Svanur Hvítaness Halldórsson fæddist 1. mars 1935. Hann lést 18. desember 2024.

Útför Svans fór fram 15. janúar 2025.

Elsku afi á Meló.

Takk fyrir alla hlýjuna og góðu stundirnar öll þessi ár, það er erfið tilhugsun að geta ekki hitt þig aftur en við vitum að þú ert nú frjáls með fólkinu okkar í Sumarlandinu. Pottþétt á hestbaki að prakkarast eitthvað eða keyrandi um á flottum vel bónuðum bíl.

Við systkinin áttum öll einstakt samband með þér.

Hera var svo heppin að fá flest árin og man svo vel eftir þegar hún var lítil hvað það var gott að kúra hjá þér þegar þú varst að hvíla þig fyrir næturkeyrsluna. Þú varst alltaf tilbúinn að segja manni sögur og spjalla um lífið og tilveruna. Svo auðvitað allar ferðirnar upp í hesthús en Hera var nú ekki eins hrifin af hestunum, hún beið frekar inni á kaffistofu því það var alltaf eitthvað gott til þar. Nökkvi talar sérstaklega um þær tvær vikur sem hann bjó hjá þér, það fór alveg með þig hvernig hann drakk mjólkina úr skálinni eftir að hafa klárað morgunkornið sitt þannig að þú kenndir honum að maður eigi að nota skeiðina til að klára mjólkina. Álfþór minnist þess að eitt skipti um jólin lagðir þú þig eftir matinn. Þegar komið var að möndlugjöfinni borðuðum við sem vakandi vorum ísinn af bestu lyst, en hvergi var mandlan. Sofandi inni í barnaherbergi hafðir þú unnið möndlugjöfina. Fyrsta sem kemur í huga Heklu er það að þig hafi dreymt að hún ætti von á stelpu, áður en hún varð síðan ólétt að stelpunni sinni. Sýnir hvað þú varst alltaf með hugann hjá fólkinu þínu.

Við hugsum til þín með hlýju í hjarta, því þú sýndir okkur einmitt alltaf það, hlýju. Sama hvað þá gátum við systkinin alltaf stólað á að fá bestu bílaráðin frá þér. Þú varst einstakur maður, góður vinur og alltaf hægt að koma í heimsókn til þín í gott spjall, þú hafðir svo mikinn áhuga á okkur og hvað við öll værum að gera í lífinu. Þú ert bestur og við erum svo þakklát fyrir þig. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar.

Knús,

Hera, Álfþór, Hekla Eir og Nökkvi Hvítaness.

Tíminn undir það síðasta varð Svani Halldórssyni erfiður vegna heilsubrests. Væri hann ekki sá sem hann var hefði hann án efa kvatt fyrr. En hreystin og seiglan var miklu meiri en venjulegt er hjá venjulegum mönnum enda fór Svanur hvergi, löngu eftir að heilsan brást honum.

Svanur Halldórsson var um margt óvenjulegur maður, afburðaskemmtilegur, frásagnargáfan einstök, fróður og síleitandi, áhugasamur um allt í mannlífinu, ekki síst pólitíkinni. Þar lágu okkar leiðir saman.

Að Svani standa sterkir stofnar. Ég þekki minna til móður hans en ég gjarnan vildi, „þeirrar gömlu góðu Svövu Jónsdóttur frá Geitavík í Borgarfirði eystra“, sem Gyrðir Elíasson skáld hefur vísað til með hlýju í skrifum sínum, en þeim mun meira þekki ég til föður hans, Halldórs Péturssonar, sem á sinni tíð var landskunnur maður, ýmist titlaður sjómaður, verkamaður, rithöfundur – og heimspekingur, myndi ég vilja bæta við. Í afmæliskveðju lýsir Ármann Halldórsson fræðimaður honum með vísan í æskuslóðir á Héraði. Hann segir Halldór hafa hlotið „í vöggugjöf margs konar erfðir“, en „far hans og fas“ sé eigi að síður áþekkt náttúru landsins: „Heimilisforsjá, skyldurækni og vinátta er jafntraust klettaásunum, sem aldrei bifast, en á hinn bóginn hefur runnið í hann einhver geirastaðakvísl með ókyrrleika og fjöri …“

Þarna er sonurinn, Svanur Halldórsson, lifandi kominn! Svanur talaði alla tíð af mikilli virðingu og væntumþykju um fjölskyldu sína og reyndist henni jafnan hinn trausti klettur.

