Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það er útilokað að segja til um hversu mikill kostnaður mun fylgja þessari töf. Það fer eftir því hversu löng hún verður. Það er dýrt að undirbúa vatnsaflsvirkjun og þegar við erum neydd til að fresta útboðum ítrekað og vinna gögn upp á nýtt er kostnaðurinn fljótur að hlaðast upp,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hvaða kostnað dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun, hefði fyrir Landsvirkjun. Ljóst er að verulegar tafir verða á framkvæmdum vegna þessa, en þó er ekki vitað á þessari stundu hve lengi verkefnið mun tefjast.
„Við vorum samt meðvituð um þá áhættu sem tengdist leyfisveitingum í þessu verkefni og stigum því ákveðið en varlega til jarðar með því að skipuleggja útboð og verkáætlun þannig að fjárhagsleg áhætta væri ásættanleg,“ segir Hörður.
Tap samfélagsins mest
„Við leitumst við að lágmarka tjón fyrirtækisins sem er þó óhjákvæmilegt, en tap samfélagsins er auðvitað mest. Það er mikil þörf fyrir meiri endurnýjanlega orku nú þegar kerfið er fullselt – og það er hreinlega ekki hægt að slá tölu á það tjón sem frekari seinkun á gangsetningu Hvammsvirkjunar mun valda,“ segir hann.
„Nýjustu áætlanir okkar gerðu ráð fyrir því að virkjunin yrði ræst síðla árs 2029 ef allt gengi að óskum. Nú gæti gangsetningin farið að detta inn á næsta áratug, þegar Ísland ætlar að vera búið að draga úr losun um 55% frá 1990. Og eins og Samtök iðnaðarins hafa jafnframt bent á fara ný tækifæri forgörðum í atvinnuuppbyggingu sem hefðu getað skapað miklar útflutningstekjur fyrir þjóðina,“ segir Hörður.
Milljarðatap, hærra orkuverð
Í Morgunblaðinu í gær greindi Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, frá því að milljarðatap útflutningstekna væri fyrirsjáanlegt vegna þessa. Einnig að raforkuverð til almennings myndi hækka enn frekar en orðið er vegna orkuskorts.