, eins og alltaf, söngvarar úr grasrótinni í Eyjum; hjónin Sæþór Vídó og Kristín Halldórs, ELÓ og Guðný Emilíana Tórshamar, ásamt stórhljómsveit undir stjórn Þóris Úlfarssonar.

„Þetta verður rosalega fjölbreytt og ég lofa frábærri skemmtun fyrir alla sem hafa gaman af góðum partíum,“ segir Daddi sem kynna mun tónleikana ásamt frænku sinni Elvu Ósk Ólafsdóttur eins og þau gerðu á fyrstu tónleikunum 2011.

Spurður hvort tónleikarnir fari fram að ári svarar Daddi:

„Nei, það er ólíklegt. Eins og staðan er núna reiknum við með að taka pásu næstu tvö árin en koma aftur þegar 55 ár verða liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey, árið 2028.“