Hann var rauður í pólitíkinni, fastur fyrir en jafnframt umburðarlyndur. Vildi „hugsa með heilanum“ en ekki bara „maganum“ eins og faðir hans hafði skrifað í merkilegri bók um kreppuna og hernámsárin. Ef við hugsum bara með maganum, segir hann þar – og þekkti hann vel kreppuna í raun í maga sínum og sinna – þá verður bylting eina úrræðið. Það þyrfti líka að reyna aðrar leiðir. En úrræði yrði að finna gegn fjármagnsöflunum, kapítalistarnir – margir ágætismenn sem gæfu snjótittlingum stundum grjón í harðindum – myndu aldrei ótilneyddir gefa neitt eftir af hagsmunum sínum; stæðu ævinlega saman – „þekkja lyktina hver af öðrum“. Að sama skapi þurfi verkafólk að standa saman í baráttu fyrir réttlátara þjóðfélagi.

Svanur Halldórsson kom vel undir sig fótunum í lífinu með vinnusemi og ráðdeild. En innsýn hans í erfiða lífsbaráttu hefur án efa orðið honum hvatning til að gerast baráttumaður fyrir félagslegu réttlæti. Þeim manni kynntist ég vel.

Þótt gaman sé að grafa sig inn í fortíðina og sjá nútímann í bland við fyrri tíð þá þurfti í rauninni ekkert að vita um hverjar voru vöggugjafir Svans Halldórssonar til að hrífast af honum.

Betri félaga var ekki hægt að hugsa sér; velviljaður og ráðagóður og raungóður þegar á þurfti að halda. Um það gæti ég haft mörg orð en læt að sinni nægja að segja að vináttu hans og hjálpsemi mun ég ætíð minnast með miklu þakklæti.

Konu hans, Jóhönnu, börnum þeirra og fjölskyldum færum við Valgerður kona mín okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ögmundur Jónasson.

Sá sem eignaðist vináttu Svans Halldórssonar var aldrei einn. Þar tala ég af eigin reynslu.

Við kynntumst fyrir tæpum sjö áratugum, árið 1957. Ég vann þá á bílasölu en Svanur var atvinnubílstjóri með bæði mikla þekkingu og óþrjótandi áhuga á öllu sem viðkom bílum. Má heita að við höfum smollið saman við fyrstu viðkynningu og eftir því sem árin liðu urðu vinabönd okkar traustari og var svo til hans hinsta dags. Þegar ég nú kveð Svan er mér vináttan og trygglyndið efst í huga.

Betri og skemmtilegri samferðamann en Svan Halldórsson er vart hægt að hugsa sér, alltaf léttur í lund og kátur og tilbúinn í grín og glens. Þar gat hann verið glettinn, stundum gráglettinn. Fyrir kom að menn móðguðust vegna uppátækja hans en allt endaði þó jafnan í þeim góða anda sem lagt var upp með.

Fyrr á árum var skemmtanamenning Íslendinga á margan hátt óbeislaðri en síðar varð og alltítt að við skemmtanahald brytust út ólæti og slagsmál. Enginn maður var þá betur til þess fallinn að stilla til friðar en Svanaur Halldórsson, bæði vegna þess hve sanngjarn og réttsýnn hann var og vegna líkamlegra burða, óhemju styrks og hreysti. Enginn gat haft hann undir.

Á mannamótum bar Svanur af öðrum mönnum. Það fór aldrei á milli mála þegar hann mætti til leiks en jafnan á sinn hægláta kurteisa hátt enda að upplagi hæverskur og mildur maður.

Svanur var maður rökræðunnar, hlustaði eftir sjónarmiðum manna hvort sem var í pólitík eða öðru; naut þess að rökræða og komast að niðurstöðu þótt grunngildum hans yrði seint haggað. Enginn þurfti að velkjast í vafa um hvar lífsviðhorf Svans Halldórssonar lágu. Hann þekkti til kreppuáranna í uppvexti sínum og lá hugur hans alla tíð með þeim sem áttu á brattann að sækja. Hann var maður félagslegs jöfnuðar og er það mín tilfinning að þau sjónarmið hafi styrkst innra með honum eftir því sem lengra kom á lífsbrautinni.

Eitt vil ég nefna sérstaklega úr okkar samræðu í áranna rás og það er hve tíðrætt honum varð um fjölskyldu sína og þá mestu gæfu í lífinu sem sér hefði hlotnast en hún var sú að hafa eignast Jóhönnu konu sína að lífsförunaut.

Fátt er dýrmætara en vinátta góðra manna. Það verður mér sífellt ljósara eftir því sem árin færast yfir. Þegar ég nú kveð minn góða vin sendi ég Jóhönnu konu hans, börnum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur með þeim skilaboðum að Svanur Halldórsson skilur eftir sig arfleifð sem þau geta verið stolt af.

Hafsteinn Hjartarson.